23.04.1938
Efri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 306 í C-deild Alþingistíðinda. (2715)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Hv. 11. landsk. talar nú ekki einungis eins og sá, sem valdið hefir. heldur einnig eins og sá, sem vitið hefir. Viðvíkjandi því, sem ég sagði um aukatekjurnar, þá benti hann á, að ég hefði farið rangt með það, er ég tilnefndi um flutningaskipin. Ég hefi ekki athugað þetta atriði sérstaklega, en það er ekki stórvægilegt, og læt ég það því liggja milli hluta. En hinsvegar kannaðist hv. þm. við afgreiðslugjaldið af fiskiskipunum. — Ennfremur sagði hv. þm. það, að um aukatekjurnar hefði verið hægt að fá upplýsingar, og meira að segja hefði hann getað fengið þær, en hann forðaðist samt að nefna nokkuð í þá átt.

Þá sagði hv. 11. landsk., að ekki mætti bera saman Vestmannaeyjar og Siglufjörð í þessu efni, vegna þess að afgreiðsla á tollvörum færi fram á annan hátt og auðveldari í Vestmannaeyjum heldur en Siglufirði, þar sem saltfisksútflutningurinn í vestmannaeyjum færi allur fram í gegnum Union. Ég held nú, að hv. þm. væri full þörf á að kynna sér þetta atriði betur, áður en hann fullyrðir neitt um það. Það er rétt, að frá landinu afgreiðir Union allan saltfisksútflutning, en á hverri höfn verður hver viðskiptamaður að sjá um sína pappíra sjálfur. Það væru eitthvað skrítnar útflutningsskýrslurnar hjá sýslumönnum úti um landið, ef fiskurinn væri allur afgr. frá Reykjavík. Auk þess er mikið afgr. frá Vestmannaeyjum annað en saltfiskur, t. .d. lýsi og mikið af ísuðum fiski.

Þá vildi hv. 11. landsk. gera lítið úr því, að nokkur þægindi væru fyrir bæjarfógetann að hafa tollgæzlumenn á Siglufirði, og sagði, að þeir hefðu aldrei verið þrír. Ég sagði, að þeir hefðu stundum verið 2–3 yfir sumartímann, og hygg ég, að það verði erfitt fyrir hann að hnekkja því, að stundum hafi þrír tollgæzlumenn verið þar samtímis. — En það var nokkuð einkennilegt, sem fram kom hjá hv. þm. í sambandi við þetta, sem sé það, að á Akureyri hefði bæjarfógetinn mikil not af tollgæzlumanninum, en bæjarfógetinn á Siglufirði hefði engin not af honum. Mér er ómögulegt að skilja þetta. Ég hefi einmitt ímyndað mér, að það væru hlunnindi fyrir embættismenn að hafa tollgæzlumenn sér við hlið, enda er það játað, að svo sé á Akureyri, og hví skyldi það ekki vera eins á Siglufirði?

En mér finnst þetta benda til þess, að hv. 11. landsk. lýsi þessu ekki alveg óhlutdrægt fyrir okkur. Og ég geri ráð fyrir, að þó að mikið bresti á, að sá kunnugleiki, sem ég hefi reynt að afla mér um þessi embætti, sé nægilegur, þá sé kunnugleiki hv. 11. landsk. sízt betri, og það er dálítið varhugavert, þegar ekki er hægt að líta báða aðilja jafnhlutlausum augum, eins og hv. þm. virðist gera.

Annars get ég látið útrætt um þetta mál, því að eins og ég tók fram áðan, þá er það ekki ég, sem ákveð þetta fé, heldur Alþ. í heild sinni, og verður því að skeika að sköpuðu, hvernig um þetta fer við atkvgr.