09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 308 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Fjhn. hefir athugað þetta frv. og þau lög, sem fyrir voru um skrifstofukostnað sýslumanna, og hefir hún orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. með 3 breytingum. Fyrsta breyt. er við tölul. 6, en þar er Ísafjarðarsýsla og Ísafjarðarkaupstaður að fyrir 18 þús. kr. komi 19 þús. kr. Eins og kunnugt er, þá eru Ísafjarðarsýslur — því bæði norðursýslan og vestursýslan heyra undir sýslumanninn á Ísafirði — ásamt Ísafjarðarkaupstað eitthvert allra umfangsmesta embætti landsins. N. þótti því rétt, að skrifstofukostnaður sýslumannsins á Ísafirði yrði ákveðinn 19 þús. krónur.

Þá hefir n. einnig viljað mæla með því, að tölul. 10, sem er um Siglufjarðarkaupstað, yrði hækkaður úr 13 þús. kr. upp í 14 þús. kr. Þar fer fram mikill útflutningur, og eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu, þá virtist það vera sérstaklega sanngjarnt, að bæjarfógetinn á Siglufirði fengi þessa hækkun á skrifstofukostnaði.

Í þriðja lagi leggur n. til, að skrifstofukostnaður sýslumannsins í Rangárvallasýslu hækki úr 2000 kr. upp í 2500 kr., og virðist það sanngjarnt, samanborið við aðrar sveitasýslur.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta lengra mál. Mér finnst ekki að brtt. á þskj. 478, frá hv. þm. A.-Húnv., eigi neinn rétt á sér. Brtt. er um það, að fella niður úr frv. ákvæðið um, að skrifstofukostnaður sýslumanna skuli greiddur mánaðarlega. Þeir greiða þau laun, sem þeir þurfa að inna af hendi, mánaðarlega, svo það virðist sanngjarnt, að skrifstofukostnaðurinn sé greiddur mánaðarlega fyrirfram. Ég legg því á móti þessari brtt.