09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (2726)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Mig hefir furðað nokkuð á því, að þetta frv. skyldi koma fram. Og mig furðar enn meir, að menn skuli ræða um efni þess þannig, eins og hér sé verið að úthluta bæjarfógetum og sýslumönnum einhverjum launum eða ákveða laun þeirra. Það er hinn mesti misskilningur, því hér er verið að tala um greiðslur, sem ríkissjóði ber af hendi að inna, því það er ríkið, sem á að reka þessar skrifstofur, en ekki einstakir menn. Það held ég, að hv. þm. verði að gera sér ljóst, að þetta eru skrifstofur ríkisins, og ekkert annað. Það hefir verið ákaflega mikið um það rætt í sambandi við skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta, að fé þetta var upphaflega ákveðið með það fyrir augum, að verðlag og annar kostnaður í landinu myndi haldast nokkuð stöðugt, en síðan kemur það í ljós, að á þessu er orðin mikil breyting. Það hefir haft í för með sér, eins og kunnugt er, að bæjarfógetar og sýslumenn hafa orðið að greiða skrifstofufé að meira eða minna leyti úr eigin vasa. Eins og komið var og eins og nú er samkv. þeim l., sem um þetta gilda, þá eiga yfirleitt þeir embættismenn, sem ekki eru sjálfir ríkir, ekki völ nema á tvennu: Annaðhvort að verða gjaldþrota eða stela úr sjálfs sín hendi til þess að borga kostnaðinn af skrifstofum sínum. Ég get ekki skilið, að ef hv. þm. sæju þetta mál frá réttri hlið, gæti þeim dottið í hug að ýta undir það, að þetta ástand skapist og þær afleiðingar, sem því hljóta að fylgja. Það virðist vera svo sjálfsagður hlutur, að hjá öllum hinum stærri embættismönnum, svo sem bæjarfógetum, greiði ríkið hinn raunverulega skrifstofukostnað, hvorki meira né minna. Ég hefi minnzt á þetta mál við stjórnarráðið, skrifstofu dómsmrn., út af því, að ég fyrir löngu bar fram þá till., að í fjárl. væri skrifstofukostnaður sýslumanna og bæjarfógeta áætlaður og fylgdu þau fyrirmæli, að hann skyldi greiddur eftir reikningum, sem ráðuneytið samþykki. Ég held ég megi fullyrða, að ég hafi minnzt á þetta mál við skrifstofustjórana í öllum ráðuneytunum, og ég hefi ekki heyrt annað en að skrifstofustjórarnir væru allir þeirrar skoðunar, að þetta væri hin rétta leið. Þeir hafa talið, að það væri engum vandkvæðum bundið að hafa strangt eftirlit með því, að skrifstofurnar yrðu ekki reknar á óhagkvæmari hátt fjárhagslega fyrir ríkið heldur en hliðstæðar skrifstofur í Rvík, sem reknar eru fyrir reikning ríkissjóðs og eru undir eftirliti ráðuneytisins. Það hefir engum manni dottið í hug að breyta til með þær.

Hvernig stendur nú á því, að hv. þm. skuli detta í hug að fara nú að ákveða öðru sinni fyrirfram, hvað skrifstofukostnaðurinn skuli vera, án þess að vita, hver hann er eða verður? Það er búið að ganga út í þetta fen áður. Það hefir haft í för með sér hinar hörmulegustu afleiðingar í allmörgum tilfellum, og a. m. k. hefir það sannazt, að þetta var algerlega á misskilningi byggt, að fara að ákveða skrifstofuféð fyrirfram. Það hefir ekki verið hægt að fylgja l., en þeim hefir þó verið fylgt það mikið, að óhæfa og vandræði hafa af hlotizt. Það vita allir hv. þm., að því hefir alls ekki verið fylgt að borga féð samkv. þessum l., sem ekki geta staðizt, og það mun eins fara með þessi l., ef frv. verður að l., að þau fá ekki staðizt.

Náttúrlega hefi ég ekki kunnugleika á kostnaðinum við öll embættin, svo ég get borið þau saman að því leyti. Það er þó líklegt, að stærstu fógetaembættin, svo sem Hafnarfjörður, Ísafjörður, Akureyri og Siglufjörður, séu þannig, að ekki sé hægt að gera mun á því, hve mikinn kostnað þau hafa í för með sér. Það er eðlilegt, að þau séu rekin með svipuðum kostnaði, og það myndi líklega koma í ljós, ef það fyrirkomulag yrði tekið upp, sem ég hefi stungið upp á. Það embætti, sem ég hefi helzt kunnugleika af, hvað dýrt er að reka, er embættið á Ísafirði, og veit ég, að sú áætlun, sem hér er gerð, er alls ekki rétt. Ég veit, að það er hægt að sanna það reikningslega. Ég hefi það mikla kunnugleika af rekstri þessarar skrifstofu, að mér er kunnugt um það, að bæjarfógetinn á Ísafirði hefir orðið að borga að verulegu leyti laun starfsmanna sinna undanfarin ár. En þar að auki hefir hann orðið að neita sér um að hafa lögfræðilegan fulltrúa. En það er vitanlegt, að það er ekki hægt fyrir bæjarfógeta í svona stóru embætti að komast af án þess að hafa lögfræðing. Þessi maður, sem er þar bæjarfógeti nú, er ungur maður, sem hefir fulla starfskrafta, og af þeim ástæðum getur hann annað þessu. En að því hlýtur að koma, að hver maður þreytist við slíkt og þurfi á því að halda að hafa löglærðan fulltrúa.

Hér fylgir grg. fyrir, hvað bæjarfógetaembættið á Ísafirði myndi þurfa að fá mikið skrifstofufé, ef ætti að reka það svo sæmilegt mætti teljast. Áætlunin, sem ég hefi gert um það, er alveg rétt. Bæjarfógetinn hefir að vísu fulltrúa, en hann er ekki lögfræðingur. Hann þyrfti helzt að hafa löglærðan fulltrúa, en slíkum manni myndi ekki þýða að bjóða minna en 450 kr. á mánuði. Ég efast um, að fullgildur lögfræðingur fengist til þess að taka að sér starfið fyrir minna. Gjaldkeri bæjarfógetans á Ísafirði hefir líka 450 kr. á mánuði. Ég vil minna á það, að dýrast er að lifa á Ísafirði af öllum kaupstöðum landsins, fyrir utan Reykjavík og Hafnarfjörð. Auk þess þarf bæjarfógetinn á Ísafirði að hafa bókara við innheimtu tolla og greiða honum 300 kr. á mánuði, og aðstoðarmann, sem fær 200 kr. á mánuði. Auk þess eru nokkrar launagreiðslur til umboðsmanna, sem hann verður að hafa a. m. k. í fjórum stærstu kauptúnunum. Umdæmið er stórt og í því eru margir smærri verzlunarstaðir. Engin leið er fyrir bæjarfógetann að komast af með minna en 1800 kr. á ári í húsaleigu, og nú verður hann að greiða 1500 kr. á ári fyrir ljós og ræstingu, lágt reiknað, og borgun fyrir ritföng, prentun og síma verður ekki minna en 1200 kr. árlega. Þar að auki er töluverður ferðakostnaður fyrir mann, sem verður að fara þingaferðir, því að í Ísafjarðarsýslu eru samtals 15 hreppar, þar af 9 í N. Ísafjarðarsýslu og 6 í vestursýslunni, en þótt sá kostnaður væri ekki reiknaður nema 400 kr. á ári, þá verður kostnaðurinn við embættið samtals 23 þús. kr. Sé Alþ. ekki vel ljóst, hvers vegna allan þann starfskraft þurfi, þá er þar til að svara, að með því mannahaldi, sem nú er, vinnur Bæjarfógetinn sjálfur, sem er ungur og duglegur maður, óvenju mikið verk. Ef skrifstofufé hans verður ekki hækkað, mun sama ástand haldast enn um skeið, en ef Alþ. getur ekki vefengt þá skýrslu, sem bæjarfógetinn gefur, er fjarstæða að samþ. svona lágt skrifstofufé. Bilið er orðið nokkuð mikið milli þriggja stærstu bæjarfógetaembætta landsins, á Akureyri, í Hafnarfirði og á Ísafirði, þegar bæjarfógetunum þar er ætlað frá 18–21 þús. kr. í skrifstofufé. Þessi þrjú embætti hljóta öll að vera álíka umfangsmikil, og þess vegna verður skrifstofuféð að vera nokkurn veginn jafnt. Ef menn vilja ekki fallast á þá lausn, að skrifstofukostnaður sýslumanna og bæjarfógeta verði greiddur eftir reikningi árlega, er réttara, að bæjarfógetunum í þessum þrem stærstu embættum landsins verði ákveðið 21 þús. kr. í skrifstofufé árlega hverjum um sig, en að þar sé gerður munur á.

Svo er hér bæjarfógetaskrifstofan á Siglufirði. Mér kom undarlega fyrir sjónir, að henni voru ekki upphaflega ætlaðar nema 11 þús. kr. Þetta embætti hefir blásið mjög út á síðustu árum, samkv. orðum hv. 11. landsk. (ErlÞ) í Ed. um daginn. Það vill svo til, að hann hefir sjálfur verið starfsmaður í bæjarfógetaskrifstofunni þar. Hann sýndi fram á það með gersamlega óhnekkjandi rökum, að þetta skrifstofufé væri áætlað út í loftið. Nú sé ég, að fjhn. hefir komið auga á, að þetta væri of lágt áætlað, og gert till. um að hækka skrifstofuféð upp í 14 þús. kr. Það nær ekki nokkurri átt. Bæjarfógetanum hefir talizt svo til, að hann þyrfti 19800 kr. í skrifstofufé. Hann hefir aðstoðarmann við innheimtu tolla, sem eru ætluð 300 kr. laun á mánuði. Þó hann væri felldur burtu, verður árlegur kostnaður við embættið samt 16200 kr. Það er ekkert vit fyrir Alþ. að ganga svo frá þessu frv., að bæjarfógetinn á Siglufirði fái minna fé til skrifstofukostnaðar en 16 þús. kr. Þessi bæjarfógeti hefir sýnt fram á, að hann hafi orðið að borga mörg þús. af sínum tekjum til aðstoðarmanna sinna. Slíkt getur gengið eitt ár eða tvö, en ef því heldur lengi áfram, lenda embættismennirnir í vandræðum, og verða að lokum annaðhvort að segja af sér embætti eða verða gjaldþrota.

Ég hefi ekki borið fram brtt. við frv. við þessa umr., en mun bera fram brtt. við næstu umr. Skora ég á þm. að athuga málið sjálfstætt og ekki gleypa við frv. bara eftir því, sem þeir vilja að kostnaðurinn sé, heldur leggja á það dóm eftir þeirri þekkingu, sem þeir afla sér á því?