09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (2727)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég get nú fallizt á það hjá þeim hv. þm., er síðast talaði, að það eigi ekki að vera neitt út í bláinn þær till., sem bornar eru fram um skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta; a. m. k. mætti trúa því, að þm. vildu athuga samræmið í till. n., sem um þær hafa fjallað, eftir þeim kunnugleik, sem þeir hafa á þessum málum, en hann er að vísu takmarkaður. Jafnvel þótt þm. vildu athuga málið sjálfstætt, eins og hv. 6. þm. Reykv. gat um, er engin leið til þess fyrir þm. almennt, nema helzt þá, sem sitja í n., sem fjallar um málið. Viðvíkjandi ósamræminu milli þess skrifstofufjár, sem n. leggur til, að verði greitt hinum ýmsu sýslumönnum og bæjarfógetum, vil ég sérstaklega minna á ósamræmið í skrifstofufé því, sem sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er ætluð, og sýslumönnum í öðrum sýslum, sem vitaskuld eru hliðstæðar og sízt erfiðari eða ógreiðari yfirferðar en þetta umdæmi. Hingað til hefir þeirri venju alltaf verið haldið að ætla sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu viðlíka skrifstofufé og sýslumanninum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og sýslumönnunum í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum. Þessu hlutfalli hefir nú verið raskað; sýslumaðurinn í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu á að hafa sama skrifstofufé og áður, 4500 kr., en skrifstofufé sýslumannsins í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hefir verið hækkað upp í 4800 kr. og skrifstofufé sýslumannanna í Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum verið hækkað upp í 5000 kr. til hvors. Það getur ekki leikið neinn vafi á því, að það er sízt umfangsminna starf né minni kostnaður, sem fylgir því að gegna sýslumannsembætti í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu en sýslumannsembætti í hinum sýslunum, sem ég nefndi áðan. Ég skal ekki segja, hvort það sé regla hjá n. að réttlæta það með því. Nú er að vísu kominn lögreglustjóri á Akranesi, en samkv. þeim upplýsingum, sem ég hefi aflað mér, þá léttir það nauðalítið skrifstofukostnað viðkomandi sýslumanns; þótt nokkur kostnaður fylgi starfi lögreglustjórans, er samt engin ástæða til að gera þennan mun á skrifstofukostnaði sýslumannanna í þessum héruðum.

Við, ég og hv. þm. Borgf., höfum borið fram brtt. á þskj. 333, þar sem við leggjum til, að þessu ósamræmi verði kippt í lag og sýslumanninum í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu verði ætlaðar 5 þús. kr. til skrifstofukostnaðar, eins og sýslumönnunum í hliðstæðum sýslum, t. d. Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, eða til vara 1.800 kr., eins og sýslumanninum í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu, en þessar sýslur hafa hingað til verið taldar hafa nokkuð svipaða þörf fyrir skrifstofufé.

Ég vil vænta þess, að hv. þd. taki þessa till. til greina.

1) Seinni hluti ræðunnar er svo ónákvæml. ritaður, að ekki er unnt að leiðrétta, er svo langt er um liðið. — 11/8 '38. SK.