09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (2730)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Bjarni Ásgeirsson:

Hv. þm. Ísaf. reyndi að réttlæta það, að skrifstofufé sýslumannsins í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu er áætlað lægra en í öðrum hliðstæðum sýslum, með því, að sveitasýslur kæmust af með minni hækkun, vegna þess að fólkinu hefði ekki fjölgað þar. En í þessu umdæmi er Akranes, sem er fjölmennt kauptún, og þangað er flutt allmikið af vörum. Það er ekki unnt að telja Akranes sveit, þótt þar séu ræktaðar kartöflur.

Því hefir verið haldið fram, að ef deilt væri á frv., þá væri þeim deilum snúið gegn dómsmrh. Hefir hv. frsm. ekki fylgzt svo með málinu, að hann viti, að þær breyt., sem gerðar hafa verið hér í d., hafa raskað því hlutfalli, sem dómsmrn. lagði til grundvallar samræminu milli skrifstofufjárins í hinum ýmsu sýslum? En því hefir verið haldið undanfarið, og engin eðlileg ástæða virðist vera til að raska því, eins og ég minntist á áðan. Það er dálítið einkennilegt, að það virðist svo sem þau héruð, sem eiga fulltrúa hér í allshn., hafi borið meira úr býtum en hin, sem engan áttu þar.

Þetta styrkir það, sem hér hefir verið sagt, að till. séu nokkuð út í bláinn hvað réttlæti snertir. Þessi hv. þm. skýrði að nokkru leyti þær reglur, sem við fylgdum. Hann taldi rétt, að farið væri eftir kröfum viðkomandi sýslumanna. En veit hann ekki, að menn eru mismunandi sanngjarnir í kröfum sínum? Og ef svo er, veit ég ekki, hvað sannar betur mitt mál.