09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2734)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

*Bergur Jónsson:

Ég held, að þessi aths. hv. 1. þm. Rang. sé á nokkrum misskilningi byggð, því að ég sé ekki betur en að hér sé í ríkisreikningnum átt við innheimtulaun, sem séu borguð af launum embættismannsins og komi þess vegna ekkert skrifstofukostnaðinum við.

Annars stóð ég upp til þess að taka undir þá skoðun, sem kom fram hjá hv. 6. þm. Reykv. um það, að í raun og veru er alls ekki farin sú rétta leið viðvíkjandi skrifstofufé bæjarfógeta og sýslumanna í þessu frv., án þess að ég þar með álasi stj. fyrir það, því að hún hefir lagt þetta frv. fram til að endurnýja reglur, sem teknar voru upp um þetta 1932; en ég vil aðeins taka undir það hjá hv. 6. þm. Reykv., að aðalatriðið í þessu máli er það, að hér er eingöngu um það að ræða að greiða úr ríkissjóði opinberan kostnað, sem ekkert kemur launakjörum embættismanna í sjálfu sér við, og þetta á fyrst og fremst við um bæjarfógetana, eins og líka hv. 6. þm. Reykv. tók fram í sinni ræðu.

Ég vil því geta þess, að einu sinni var haldinn fundur með sýslumönnum og bæjarfógetum hér í Reykjavík, og þá tóku sýslumenn allir, sem þar voru, alveg undir það, að það væri eðlilegt, að annað skipulag væri haft um greiðslu skrifstofufjárins til þeirra heldur en til bæjarfógeta. Sýslumenn óskuðu ekki eftir því þá, að þetta skrifstofufé væri greitt til þeirra eftir reikningi. Embætti þeirra eru flest svo viðráðanleg, að þeir geta, með því að leggja að sér, sparað skrifstofuféð nokkuð frá því, sem það er ákveðið. Hinsvegar er ekki um slíkt að ræða hjá bæjarfógetum, þar sem óhjákvæmilegt er fyrir þá að hafa svo eða svo margt fast starfsfólk.

Ég stóð upp aðallega til þess að taka undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, því að hans skoðun er alveg rétt um það, að í raun og veru, hvort sem litið er á hag ríkissjóðs eða þeirra manna, sem eru í þessum embættum, þá er það sú regla, sem á að taka upp, að greiða bæjarfógetum skrifstofufé algerlega eftir reikningi. Því að ég er í engum vafa um, að enginn bæjarfógeti mun gera tilraun til að fá greitt meira fyrir þessa innheimtu eða gera meiri kröfur um skrifstofufé heldur en hann þarf að borga út. Því að þetta skrifstofufé ber á engan hátt að líta á sem laun til hans, heldur sem greiðslu á kostnaði, sem ekkert kemur launakjörum hans við að öðru leyti. Þetta er aðalatriði málsins.

Það er nú orðið svo áliðið þessa þings, að ég geri ráð fyrir, að ekki verði reynt að koma fram með brtt. við frv. um þetta efni að svo stöddu. Og þó að í frv. sé gert ráð fyrir, að ákvæði þess gildi í á ár, þá get ég ekki séð annað en að það mætti taka það til athugunar á næsta þingi, hvort ekki væri réttara að taka út úr þessum l. bæjarfógetana í samræmi við skoðun þeirrar stéttar um það, hvað rétt sé í þessu efni. Ég vil endurtaka það, sem hv. 6. þm. Reykv. tók hér fram, að í raun og veru er það fjarstæða að hugsa sér, að bæjarfógetinn í Hafnarfirði eigi að hafa einhverja ákveðna fyrirfram tiltekna upphæð í skrifstofufé — hvort sem það nú reyndist hærra eða lægra en hann þarf —, þar sem samskonar embættismenn hér í Reykjavík fá þetta greitt eftir reikningi, eins og rétt er, eftir því, hvað þeir hafa greitt út. Hafnarfjörður er að vissu leyti hluti af Reykjavík, og það er ómögulegt að halda mönnum við störf þar, eins og hv. 6. þm. Reykv. sagði, nema með því að greiða þeim hærra fyrir þau en greitt er fyrir þau störf hér í Reykjavík, af því að þeir vilja heldur búa hér í bænum heldur en þar suður frá.

Það, sem er meginatriðið í þessu máli, er, að ganga þarf þannig frá þessum hlutum, að það sé ekki hægt fyrir embættismenn á neinn hátt að nota það fé sem launabætur, sem þeim er greitt úr ríkissjóði til að standast þann kostnað, sem viðurkennt er af öllum, að ríkissjóður á að bera. Og eins þarf að koma í veg fyrir hitt, að þeir þurfi að taka af þeim launum, sem fjárveitingavaldið hefir ákveðið þeim, til þess að greiða þennan kostnað með.

Ég býst við, að ég fylgi flestum brtt., sem fram hafa komið við þetta frv.

Ég get tekið undir það með hv. þm. Snæf., að það muni ekki vera rétt að gera mun á þessum fjórum sýslum, Húnavatns-, Skagafjarðar-, Snæfellsnes- og Hnappadals- og í fjórða lagi Mýra- og Borgarfjarðarsýslum, og að þar muni vera mjög líkt ástatt. Ég hygg því réttast að færa þær í sem næst sama horf viðvíkjandi sýsluskrifstofufénu.

Viðvíkjandi bæjarfógetanum á Ísafirði tel ég. að það sé sízt of lágt, að bætt sé við hann 1 þús. kr., heldur sé fullkomin nauðsyn á því. Hinsvegar get ég ekki tekið undir till. hv. þm. A.-Húnv. um að feila niður 3. gr., þar sem geri er ráð fyrir, að skrifstofuféð eigi að hækka eða lækka með tilliti til breyt. á gjaldeyrinum. Þar sem þessi l. verða að byggjast fyrst og fremst á þeirri meginreglu, að skrifstofuféð skuli greiðast að fullu, en enginn eyrir þar fram yfir, þá verður slíkt að breytast eftir því, sem gengi og verðlag hækkar. T. d. ef stríð kæmi og vöruverði og húsaleiga hækkaði, er ómögulegt að ákveða með l. í krónum þann kostnað, sem verður við skrifstofuhald sýslumanna og bæjarfógeta, þannig að þær tölur eigi að gilda skilyrðislaust fyrir eitthvert fyrirfram tiltekið árabil. Ef hinsvegar dýrtið minnkar og batnar í ári, gæti það verið launabót fyrir embættismenn að hafa þetta skrifstofufé fastákveðið án tillits til verðbreytinga. En það er ekki tilgangurinn, að þessir embættismenn fái launabætur gegnum þessi lög.