09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í C-deild Alþingistíðinda. (2735)

85. mál, skrifstofufé sýslumanna og bæjarfógeta o. fl.

Sigurður Kristjánsson:

Það var dálítil aths. eða leiðrétting viðvíkjandi ræðu hv. 1. þm. Rang., sem ég vildi gera. Hann sagði, að bæjarfógetinn á Ísafirði hefði haft samkv. skýrslum ekki 20 þús. kr., heldur 23500 kr. En þar hygg ég, að hann vaði sinn gamla reyk, þessi hv. þm., og vildi ég leiðrétta þann misskilning, sem þessi „logik“ hans byggðist á. En sú leiðrétting er á þá leið, að bæjarfógetanum á Ísafirði var veitt alveg sérstök upphæð til þess að láta gera upp veðmálaregistur embættisins, sem var komið í alveg óviðunandi ólag, ekki í hans embættistíð, heldur um langan tíma áður. Og það fé er náttúrlega alveg óviðkomandi venjulegum skrifstofurekstri, enda var það verk unnið utan skrifstofunnar. Það gerir náttúrlega þessum hv. þm. ekkert til, þó að hann viti lítið um það, sem hann er að tala um, því að hann mun hafa risið úr sæti sínu til þess eins og koma með einhver mótmæli. án þess að taka tillit til þess, hvort þau væru byggð á nokkru viti eða ekki.

Það, sem hann sagði um það, að auðvitað ætti að reikna mönnum aukatekjur til kaups, þá er það náttúrlega alls ekki rétt. Það er byggt á sama rakaleysinu hjá þessum hv. þm., því að aukatekjur fá þessir menn fyrir sérstakt erfiði og sérstaka áhættu. Það er nú kannske ekki mikil áhætta, sem fylgir því að skíra barn eða gefa saman hjón; — þó getur verið kostnaðarsamt að framkvæma ólöglegar hjónavígslur. En það er þó fyrirhöfn, og það fást aukatekjur fyrir það, sem alls ekki eru taldar með í embættislaununum. En það er alls ekki lítil áhætta, sem fylgir því að innheimta mörg hundruð þús. kr. og kannske milljónir. Og það hefir komið fyrir marga embættismenn hér á landi og bæjarfógeta, að þeir hafa orðið fyrir miklu meiri töpum í sambandi við innheimtu en efnahagur þeirra hefir leyft. Og það er ekki fyrir annað en þessa áhættu, sem þeir eiga að hafa aukatekjurnar. Það er sú mikla ábyrgð og áhætta, sem þeir eiga að hafa af fjárreiðum embættisins. Og það kemur ekki til mála að telja þær með embættislaunum, heldur eiga þær aukatekjur að miðast við þá áhættu, sem þær eiga að koma fyrir.