16.03.1938
Efri deild: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í D-deild Alþingistíðinda. (2746)

15. mál, vitastæði á Þrídröngum

*Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Sjútvn. hefir haft þessa þáltill. til meðferðar, og undir umr. um hana átti hún kost á að sjá þær áskoranir, sem Alþ. hafa borizt frá formönnum í Vestmannaeyjum um, að hafizt verði handa í þessu máli, og eins áskoranir frá fundi skipstjóra. 72 skipstjórar hafa sent Alþ. áskoranir um að láta reisa þennan vita, og helzt á þessu ári, og að sömu niðurstöðu komst fundur skipstjóra, sem hefir sent Alþ. sínar ályktanir. Sjútvn. mælir einróma með því, að þessi þáltill. verði samþ., en í henni er farið fram á, að vitastæði á Þrídröngum verði rannsakað, — hvort þarna sé hægt að koma upp vita, og eins hvort hægt sé að hafa hann sæmilega örugglega rekinn.

Ég vonast til þess, að hv. d. geti fallizt á niðurstöðu sjútvn. í þessu máli. Jafnframt vil ég benda á það, að viti á þessum stað mundi áreiðanlega koma öllum sjófarendum að miklu meiri notum heldur en sá fyrihugaði viti á Loftsstaðahóli, sem er skammt fyrir austan Stokkseyri. Það er næsta títt, að millilandaskip og strandferðaskip, sem nálgast Eyjarnar vestan að (á austurleið), verði beinlínis að bíða, þegar mjög dimmt er, til þess að vera viss um, að lenda ekki á hættusvæði Þrídranga.

Skal ég svo láta máli mínu lokið. En eins og ég tók fram, er sjútvn. öll á einn máli um, að samþ. beri þessa þáltill.