27.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2750)

109. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég get að nokkru leyti vísað til þess, sem ég sagði um þetta mál í sambandi við l. um húsmæðrafræðslu í sveitum. Menntmn. þessarar hv. d. hefir orðið sammála um að leggja fyrir ríkisstj. að undirbúa heildarlöggjöf um húsmæðraskóla í kaupstöðum, og yrði í þessu efni fylgt því sama fordæmi eins og áður, þegar komið var upp héraðsskólunum í sveitum með l. frá 1929, og svo aftur hliðstæðum skólum í kaupstöðum með löggjöf árið eftir.

Þó að það liggi í raun og veru í augum uppi, vil ég samt fara fáeinum orðum um það, að skólarnir í kaupstöðunum verða náttúrlega með nokkuð öðru sniði heldur en í sveitunum. Í sveitunum kemur ekki annað til greina en heimavistarskólar, og þeir eru það dýrir, að það er í raun og veru ómögulegt að gera ráð fyrir, að þeir hafi undan þörfinni í sveitunum. Ef skólarnir eru stórir, eins og Hallormsstaðarskóli, sem er fyrir tvær sýslur, þá er þar hægt að taka á móti 26–28 stúlkum, eða 14 stúlkum úr tveimur sýslum á ári. Þó býst ég ekki við, að neinn maður geri ráð fyrir, að hægt sé að svo stöddu að auka þessa tölu, hvorki þar né annarsstaðar. Niðurstaðan verður sú, að í heimavistarskólum í sveit verður alltaf minni hluti af sveitastúlkum, jafnvel með því heldur rausnarlega lagi, sem gert er ráð fyrir í þessari löggjöf. En úr þessu má bæta að nokkru leyti með þeirri breyt., sem nú stendur til, að tekin verði upp, sem er aukin vinna fyrir pilta og stúlkur í héraðsskólunum, þannig að ef stúlkurnar stunduðu t. d. matreiðslu og sauma tvo tíma á dag, þó ekki væri nema í eina viku, þá væru það miklar framfarir frá því, sem verið hefir. Aftur á móti hygg ég, að við, sem stöndum að þessari till., séum svo stórhuga að gera ráð fyrir, að þetta nýja kerfi muni væntanlega ná til hér um bil allra stúlkna, sem vaxa upp í bæjunum, og það liggur í því, að þarna kemur enginn kostnaður til greina nema vinnustöðvarnar fyrir stúlkurnar og svo kennslan, en fátækar stúlkur í Reykjavík, Siglufirði eða Ísafirði, til þess að nefndir séu þrír kaupstaðir, eru yfirleitt á fæði hjá foreldrum sínum hvort sem er, og það er sennilegt, að á aldrinum frá fermingu til tvítugs geti hver stúlka eytt 7 mánuðum í vinnu í þessari stofnun. Fyrst um sinn, þegar byrjað er með þetta nýja kerfi, geri ég ráð fyrir, að fyrst og fremst yrði kennd matreiðsla, saumar, prjón og ef til vill meðferð á litlum börnum. Hinsvegar býst ég ekki við, að það myndi þykja til bóta í svo stórri stofnun, og eins og kringumstæðurnar eru, að hafa mikinn útsaum eða „balderingar“, enda þótt til væru nokkrar stúlkur, sem vildu læra það, því að ég geri ráð fyrir, að það heyri tæplega undir þetta kerfi, heldur þau störf, sem koma daglegu lífi við og hver kona, sérstaklega fátæk kona, þarf að inna af hendi. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér, hvernig þessu verður komið fyrir. Ég hefi látið mér detta í hug, að það yrði kannske heppilegt að hafa þessa húsmæðraskóla í sambandi við gagnfræðaskólana, og ég veit, að á Akureyri hefir þetta mjög komið til mála. Fyrir þessa kennslu þarf nokkuð mikið gólfrúm, og gæti ég hugsað mér, að þetta yrði með nokkrum verksmiðjublæ, þannig að þetta yrði mjög stór einlyft bygging, þar sem ýmiskonar kvennavinna væri framkvæmd. Slík hús eru miklu ódýrari heldur en stórar skólabyggingar, sem reistar hafa verið. Þetta gæti mjög vel komið til greina í sambandi við Flensborgarskólann, sem er einhver fegursta bygging á landinu. Þar er ekkert húsrúm fyrir svona kennslu fyrir Hafnarfjörð, en þar er mjög mikið og heppilegt landrými rétt hjá skólanum, þar sem svona skóli fyrir konur og kannske einnig fyrir karlmenn gæti komið til greina.

Ég geri ráð fyrir, að hv. d. styðji þessa þáltill. okkar.