29.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í D-deild Alþingistíðinda. (2752)

109. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að bæta örfáum orðum inn í á meðan hæstv. forsrh. er fjarstaddur, því að til hans hefir verið beint nokkrum orðum, sem mér finnst æskilegt, vegna okkar í menntmn., að hann gæti svarað.

Ég vil ekki neita því, að það fer stundum svo um ýmsar ágætar þáltill., bæði hjá þessari hv. ríkisstj. og öðrum, að þeim er ekki sýndur sá sómi, sem þær ættu skilið. Ég get nefnt það til dæmis, að ég bar einu sinni fram þáltill. um undirbúningsrannsókn á því, að kennaraskólinn yrði fluttur inn í háskólann. Þessari till. var vísað til þess ráðh., sem er nýfarinn úr stj., og hann setti n. til þess að athuga málið. Sú n. sneri till. alveg við, þannig að í staðinn fyrir það, sem átti að rannsaka, lagði hún til, að búinn yrði til nýr menntaskóli fyrir kennara í viðbót við þá tvo, sem fyrir eru. Og með þeirri till. var till. mín gerð að umskiptingi. Annars vil ég lýsa því yfir, að mjög miklar líkur eru til, að stj. sýni dugnað í þessu máli, þar eð nú liður lengri tími milli þinga en í vetur, og ég vona, að hv. 2. landsk. taki það sem sönnun fyrir ágæti þeirrar stj., sem hefir undirbúið þetta frv. um húsmæðrafræðslu sveitanna, sem er helmingur af öllu málinu, að þingið hefir ekki séð ástæðu til að breyta henni nema að mjög litlu leyti. Tel ég þetta gefa mjög góðar vonir um, að stj. muni sýna af sér dugnað og að hv. 2. landsk. muni geta orðið á næsta Alþ. fullkomlega ánægður með þá niðurstöðu, sem verður af þessu máli.