26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í D-deild Alþingistíðinda. (2754)

109. mál, húsmæðrafræðsla í kaupstöðum

*Guðrún Lárusdóttir:

Það er vitanlega sjálfsagt, að kröfurnar fara vaxandi eftir því sem menningin eykst, og allt, sem hæstv. forsrh. talaði um, er nú orðið brennandi spursmál dagsins. En það var ekki þetta, sem ég spurði um, heldur annað. Það er þó eitt atriði, sem ég tel sérstaklega nauðsynlegt. Það er að bæta við húsrými fyrir geðveika menn, því að eins og nú er ástatt, kostar gæzla margra slíkra sjúklinga of fjár, bæði fyrir einstaklinga sveitarfélög og ríkið. Það gæti vafalaust orðið sparnaður fyrir ríkisstj., ef slíkt hæli kæmist upp, og sjálfsagt er að athuga, hvort ekki mætti koma þessum málum öðruvísi fyrir.

Úr því að hæstv. forsrh. minntist á drykkjumannahæli, þá vil ég segja það, að enn sem komið er hefir ekki verið eytt miklum peningum frá ríkinu til þess að byggja slíkt hæli. Frv. um það hefir legið fyrir tveim síðustu þingum, en í bæði skiptin hefir það verið svæft, og ríkissjóður hefir hingað til enga viðleitni sýnt til þess að reyna að hjálpa í þessum erfiðu málum. En hitt vildi ég segja, að það er hreint og beint skylda ríkissjóðs að sjá þeim mönnum farborða, sem eru í raun og veru mestu viðskiptamenn ríkissjóðs og kaupa áfengi, sem nemur millj. kr. á ári. En þessum mönnum er svo fleygt burtu, þegar þeir eru búnir að fara með heilsu sína og fé, og aðrir geta tekið við að færa fórnir á sama Móloks altarið. Eins og hæstv. forsrh. tók fram, var það annar ráðh., sem átti að ráða fram úr þál., þótt hún væri stíluð til allrar ríkisstj., en ekki einstakra ráðh.