26.04.1938
Efri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í D-deild Alþingistíðinda. (2760)

112. mál, stýrimannaskólinn

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Út af þessari þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég mæla nokkur orð. Ég vil fyrir mitt leyti þakka flm. fyrir þann áhuga, sem hér kemur fram fyrir skólamálum íslenzkra farmanna og fiskimanna. Ég hafði hér í d. í fyrra ásamt hv. þm. Vestm. flutt þáltill. um að skora á ríkisstj. að undirbúa byggingu á stýrimannaskóla, þar sem við færðum rök fyrir því, að það húsnæði, sem farmenn og fiskimenn eiga nú við að búa, væri ófullnægjandi. Það er víst ekki mjög langur tími liðinn síðan menn samþ. það hér í d. Þess er því ekki að vænta, að ríkisstj. hafi getað afkastað miklu í undirbúningi þess máls. Þó er mér kunnugt um, að fyrrv. atvmrh. (HG), sem málið heyrði undir, hefir lagt fyrir húsameistara ríkisins að gera teikningu að væntanlegum stýrimannaskóla og haga byggingunni þannig, að þar yrði nóg húsrúm fyrir allar þær námsgreinar, sem gert var ráð fyrir, að yrðu þar kenndar í þeirri þáltill., sem hér var samþ. um að gera áætlun um, hvað slíkur skóli myndi kosta. Það er ætlazt til, að hún verði fullkomin nútímabygging með öllum þeim tækjum, sem slíkur skóli þarf að hafa. Ennfremur hefir fyrrv. atvmrh. skipað n. af hálfu farmanna, sérstaklega skipstjóra og vélstjóra, til að komast að fastri niðurstöðu um það, hvar slíkur skóli ætti að standa.

N. þessi mun hafa leitað umsagna meðal skipstjóra-, stýrimanna- og vélstjórafélaga bæði hér í Reykjavík og í Hafnarfirði um það, hvor staðurinn myndi vera hentugri til að byggja á stýrimannaskólann. Valhúshæðin eða Skólavörðuholtið. Það kom til mála, að væntanlegur stýrimannaskóli gæti fengið stað austan við Leifsstyttuna, þar sem áður hafði verið valinn staður fyrir væntanlegan háskóla. Um þetta efni var töluverður skoðanamunur í nefndinni, sem skipuð var úr hópi skipstjóra, stýrimanna og vélstjóra. Atkvgr., sem fór fram um þetta, mun hafa hnigið í þá átt, að velja frekar Skólavörðuholtið en valhúshæðina til þess að reisa skólann á. Í þessari þáltill. er að vísu ekki sagt annað en það, að athugun eigi að fara fram á því fyrir næsta Alþ., á hvorum staðnum eigi að byggja umræddan skóla. Hún fyrirskipar ekki um það, hvar skólabyggingin eigi að standa.

Skoðun flm. er sú, að hann telur fyrir sitt leyti heppilegra, að skólinn yrði byggður á Valhúshæð. Ég er honum í flestum atriðum sammála. Minn dómur um það. hvar framtíðarskóli sjómannastéttarinnar eigi að vera, byggist á því, að hann eigi að vera á mjög áberandi stað fyrir alla þá, sem hingað sigla að landi, og þessi skóli geti verið nokkurskonar varða um framtak núverandi kynslóðar, hvað hún hefir gert fyrir stéttina, skipað henni framtíð til að standa vel í sínu starfi. Það er enginn staður hér nálægt, sem blasir betur við heldur en einmitt Valhúshæðin. Það, sem mun aðallega hafa vakað fyrir þeim, er vildu heldur Skólavörðuholtið, er fjarlægðin frá Reykjavík. eins og hv. 10. landsk. minntist á. En fjarlægðin er hverfandi lítil nú á tímum hjá því, sem áður var, þegar menn þurftu að ganga báðar leiðir, en nú er farið með strætisvögnum fram á Seltjarnarnes, og jafnvel þó menn búi inni í bænum, er séð fyrir því, að skólapiltar geti komizt þangað án tilfinnanlegs aukakostnaðar. Þegar ég var nemandi við stýrimannaskólann, sóttu nokkir nemendur skólann framan af nesinu, og urðu menn þó þá að ganga. Þeir voru 3, sem lögðu þetta á sig, og það væri eigi hægt að segja, að menn leggi mikið á sig, þótt þeir færu þessa leið núna tvisvar á dag, kvölds og morgna, til þess að sækja skólann fram á Seltjarnarnes. Það hefir ennfremur verið fært fram sem mótbára gegn því, að stýrimannaskólinn yrði byggður á Valhúshæð, að sá staður væri ekki í lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, en ég legg ekki mikið upp úr því. Að líkindum munu ekki líða mörg ár, þangað til Seltjarnarnesið er komið undir lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, og íbúar þess hljóta fyrr eða síðar að innlimast í þetta bæjarfélag. Mín skoðun á þessu máli er svipuð og flm. till., að þarna verði framtíðarstaðurinn, sem skólinn eigi að standa á. Eins og bent er á í till., er þarna einn kostur fram yfir það. sem ég áður hefi nefnt, að hægt er að fá nokkuð mikið land og fyrir ekkert verð. En landrými nokkurt er nauðsynlegt fyrir slíkan skóla, m. a. fyrir leiksvæði, að ég ekki tali um, ef menn vilja skreyta þarna í kring á einn eða annan hátt. Þessi staður virðist því að mörgu leyti ákjósanlegri en að byggja í húsaþyrpingunni í bænum, þar sem tiltölulega lítið kynni að bera á slíkri byggingu. Ég vildi láta þetta koma fram við þessa umr., því að hér er ætlazt til, að ríkisstj. láti fram fara athugun á þessu máli. Liggur þá í hlutarins eðli, að hún þarf að ræða nánar við þá menn, sem sérstaklega hafa beitt sér fyrir málinu, og það eru stjórnendur hinna ýmsu skipstjórafélaga og stýrimannafélaga í bænum. Og ekki er sízt að ræða við þá menn út af þeim ágreiningi, sem kann að vera um það, hvar skólanum skuli valinn staður.

Hér var af hv. 10. landsk. drepið á annað mál í þessu sambandi. Um það var ofurlítið rætt fyrir nokkru hér í blöðum, hversu nauðsynlegt og viðeigandi væri að reisa hinum föllnu sjómönnum viðeigandi minnismerki á þeim stað, sem menn teldu, að bæjarfélaginu sómdi bezt. Þessi hreyfing, sem þegar hefir verið til um þetta efni, var vakin á ný af einni stétt manna, sem á sjó vinnur, en það eru loftskeytamenn. Og mér er kunnugt, að þeir skrifuðu okkur jafnvel 1936 um þetta mál. Hafa þeir beitt sér fyrir því, að þetta verði mál sjómannastéttarinnar yfirleitt. Í því augnamiði hafa þeir myndað samtök — ég held ég verði að segja ópólitísk samtök meðal allra stéttarfélaga sjómanna hér og í Hafnarfirði um það, að stofna til sérstaks dags á árinu, sem yrði nefndur sjómannadagur. Gert er þá ráð fyrir, að á þeim degi verði hafðar um hönd bæði skemmtanir, fyrirlestrar, kannske erindi í útvarp. skrif í blöð o. s. frv. En eitt af verkefnum þessa sjómannadags, sem á að vera nokkurskonar hátíðisdagur sjómannastéttarinnar. er einmitt þetta mál, að beita sér fyrir fjársöfnun að meira eða minna leyti til minnismerkis fyrir hina föllnu sjómenn. Það hefir komið fram í undirbúningsnefndum þessa máls, að e. t. v. væri það bezt við eigandi, að atvinnurekendur beittu sér fyrir þessu máli. Þeir hafa yfir meira fjármagni að ráða og hafa á ýmsan hátt betri aðstöðu til að koma þessu í framkvæmd. Sem ástæðu fyrir þessu var m. a. bent á, að útgerðarmenn í Danmörku létu eftir ófriðinn mikla reisa veglegt minnismerki yfir danska farmenn, sem fallið höfðu af völdum stríðsins. Ég hygg, að einmitt fyrir þessar raddir hafi Fiskimannasambandið talið rétt að taka að einhverju leyti á sína arma að beita sér fyrir fjársöfnun. Og þess vegna er alveg rétt, sem hv. 10. landsk. minntist á, að kjörin hefði verið nefnd til að vinna að málinu, og að sjómannastéttirnar muni sjálfar veita þessu lið á þann hátt, sem ég nefndi. En ég fel ekki tímabært að slá neinu föstu um það, hvar slíkt minnismerki á að standa. Því síður getum vér nokkuð um það sagt, hvernig það á að vera úr garði gert. Því að það er sjálfsagt, að þar fái hið listræna auga að ráða. Efast ég ekki um, að leitað verði til okkar beztu listamanna um þetta. Og ég hygg. að mjög mikil átök verði meðal þeirra, sem að þessu standa, hvar minnismerkið á að vera. Ég tel vart tímabært að ræða um það atriði á þessu stigi. Hv. 10. landsk. minntist á, hvort ekki væri hægt að samrýma skólabyggingu og minnismerki. Ég hefi nú ekki verulega gert mér grein fyrir þessari hugmynd, en í fljótu bili skal ég játa, að mér finnst þetta dálítið óskylt mál. Ég hafði hugsað mér þetta minnismerki á einhverjum stað í bænum, þar sem mjög væri aðgengilegt að koma og skoða það, m. ö. o. á mjög áberandi stað inni í borginni sjálfri. Um gerð minnismerkisins get ég rétt getið þess, að menn hafa látið sér detta í hug m. a. litla byggingu, sem gæti verið nokkurskonar kapella, þar sem menn gætu hafzt við inni, er þeir óskuðu, og væru þar áletruð nöfn þeirra manna, sem hafa farizt síðan þilskipaöldin hófst til dæmis. Einnig væri nægt bil fyrir nöfn þeirra„ sem síðar kynnu að falla í valinn. Ég er nú ekki að segja, að minnismerkishugmyndin þurfi að verða að veruleika í þessari mynd. En ef eitthvað líkt þessu yrði gert, er ekki vafi á, að slíkur staður yrði einskonar helgistaður fyrir aðstandendur þeirra, sem fallið hafa. Og þá ætti staðurinn að sjálfsögðu að vera hér sem næst miðbiki borgarinnar, svo að sem þægilegast væri fyrir fólk að komast þangað. Þess vegna hygg ég, að ekki sé tímabært að blanda þessum málum saman, byggingu skóla og byggingu væntanlegs minnismerkis, sem ég er sannfærður um, að kemur eftir nokkur ár. Það tekur nokkurn tíma að safna fénu. Hinsvegar tel ég — eins og kom fram hjá hv. flm. till., að ég held —, að miklar líkur séu til þess, að hægt sé að flýta byggingunni með því að bjóða út skuldabréf til manna, sem hafa nokkur peningaráð. Þeir eru sennilega margir innan þessara stétta, sem vildu flýta fyrir byggingunni með því að lána peninga, sem mætti endurborga á mörgum árum. Teldi ég það heppilegri leið heldur en að nota til skólabyggingar samskotafé, sem kynni að safnast til minnismerkisins. Þetta eru tvö mál og nokkuð óskyld.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þetta mál. Ég er þakklátur þeim, sem hér hafa talað og látið hlý orð falla til þeirra stétta, sem að verðleikum er verið að undirbúa ýmislegt fyrir, bæði lífs og liðna, og vænti ég, að sami skilningur megi alltaf ríkja, jafnvel þó að um önnur mál sé að ræða, sem þessar stéttir varða og koma hér á óvart.