11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í D-deild Alþingistíðinda. (2776)

116. mál, skjalaheimt og forngripa

Flm. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Þessi till. til þál. um afhending íslenzkra skjala og forngripa, er hér liggur fyrir, er borin fram af mönnum úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþ. Till. fjallar um það, að fyrir milligöngu ríkisstj. (a. m. k. að formi til) verði nú enn hafizt handa um skjalaheimtu frá Danmörku og minjagripa, og því framfylgt á þann veg, að yfir ljúki. Þetta hvorttveggja er að efni til ekki nýtt, heldur áframhald á sömu braut, er Íslendingar hafa ávallt farið, er til skarar hefir átt að skriða um að bjarga rétti og heiðri íslenzku þjóðarinnar gagnvart öðrum þjóðum, enda er það vonin, að svo verði ávallt, að Íslendingar standi þar sameinaðir og þekki sinn vitjunartíma, hvað sem öllu öðru líður.

Árið 1907 var í Nd. Alþ. borin fram þáltill., af þáverandi 1. þm. Árn. (Hannesi Þorsteinssyni), þar sem skorað var á stjórnina að gera ráðstafanir til að krefjast skila á skjölum úr safni Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn, er hann hafði fengið að „láni“ héðan. Till. var samþ. í einu hljóði. Allir þm. voru þar á einu máli. En þessum „ráðstöfunum“ miðaði seint áfram, og var ýtt á eftir stjórninni (með fyrirspurnum o. fl.). En tíminn leið, og ekki kom þetta sérstaklega til greina við sambandslagasamningana 1918.

Árið 1924 var svo aftur borin fram á Alþ. till. um sama efni, einskonar ítrekun á fyrri kröfunni, um að heimt yrðu íslenzk skjöl úr Árnasafni, og eins úr öðrum dönskum söfnum. Flm. till. voru þeir Tryggvi Þórhallsson, þm. Str., og Benedikt Sveinsson, þm. N.- Þ., og hlaut hún einróma fylgi (samþ. samhljóða).

Árið 1925 kom fram á Alþ. svipuð krafa um önnur efni, sem sé um, að Danir skiluðu íslenzkum forngripum (munum og minjagripum), er þangað höfðu komizt héðan af landi o. s. frv. Flm. þeirrar till. í Nd. var Bjarni Jónsson frá Vogi, þm. Dal., og hlaut hún einnig samþykki þingsins samhljóða.

Árið 1930 var loks borin fram í Sþ. af þm. úr öllum flokkum — með Benedikt Sveinsson, þm. N.- Þ., sem aðalflm. — till. til þál um, að ríkisstj. leitaði þess við dönsk stjórnarvöld, að skilað yrði hingað íslenzkum handritum úr söfnum í Danmörku (Árnasafni og öðrum). Einnig þessi till. var samþ. með samhljóða atkv. þm. allra.

Auk skilmerkilegra skýringa um þetta mál allt, sem er að finna í framsöguræðum flm. greindra till., má nefna glögga greinargerð um handritin eftir Pál E. Ólason 1929, svo og skýrslur þjóðminjavarðar Matthíasar Þórðarsonar o. fl.

En árangur þessara samþykkta Alþ., sem getið hefir verið, og þeirra framkvæmda, er á komust í þessum efnum samkvæmt þeim, varð nú eftir beinum og óbeinum leiðum — nokkur, þótt slitrótt gengi. En þó urðu aðgerðirnar ekki nándar nærri til hlítar.

Endurheimt skjala úr dönskum söfnum, og eins krafa um skil á minjagripum íslenzkum, hafa nú ávallt við og við, eins og eðlilegt er, komið nokkuð til kasta ísl.-dönsku sambandslaganefndarinnar, bæði (að því er segja má) hjá hinum íslenzku og hinum dönsku nefndarmönnum. — Samkvæmt hinni samþykktu þál. 1924 var einum fróðasta manni í þessum efnum, hérlendum, dr. Hannesi Þorsteinssyni heitnum þjóðskjalaverði, falið að vinna að skjalaheimtuninni, og var síðan 1926 skilað þeim skjölum, er komið hafa hingað, bæði úr Árnasafni og Ríkisskjalasafni Dana.

Um skil á forngripum samkvæmt ályktuninni 1925 er í stuttu máli þetta að segja, eftir því sem þjóðminjavörður skýrir frá (og varpar það nokkru ljósi yfir gang þess háttar málefna):

Málið var sem sé þegar í upphafi fengið í hendur ísl.-dönsku sambandslaganefndarinnar. Hún setti undirnefnd í málið 1926 og samþ. till. hennar í því efni, er munu hafa gengið út á það, að málinu yrði ekki um sinn ráðið til lykta á grundvelli „afturköllunarréttar“, heldur beint á hagsýnan hátt, svo kallaðan. ríkisstj. íslenzka mun þá einnig hafa viljað útkljá málið eftir þessum till. sambandslaganefndarinnar, og gerði þjóðminjavörður fyrir hana 1927 skrá yfir þá gripi í þjóðminjasafninu danska (Nationalmuseet) í Kaupmannahöfn, sem hann taldi mjög æskilegt af fá til þjóðminjasafnsins hér og viðeigandi að krefjast, samkvæmt hinum samþ. till. sambandslaganefndarinnar. Voru það alls 178 nr., af þeim nálega 600 nr., er þá voru vis í safninu. Forstöðumaður þess (Nationalmuseet) vildi ekki, að afhent yrðu fleiri en 105 tiltekin nr. af þessum 178. Síðan gekk málið um hríð fram og aftur milli stjórnarvalda og nefnda, og lenti nokkuð í þófi. En árið 1930 leysti svo stjórn Dana málið að nokkru, og fyrir sitt leyti, á þann hátt, að hún, eftir skýrslu þjóðminjavarðar, afhenti Íslandi 105 af þeim nr., sem þjóðminjavörður hafði talið æskilegt að fá afhent, og forstöðumaður safnsins í Höfn hafði samþykkt, að látin yrðu, ennfremur 5 nr. af 6, er nefnd kennslumálaráðuneytisins hafði viljað, að færu af þeim 73, sem þjóðminjavörður hafði viljað fá auk hinna 105; sömuleiðis 7 nr., er sú nefnd hafði einnig viljað, að látin yrðu, en þjóðminjavörður ekki lagt sérstaka áherzlu á að fá, og loks í viðbót 4 nr. af þeim 73, er eftir stóðu og þjóðminjavörður hafði óskað eftir, og hafði hvorki forstöðumaður danska safnsins né nefnd kennslumálaráðuneytisins áður viljað samþykkja, að þau 4 nr. yrðu afhent. Voru þannig afhent 1930 samtals 121 nr., eða 114 af þeim 178, er þjóðminjavörður hafði þá sérstaklega farið fram á, að afhent yrðu, en 64 voru eftirskilin og eru enn í þjóðminjasafni Dana, auk annara. Af þessum gripum eru t. d. 22 nr. komin úr kirkjum hér á landi, 21 nr. er margskonar dýrmætt, gamalt kvensilfur og 10 nr. eru gömul íslenzk drykkjarhorn, afarverðmæt; ennfremur eru 4 rekkjureflar og 7 aðrir gripir ýmiss annarskonar. Síðan þjóðminjavörður setti fram tilmæli sín um þessa gripi, sem enn eru ófengnir. eru nú liðin 11 ár, og munu á þeim tíma hafa komið fram í þessu sama safni nokkrir munir, er æskilegt væri að fá, en ekki voru vísir 1927; og vitanlega er í þjóðminjasafninu danska, og jafnvel í fleiri dönskum minjasöfnum, fjöldi íslenzkra grípa, sem í raun réttri ættu heima í þjóðminjasafni voru, og hvergi annarsstaðar.

Það, sem afhent hefir verið, er þó fjarri því að vera nokkur gjöf, að vorum skilningi, og hann er réttur eftir eðli málsins. Og vitanlega á endurheimtan að halda áfram á þeim grundvelli.

Ég mun nú með nokkrum orðum víkja að þeim atriðum þessara mála, sem við koma íslenzku fræðastarfi og háskóla vorum. Hefir eigi nógsamlega verið bent á þetta áður, því að það stendur í nánu sambandi við hér umrætt efni.

Þegar háskóli vor var stofnaður 1911, var gert ráð fyrir, að kennsla í íslenzkum fræðum og íslenzk vísindastarfsemi yrði einn meginþáttur í starfi háskólans. Þessar óskir hafa að mörgu leyti rætzt. Nú eru 3 kennarastólar í íslenzkum fræðum, og frá þessari deild hafa komið allmörg rit, einkum um bókmenntir og málfræði, er gert hafa háskólann kunnan erlendis. Má í því sambandi benda á útgáfur þær, er Sigurður Nordal prófessor annast um, bæði fornritaútgáfuna, endurprentun elztu prentaðra bóka íslenzkra og ljósprentaðar útgáfur elztu forníslenzkra handrita, er hann hefir á undanförnum árum séð um í samráði við dr. Einar Munksgaard í Kaupmannahöfn.

Kennarinn í íslenzkri málfræði hefir einnig samið allmargar bækur um eðli og uppruna íslenzkrar tungu, sem eru mjög kunnar erlendis, enda eru 4 þeirra samdar á þýzku.

Ennfremur er það eftirtektarvert, að erlendir stúdentar hafa margir dvalið við háskólann og lagt stund á íslenzk fræði, og eru sumir þeirra nú kennarar í íslenzku við erlenda háskóla.

Að því er ég hefi fengið skýrslu um hjá kunnugum mönnum, hefir nútíðar íslenzka verið tekin upp sem kennslugrein við 6 þýzka háskóla, og eru 3 Íslendingar kennarar þar. Þá hefir nám í íslenzku aukizt mjög í Hollandi, og mun hið íslenzka bókasafn, er stofnsett var í Utrecht fyrir 2 árum með aðstoð Alþ. og fyrir forgöngu próf. Alexanders Jóhannessonar, eiga sinn þátt í að auka þennan áhuga Hollendinga á íslenzkum fræðum. Bókasafn þetta telur nú nálega 10000 bindi og er sérstök deild í háskólasafninu í Utrecht.

Í Englandi hefir og mjög aukizt áhugi á íslenzkum fræðum, einkum við háskólann í Leeds, enda er þar ágætt bókasafn í þeim fræðum, eða nálega 12000 bindi, og var stofn þess bókasafn Boga heit. Melsteds, er þangað var keypt.

Í Þýzkalandi eru og nokkur ágæt íslenzk bókasöfn, einkum í Köln (nokkur þús. bindi, safn Henrieh Erkes) og í Kiel, en þar er bezta íslenzka bókasafnið í Þýzkalandi; er það mjög stórt, og er til prentuð skrá yfir það safn.

Vísir til bókasafns er og í Greifswald, stofnað af próf. Alexander Jóhannessyni, og annað í Berlín, sömuleiðis fyrir forgöngu hans.

Í Frakklandi er og nokkur áhugi vaknaður á íslenzkum fræðum, og er það meðal annars því að þakka, að aðalkennarinn í norrænu við háskólann í París, prófessor Jolivet, er talar og ritar íslenzku, leggur megináherzlu á íslenzku fram yfir önnur Norðurlandamál.

Í Ameríku er íslenzka kennd við fjölda háskóla, forníslenzka við yfir 30 háskóla, og þar eru meðal annars 3 íslenzkir prófessorar í þessum fræðum, þeir Halldór Hermannsson, Richard Beck og Stefán Einarsson.

Sést af þessu, að áhugi fyrir íslenzkum fræðum erlendis hefir farið mjög vaxandi síðan háskóli vor var stofnaður, og má óhætt fullyrða, að íslenzkudeild háskólans í Reykjavík á sinn þátt í þessum áhuga.

Þegar háskólinn flytur inn í hina nýju, eftirvæntu byggingu, á íslenzkudeildin, að því er talið er, bezta bókasafn í íslenzkum fræðum, sem nokkur háskóli á í heimi, og telja fræðimenn, að áætla megi bindatölu 30–40 þúsund, en í þessu safni eru hinar miklu gjafir, er háskólanum hafa hlotnazt frá einstökum mönnum, fyrst og fremst frá dr. Benedikt S. Þórarinssyni, er hefir gefið sitt stórmikla safn, á að gizka 20 þús. bindi, þá hið merka safn prófessors Finns Jónssonar, nálægt 6–7 þús. bindi, og loks allmerkilegt safn, er háskólinn fékk fyrir 2–3 árum frá prófessor nokkrum í Manchester, Arwid Johannson.

Af þessu stutta yfirliti sést, að háskólinn eignast bráðlega öll ytri skilyrði, bæði um húsnæði og bókakost, til þess að verða höfuð-miðstöð íslenzkra fræða í heiminum.

Þegar litið er á það, að öll íslenzk handrit á landsbókasafninu, sem eru nálega 8000, eru frá síðari öldum, frá 18. og 19. öld, en erlendis eru ennþá 4–5 þús. handrit, er ljóst, að nauðsynlegt er að vinna að því að fá sem flest íslenzk handrit erlendis heim, einkum þau handrit, er verulegt gildi hafa fyrir íslenzka vísindastarfsemi.

Öll helztu handrit af Íslendingasögum, Grágás, Eddukvæðin, ásamt öðrum fróðleik, eru í Kaupmannahöfn í Árnasafni og í Konungsbók hlöðu, þó að nokkur merkileg handrit séu einnig í Svíþjóð. Í Árnasafni eru nálega 3000, í Konungsbókhlöðu nálægt 1300, í Svíþjóð milli 300 og 400 handrit, og nokkur önnur eru í Englandi, Frakklandi og Þýzkalandi.

Það mætti spyrja, hver höfuðnauðsyn sé á Því að flytja þessi handrit hingað heim, þar eð mjög mörg af þeim hafi verið gefin út, og sum margsinnis. Þessu má svara með því, að það sé fyrst og fremst þjóðarmetnaður Íslendinga að fá þessi bandrit hingað heim, íslenzk handrit, rituð af Íslendingum um íslenzk efni, og væri sú ástæða ein nægileg til þess, að þing og stjórn geri gangskör að því að fá sem flest af þessum handrifum heim til Íslands. En auk þess ber vísindalega nauðsyn til þess af ýmsum ástæðum.

Eitt af verkefnum íslenzkra fræða er að semja vísindalega orðabók yfir allt málið frá því í fornöld og fram á vora daga. Er það nú álit fræðimanna, að semja þurfi á ný Fritzners orðabók yfir gamla málið, en það er sama sem að fara að nýju yfir allar frumheimildir og handrit. Hefir verið nokkur ráðagerð um þetta á síðustu árum meðal Svía og Dana, að því er heyrzt hefir, en það er augljóst mál, að Íslendingar eru færastir til að vinna þetta verk, og ber að gera það hér í Reykjavík. Fritzners orðabók nær ekki lengra en fram á 14. öld, og eru þeir, sem til þekkja. ekki í vafa um, að það orsakaðist af þekkingarskorti á miðaldahandritum og sumpart af lítilsvirðingu á gildi miðaldabókmennta, að því verki var ekki haldið lengra áfram en til þess tíma. Nú eru fræðimenn sammála um það, að slík orðabók eigi að ná yfir allt tímabilið frá byggð Íslands og fram á vora daga.

Nú er það kunnugt mál, að mörg miðaldahandritanna hafa enn ekki verið gefin út, og er þar að sjálfsögðu margskonar fróðleik að finna, og það er augljóst mál, að ef öll þessi handrit væru hingað komin, myndu þau stuðla að aukinni vísindastarfsemi að íslenzkum fræðum við háskólann og draga hingað alla þá erlendu vísindamenn, er við þessi fræði fást.

Saga Íslands er enn órituð, og myndi mega ætla, að ef allar heimildir væru hér í landi, yrði slíkt verk fljótar unnið. Og að láta það dragast mikið úr þessu, er ekki vansalaust.

Ég skal aðeins geta þess hér, að á bollaleggingum danskra fræðimanna um, að koma ætti upp einskonar „námsmiðstöð“ íslenzkra fræða við Árnasafn í Kaupmannahöfn og að hin nýja skipun á stjórn safnsins ætti að hafa það í för með sér, er vitanlega ekkert mark takandi, og er raunar fjarstæða ein, sem enginn Íslendingur hefir viðurkennt. Hér á Íslandi og hvergi annarsstaðar á slíkt heima.

Eins og greinargerð þáltill. ber með sér, þá telja flutningsmenn — eins og reyndar allir Íslendingar —, að það sé réttur Íslendinga, að þessum hlutum verði skilað. „Rétturinn“ er að sjálfsögðu um ýmislegt af þessu lagalegur, svo sem réttur vor ávallt var til sjálfstæðis þjóðarinnar, en hitt má vera, að það út af fyrir sig dugi ekki ætíð til fulls, er út í mál er komið við aðrar þjóðir. Fyrir því er samninga- og samkomulagsleið farin, því að hitt orkar ekki tvímælis, að siðferðislegur réttur, menningarlegur réttur þjóðarinnar er, að því verði fullnægt, sem hér er farið fram á. En hvorttveggja á að vinna og verka saman. Þess eru og dæmi, að konungsvaldið fyrrum beint synjaði þess, að hingað kæmu aftur heim til hérlendra stofnana t. d. dýrmætar bækur, er fluttar voru af landinu og lentu í Árnasafni, og það fyrir brunann alkunna í því safni 1728, svo að bein ábyrgð var þannig á þessu tekin, og fórst sumt af því í eldsvoðanum. Er ljóst, að réttarskylda er til þess, að slíkt yrði bætt, og hefði þegar átt að vera búið að því, ef ekki fjármunalega (sem erfitt er vegna þess, að þetta er margt ómetanlegt), þá einkum með því að skila aftur öllu því af safninu, er vér nú viljum fá. Og jafnvel mun nú mega segja, að þótt kallað sé, að skilað hafi þegar verið (1926) hinum „lánuðu“ skjölum úr Árnasafni, þá er þó ekki laust við, að það sé að koma í ljós enn, að dómi sumra, að svo er það ekki allskostar, ef vel er leitað.

Ég skal svo að lokum aðeins benda á, að skil og afhending á slíku sem þessu á milli þjóða eru talin nú á tímum svo sjálfsögð, að undir flestum atvikum er gengið út frá, að í engu megi bresta á það. Og hvað Dönum sjálfum viðvíkur — sem við höfum nú uppi úrslitakröfur á hendur í þessu efni —, þá hafa þeir sjálfir bæði viðurkennt það við aðra og líka gert kröfur um slíkt, þar sem því hefir verið að skipta. Undanfarið hafa slíkar afhendingar farið fram milli Danmerkur og Noregs, og Danir afhent úr sínum söfnum margt eða flest það, sem við kom Noregi og hinni norsku þjóð — og því, sem eftir kann að vera þar, mun verða skilað — (en eins og kunnugt er, var samband Noregs og Danmerkur að réttu lagi með líkum hætti og milli Íslands og Danmerkur). Og í annan stað, er Danir fengu Slésvík eftir heimsstyrjöldina, óskuðu þeir að fá (og gerðu kröfu til að fá) ýms skjöl og skilríki varðandi þann landshluta, — og Þjóðverjar afhentu þeim það allt!

Ég hefi nú séð í mörgum dönskum blöðum —, af ólíkum flokkum — síðan þessi þáltill. kom fram á Alþingi, að þau í fyrsta lagi ræða málið og búast við því, að Íslendingar sameinaðir standi hér að, og í öðru lagi má segja, að þau taki málinu skaplega, þótt venjulegs misskilnings kenni þar nokkuð hjá þeim á ýmsa lund um eðli þess og réttindi. En allt slíkt stendur til leiðréttingar.

Það er engin goðgá, heldur einmitt hið eðlilegasta, að vér setjum nú þessa kröfu fram, með endurnýjaðri áherzlu á 20 ára afmæli fullveldisviðurkenningar þjóðarinnar. Síðan 1926 hefir skjalaheimtunni ekki verið sinnt af Dönum, þótt hreyft væri einnig því máli um 1930. Nú má ekki lengur við doka. Mun og Dönum vel skiljast krafa vor og réttur, er þeir hugsa sig um, og hugsa um sín eigin örlög, eins og allar smáþjóðir ekki sízt verða nú að gera. Allir verða að reyna að bjarga sér og sjálfstæði sínu í hvívetna, með öllum ráðum, og er þá lítt fært að sitja á rétti annara. Við Dani, eins og aðra frændur vora á Norðurlöndum, viljum vér halda uppi öllum vinsamlegum samskiptum, er til menningar og hagsbóta gætu orðið, enda mætti ætla, að eytt væri nú hinum „forstokkuðu“ hugmyndum ýmissa ráðamanna þar fyrrum um rétt Íslendinga.

Af öllu þessu væntum vér fulls skilnings og sanngirni hjá dönsku þjóðinni og dönskum stjórnarvöldum í þessu máli.

Ég vil svo óska þess fyrir hönd okkar flm. þáltill., að hún fái samþykki hér á hæstv. Alþ. og að hæstv. ríkisstjórn veiti henni síðan réttan fararbeina.