11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í D-deild Alþingistíðinda. (2790)

49. mál, milliþinganefnd í skattamálum

Einar Olgeirsson:

Ég ætla ekki að fara að endurtaka það, sem ég sagði við fyrri umr. þessa máls út af brtt., sem ég myndi bera fram. Aðaltilgangurinn með henni er sá, að öll höfuðsjónarmið, sem uppi eru í landinu viðvíkjandi tolla- og skattalöggjöf, geti komizt að í n., þegar á að fara að endurskoða þessa löggjöf. Þess vegna legg ég til, að allir flokkar þingsins eigi menn í n. Eins og ég hefi áður tekið fram, þá leggjum við kommúnistar sérstaka áherzlu á, að við getum komið að okkar tillögum í þessari n., þar sem okkar till. eru að ýmsu leyti frábrugðnar því, sem fram hefir komið frá öðrum flokkum í þinginu. Við höfum einmitt borið fram allýtarlegar till. viðvíkjandi nýjum tekjuöflunaraðferðum, sérstaklega beinu sköttunum og ýmsum nýjum sköttum, þannig að það væri ekki nema sanngjarnt, að við hefðum tækifæri til þess í n. að láta okkar skoðanir í ljós og koma fram með okkar till., þegar nú loks á að endurskoða þessa löggjöf.

Ég vil því leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. um það, að í stað „3 manna“ komi: 5 manna, — og ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni.