11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2799)

134. mál, sýslumannabústaðir

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég get verið stuttorður um þessa till., því það fylgir henni allýtarleg grg.

Ég vil aðeins rifja það upp, að sýslumenn landsins hafa stöðugt meira og meira að gera. Það eru lagðar á þá nýjar skyldur bæði af Alþingi og héruðunum. En á hinn bóginn hefir aðstaða þeirra hlutfallslega versnað, eftir því sem dýrtíðin hefir aukizt, en þeim ekki bætzt nein ný hlunnindi.

Þessi till. gengur út á það, að ríkisstj. láti rannsaka fyrir næsta þing, hvort um annað er að gera en koma föstu skipulagi á byggingarmál sýslumanna og reisa bústaði fyrir þá, þar sem skjöl þeirra og bækur geta verið óhult fyrir eldi, og svo að þeir þurfi ekki beinlínis að vera bundnir við sitt hús, eins og nú er, eða lenda í fjárhagslegum erfiðleikum af þeim orsökum.

Það er gert ráð fyrir því í till., að sýslumenn leggi fram helming byggingarkostnaðar á móti ríkinu. Má að vísu gera ráð fyrir, að þetta mætti nokkurri mótstöðu í fyrstu.

Ef byrjað væri á því að reisa t. d. einn bústað á ári, þar sem þörfin er mest, myndi eftir ca. 20 ár vera búið að sjá fyrir þessari þörf alstaðar á landinu. Ætti ekki að þurfa að koma sér mjög illa, þótt þetta yrði tekið slíkum tökum, því núv. sýslumenn eiga víða allsæmileg hús, sem eru þó að öllum jafnaði þannig, að ríkið myndi ekki vilja kaupa þau.

En það er ómögulegt fyrir þjóðfélagið að sætta sig við, að bækur og skjöl sýslumannanna séu ekki geymd á óhultum stað og kannske flutt á milli í sykurkössum eða öðrum slíkum ilátum, þegar sýslumannaskipti verða.