11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 36 í D-deild Alþingistíðinda. (2801)

134. mál, sýslumannabústaðir

Guðrún Lárusdóttir:

Ég stend ekki upp til þess að mæla móti þessari þáltill. Ég hefi lesið grg. mér til ánægju, því hún er skemmtilega skrifuð. En eitt ætla ég að fetta fingur út í. Ég kann ekki við, hvorki hér né annarsstaðar, að verið sé að höggva til dáinna manna. Í grg. er nefndur maður og tilfærður sem dæmi um menn, sem ekki eru færir um að standa í stöðu sinni. Þetta getur vel hafa verið svo, en það er samt sem áður óviðkunnanlegt að setja slíkt í grg. fyrir till. á Alþingi. Að vísu verður grg. ekki gerð að l., en hún geymist í þingskjalasafninu og verður þar talandi vottur um óhæfni þessa manns.

Það er aðeins þetta sem ég vildi gera aths. við, þótt því verði ekki breytt.