11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í D-deild Alþingistíðinda. (2803)

134. mál, sýslumannabústaðir

Þorsteinn Þorsteinsson:

þáltill., sem hér er um að ræða, gengur að mínum dómi í mjög rétta átt. Af þeim þremur embættismannastéttum, sem aðallega búa í svelt, má segja, að tvær séu komnar vel á veg með sín byggingarmál Það er alltaf verið að auka við húsnæðið fyrir prestana, og í nálega hverju læknishéraði er kominn upp bústaður, sem læknirinn getur gengið að, þegar hann kemur, og farið frá, þegar hann vill.

Með sýslumennina gegnir allt öðru máli. Þeir verða eftir atvikum að kaupa sér hús, og þegar þeir hverfa úr einu embætti í annað eða hætta, verða þeir að sæta þeim kjörum, sem atvikin leggja þeim upp í hendurnar. Stundum geta þeir selt sæmilega, stundum fyrir hálfvirði. Þetta er mjög óþægilegt fyrir embættismennina og getur orðið til þess, að þeir séu neyddir til að hírast lengur í sínum sýslum en þeir annars vilja. Álít ég þess vegna, að þáltill. sú, sem hér um ræðir, sé mjög til bóta. En hinsvegar hefði gjarnan mátt vera sú viðbót við hana, að haldið skyldi þeirri gömlu og góðu venju, að slá sýslumannsembættunum upp, svo að sýslumenn ættu kost á að sækja og eiga von á veitingu, eftir því hvernig þeir hefðu staðið í sinni stöðu. Nú í rennu hafa verið veitt fimm sýslumanns- og bæjarfógetaembætti án þess þeim hafi verið slegið upp, og þau hafa aðeins verið veitt þeim mönnum, sem hafa talið sig til stjfl., ég held Framsfl. Það hafa náttúrlega verið góðir menn innan um. En ég tel, að menn hafi rétt til að fá að sækja um embættin. Ég verð að lýsa því yfir, að ef sá réttur næst ekki, verður að leita annara ráða, svo sem þeirra, að sýslumenn verði kosnir, alveg eins og prestar eru kosnir nú, þó að það þyki dálítið „radikal“ aðferð. Það getur engum ráðh. haldizt uppi að ósekju til lengdar að þverbrjóta þessa gömlu sjálfsögðu reglu, að embættum skuli slegið upp.

Ég tel þessa þáltill. mjög til bóta, a. m. k. fyrir þá sýslumenn, sem von hafa um að geta einhverntíma skipt um embætti.