11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í D-deild Alþingistíðinda. (2837)

100. mál, framfærslukostnaður embættismanna

*Flm. (Magnús Jónsson):

Ég skal ekki mæla mörg orð um þessa till. Þó að grg. sé stutt, segir hún allt, sem segja þarf. Ég flyt þessa till. af því, að ég hefi oft orðið var við það, þegar rætt hefir verið um laun embættismanna, að mikill ágreiningur er um það manna á meðal, hvað séu eiginlega þurftarlaun embættismanna, og oftast hefir verið um það deilt, hver þau væru í Rvík. Það er auðvitað ósköp þægilegt að nefna einhverja ákveðna upphæð, t. d. 4000 eða 4500 eða 5000 kr., og segja, að það séu rífleg laun og að vel sé hægt að lifa af þeim fyrir t. d. 5 manna fjölskyldu. En ég hefi orðið var við það í viðræðum við greinagóða menn, að þegar ég hefi lagt niður fyrir þeim, hvað það kostar raunverulega að lifa hér, hefir ekki orðið mikið um svör. Ég er líka viss um, að allir hv. þm. vita það — ekki sízt þeir, sem búið hafa í Rvík —, að þessi staðhæfing um, að 4000–5000 kr. séu rífleg laun handa 5 manna fjölskyldu, er markleysa ein. Það þarf ekki annað en að setja upp einfalt dæmi þessu til sönnunar. Í því dæmi þarf ekki að nefna óteljandi hluti, sem menn hafa vanið sig á að nota, en ekki er samt hægt að kalla óhófseyðslu. Það þarf ekki annað en að telja fram einföldustu lífsþægindi. Það þarf ekki annað en að setja upp örfáa liði, eins og húsaleigu, ljós, hita, skatt, fæðiskostnað og einfaldan klæðnað, og taka hið raunverulega ástand, sem er fyrir hendi, þá eru menn komnir alllangt upp fyrir þessa fjárhæð.

Það hefir verið sagt, að menn mættu ekki nota í húsaleigu meira en 1/5 af launum sínum. Eftir því ættu embættismenn, sem hafa 5 manna fjölskyldu, að komast af með íbúð, sem kostaði 900–1000 kr. á ári. Það er enginn vafi á því, að það yrði mikil eftirspurn eftir íbúðum fyrir það verð, ef þær yrðu með þeim hætti, sem jafnvel mjög sparsamir embættismenn notast við hér í Reykjavík. Þær eru ekki til. –Það er eins, þó að reiknaður sé einfaldur fæðiskostnaður. Hann verður að jafnaði 2 kr. á dag fyrir hvern fjölskyldumeðlim. Ég veit ekki, hvort óhætt er að reikna með kaffisopa, sem gestir fengju, en þetta verða þá 10 kr. á dag yfir árið.

Þessi dæmi sýna, að framfærslukostnaðurinn er hærri heldur en þau laun, sem ákveðin eru. Ég held, að það væri ósköp einfalt atriði fyrir einhverja opinbera stofnun, eins og hagstofuna, að gera reikning yfir þetta. Til þess má nota tvær aðferðir. Önnur er að hafa þetta eins og reglulega búreikninga. Hinsvegar mætti áætla, eftir því sem menn þekkja á fingrum sér, þessa einföldu þurftarliði, sem koma til greina við að framfæra fjölskyldu. Ef menn vilja ekki ákveða, hvernig embættismenn eiga að lifa, þá mætti ákveða t. d. þrjú stig, eftir því hvað stór íbúðin væri og annað þess háttar. Ég held út af fyrir sig, að það hljóti að vera æskilegt að fá slíka skýrslu, og ég er sannfærður um, að hagstofan geti gert þetta án nokkurrar verulegrar fyrirhafnar. Það er alltaf vafamál, hvað hátt þessir menn eiga að lifa. Það má að sjálfsögðu vitna í það, að til séu fjölskyldur, sem eru framfærðar á minni tekjum en embættismenn hafa yfir að ráða, og það er ekki nema alveg heilbrigt, að Alþ. geri sér það ljóst, þegar það ákveður launin, að það ætli embættismönnum að lifa eins og þessum fjölskyldum, að búa í tveggja herbergja íbúð og ganga í verkamannafötum.

Fyrir nokkrum árum var uppi sterk hreyfing meðal embættismanna um að taka upp þann sið, sem tíðkaðist þá úti um heim, að ganga í verkamannafötum. Það væri gott að vita það, ef til þess væri ætlazt. Mjög margir af þessum mönnum vilja heldur lifa ódýrara lífi og komast af, en ég held, að það sé ekki til þess ætlazt. Það er miðað við t. d. fjögra herbergja íbúð og að menn gangi klæddir eins og við erum hér í dag, og þeirra fjölskyldur að sama skapi, og annað þess háttar. Það er ætlazt til þess, get ég hugsað mér, að þeir geti keypt svona tvö tímarit og blöð og verið í eins og tveimur félögum, en það er mikilsvert að fá þessu slegið föstu. Það ætti a. m. k. að vera útlátalaust fyrir þingið að fela hæstv. ríkisstj. að láta gera athugun á þessu, en það er ekkert annað, sem farið er fram á í þessari till.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en óska eftir, að þessi till. verði samþykkt.