04.04.1938
Sameinað þing: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í D-deild Alþingistíðinda. (2859)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Forsrh. (Hermann Jónasson):

Sjálfstfl. hefir borið fram vantraust á ríkisstj., og form. þess flokks hefir mælt fyrir vantraustinu.

Ég mun hér í kvöld svara meginrökum þeim, sem form. Sjálfstfl., hv. þm. G.-K., telur sig hafa fært fyrir því, að vantraustið eigi að samþ. hér á Alþingi. — En ég mun þó aðallega haga svörum mínum á þann hátt, að ég geri grein fyrir afstöðu Framsfl. til stj. og stjórnmálaviðhorfsins í landinu yfirleitt — og ég dreg að nokkru fram þau rök, sem Framsfl. telur liggja til þess, að rétt hafi verið, eins og á stóð, að mynda ríkisstj. á þann hátt, sem gert var.

Rökin, sem hv. þm. G.-K. telur sig hafa fært fram fyrir vantrauststillögunni — auk þeirra, sem talin hafa verið í 4 ár í öllum eldhúsdagsumr. — eru í skemmstu máli þau: Að stjórnin sé of veik. Og þau rök, sem hann færir fyrir því, að stj. sé of veik, eru í aðalatriðum á þessa leið: Alþfl. á Alþingi neitaði að samþ. gerðardómslögin, og vegna þess að lögin voru samþ. óskaði ráðh. Alþfl. að fá lausn frá ráðherrastörfum. Hv. þm. bendir á, að blöð Alþfl. hafi beitt sér gegn lögunum um gerðardóm og að þau séu enn eigi komin til framkvæmda nema að litlu leyti, og svo geti farið, að þau verði óframkvæmanleg fyrir ríkisstj. í samstarfi við Alþfl. Í þessu sambandi bendir hv. þm. á samþykkt Sjómannafélags Reykjavíkur, þar sem gerðardómslögunum er eindregið mótmælt og gerðardómnum, er kveðinn var upp samkv. lögunum, einnig, og jafnframt lýst yfir, að sjómennirnir telji sig ekki bundna af gerðardómnum og telji sér heimilt að koma í veg fyrir, að lögskráð verði á skipin á síldveiðar í vor. Ennfremur bendir hv. þm. G.-K. á það, að launadeilur og vinnustöðvanir séu yfirvofandi á flutningaskipaflotanum, í vegavinnunni og í síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði. Af þessum ástæðum telur hv. þm., að það hafi verið skylda Framsfl. og mín að mynda það, sem hann kallar „sterka ríkisstjórn“, til að framfylgja gerðardómslögunum, sem þegar hafa verið samþ., og í öðru lagi til þess að gera ráðstafanir til að ráða fram úr yfirvofandi launadeilum og fylgja þeim ráðstöfunum eftir. — En ekkert af þessum ráðstöfunum telur hann líkur til, að unnt sé að framkvæma með Alþfl., er sífellt hvetji til ábyrgðarleysis í launadeilum og neiti að taka á þeim til nauðsynlegrar úrlausnar.

Þetta eru í aðalatriðum þær röksemdir, sem fram eru færðar fyrir vantraustinu og fyrir því, að ríkisstj., eins og hún er, sé of veik, auk þess að nokkuð hefir verið bent á erfiðleika tímanna almennt, þó ekki sem neina aðalástæðu.

Ég er vitanlega enganveginn ánægður með framkomu Alþfl. í gerðardómsmálinu og ég hefi dregið fram rökin fyrir þeirri skoðun minni á öðrum vettvangi. Það var bent á það í umr. um málið hér á Alþingi og hefir verið margtekið fram í blaðaskrifum, að í togaradeilunni var, vegna þeirrar geigvænlegu hættu, sem hún hafði í för með sér fyrir þjóðina alla, gripið til samskonar ráða til úrlausnar og fulltrúar jafnaðarmanna í ríkisstjórnum nágrannalandanna hafa beitt við lausn sömu mála hjá sér. Það er meira en lítið athyglisvert, að núna fyrir 2–3 dögum var forsætisráðherra Noregs, jafnaðarmaðurinn Nygaardsvold, að setja gerðardómslög nr. 2 nú á fáum vikum, vegna kaupdeilu í vegavinnu. Borgaraflokkarnir í Stórþingi Norðmanna kröfðust þess, að ríkisstj. ákvæði sjálf kaupið í vegavinnunni, eins og jafnaðarmenn og kommúnistar halda fram, að þeir myndu gera hér, ef þeir væru í meirihlutaaðstöðu, en jafnaðarmaðurinn Nygaardsvold og stuðningsmenn hans í Stórþinginu sátu við sinn keip. Forsætisráðherrann sagðist mundu gera það að fráfararatriði, ef lögin fengjust ekki samþ. Hann vildi undir engum kringumstæðum ákveða kaupið sjálfur. Í Noregi gera jafnaðarmenn það að fráfararatriði, ef þeir fá ekki að ákveða kaupgjald með gerðardómi. Á Íslandi segja jafnaðarmenn af sér fyrir það, að gerðardómslögin eru samþ. En þrátt fyrir þessa einkennilegu framkomu Alþfl. hér á Íslandi, hefir gerðardómslögunum verið framfylgt á fyrsta stigi þeirra. Það hefir verið skráð samkv. gerðardómnum á saltfisksveiðar. Að vísu samþykktu sjómannafélagsmenn þetta kaup á félagsfundi og telja þá samþykkt undirstöðu skráningar, en ekki gerðardóminn. Slík samþykkt skiptir vitanlega ekki miklu máli til eða frá. Aðalatriðið er það, að lögin og gerðardómurinn hafa náð tilgangi sínum fram til þessa. Ég sagði það í upphafi, þegar ég fékk lögin sett, að ég ætlaði mér að treysta á löghlýðni verkalýðsins. Það traust hefir ekki brugðizt á fyrsta stigi málsins, og ég ætla að treysta því, að það bregðist ekki heldur um þann hluta laganna, sem óframkvæmdur er ennþá. Það er rétt, að Sjómannafélagið hefir mótmælt gerðardómslögunum og gerðardóminum. En það er ekkert nýtt, að lögum frá Alþingi sé mótmælt. Jarðræktarlögunum var mótmælt víðsvegar um land í miklu stærri stíl en þessum gerðardómslögum, og fleiri dæmi mætti nefna. Þó urðu þeir bændur miklu fleiri, sem voru lögunum fylgjandi, eftir að þau höfðu verið skýrð og skilin. Þannig hygg ég, að fara muni einnig um gerðardómslögin. Gott mál og rétt vinnur stöðugt á, því lengra sem liður, því meira sem menn hugsa það með ró og því betur sem menn skilja rökin, sem að málinu liggja. Við þurfum því alls ekki að kippa okkur upp við það, þótt lögunum sé mótmælt í fyrstu. Það hefir svo oft komið fyrir. Ég skil það mæta vei, að sjómenn. sem vegna þeirra kenninga, er að þeim hefir verið haldið, og hafa ekki mátt heyra gerðardóm nefndan, taki þessu máli illa í fyrstu, meðan hiti er í skapsmununum og lítið um rólega yfirvegun. Sú samþykkt sjómanna, að þeir telji sér heimilt að koma í veg fyrir, að skráð verði á skipin, þarf alls ekki að vera ólögleg. Ef það er ætlun Sjómannafél. að hindra skráningu á skipin með því að hafa áhrif á vilja sjómannanna, þá er það hvergi bannað. Lögin skylda engan þegn þjóðfélagsins til þess að fara um borð í togara og vinna þar. Þau skylda hvorki mig né form. Sjálfstfl. eða nokkurn annan til að stunda sjómennsku, eða heimila að setja okkur eða aðra með valdi um borð í togara til þess að við vinnum þar. Kaupið hefir aðeins verið lögákveðið með gerðardómi fyrir þá, sem sjómennsku vilja stunda. Sumir bændur — að vísu sárafáir — hafa verið taldir á það að taka ekki við jarðræktarstyrknum samkv. nýju jarðræktarlögunum. Sjálfstæðismenn hafa ekki framið neitt lögbrot með því að telja einstaka bændur inn á þessa leið. Bændurnir fremja heldur ekkert lögbrot með því að taka ekki á móti styrknum. Ef það er ætlun sjómanna að hindra lögskráningu, með því að beita áhrifum sínum þannig og breyta þannig vilja sjómanna, þá er ekki um neitt lögbrot að ræða. En ef á að hindra mann með valdi frá vinnu, þá gegnir allt öðru máli. En þann skilning mun ég, sem dómsmálaráðherra, ekki leggja í þessa samþykkt, og það hefir enginn, þangað til annað reynist, leyfi til að gera það, úr því að hægt er að skilja hana sem löglega á allan hátt eins og hún er orðuð. Ég hefi sagt fyrr í umr. um þetta mál, að ef það eigi fyrir mér að liggja, að mér yfirsjáist í þessu máli, þá vil ég heldur, að yfirsjón mín stafi af oftrausti á löghlýðni sjómanna og verkalýðsins en vantrausti í þeirra garð. í minni stjórnartið hefir tekizt að leysa vanda vinnudeilnanna með friði og nokkurnveginn gagnkvæmu trausti. Það kom í stað lögregluvalds, sem kostaði þjóðina of fjár, en tryggði þó ekki friðinn. Ég vil mikið til vinna, að sá friður haldist, sem verið hefir og byggzt hefir á þessum vinnuaðferðum, er upp voru teknar, er ég tók við þessum málum. Mér er það ljóst, að með því að sýna verkamanna- og sjómannastéttinni vantraust, þótt hún geri einhverjar samþykktir í hita dagsins, búast við lögbrotum, hervæðast gegn henni fyrirfram og mynda jafnvel „sterka stjórn“, eins og form. Sjálfstfl. orðar það, með miklu valdi, vitanlega þá lögregluvaldi, er mjög sennilegt, að komið yrði af stað þeim óeirðum, sem aldrei hefði þurft að koma til ella. Það mætti a. m. k. alltaf kenna því um og jafnvel ásaka sjálfan sig fyrir það. Þessu er sennilega hægt að komast hjá með því að taka á málunum með skynsemi og gætni og sýna verkalýðsstéttinni verðskuldað traust, í stað tilefnislauss vantrausts. Ég vil a. m. k. vona það í lengstu lög. Ég fer að sjálfsögðu ekki að gefa neinar yfirlýsingar um það, hvað ég muni gera, ef traust mitt reynist oftraust. Það er áreiðanlega ekki hyggilegt að ræða fyrirfram um slíkt, enda ekki unnt að segja um það fyrr en í vandann er komið og aðstæður allar liggja ljóst fyrir. Þær vinnuaðferðir hafa reynzt mér hingað til hinar hyggilegustu vinnuaðferðir.

Sama máli gegnir um þær deilur, sem nú eru framundan, og gerðardóminn. Það væri óheppilegt fyrir lausn þeirra, að mynda það, sem kallað er „sterk stjórn“, til að setja lög og draga lið að sér til að framfylgja þeim lögum og gera með því ráð fyrir að óreyndu, að menn muni ekki reynast löghlýðnir og sýna endalausa ósanngirni í kröfum sínum. Ég viðurkenni, að ástandið er ekki glæsilegt, og ég verð að játa, að það eru mikil vonbrigði fyrir þá, sem hafa barizt fyrir því að halda uppi verklegum framkvæmdum til hins ýtrasta, sem hafa búizt við, að verkalýðurinn myndi sýna sanngirni í kröfum, aðeins sanngirni, að reka sig á það sem staðreynd, að sumstaðar er það svo, þegar afurðaverðið lækkar um helming frá því, sem var s. l. sumar, og kaup sjómanna við síldveiðarnar lækkar einnig stórlega, þá skuli af landverkamönnum vera gerðar kröfur um verulegar kauphækkanir. Þetta virðist ekki vera sanngjarnt, svo ekki sé meira sagt, þegar á það er litið, að kaup þessara sömu landmanna er af ýmsum talið hafa verið betra og jafnara en sjómanna s. l. sumar, þegar verð síldar var hæst, hvað þá nú, þegar afurðaverðið stórlækkar, og það því meir. sem kaup landverkamanna og þar af leiðandi vinnslukostnaður síldarinnar eykst. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þetta stafar af því, að verkalýðurinn hefir að einhverju leyti óholla forystu. Ég veit, að þessi vinnuaðferð verður verkalýðnum ekki til blessunar, heldur til bölvunar. Allar öfgar enda að lokum í ósigri.

Í einu af nágrannalöndum okkar gerði verkalýðurinn allsherjarverkfall fyrir nokkrum árum, og var það talið byggt á mikilli óbilgirni. Næstum öll milistéttin reis gegn verkamönnunum, og menn buðu sig unnvörpum fram sem sjálfboðaliða til vinnu. Allsherjarverkfallið var þannig úr sögunni á örskömmum tíma, vegna þunga almenningsálitsins. — Verkalýðurinn vinnur aldrei hagsbætur sér til handa með því að ganga of langt. Hann getur aldrei eyðilagt þjóðfélagið með óbilgirni. En hann getur eyðilagt sjálfan sig og samtök sín. Sú vinnuaðferð, sem ég vil nota til hins ýtrasta, er að leiða verkalýðnum þetta fyrir sjónir, sýna hina fyllstu sanngirni og þolinmæði, vænta þess, að verkalýðurinn skilji rökin, og freista að leysa vandamálin með góðu, en eigi með valdi. Ef ríkisstj. byrjar að safna liði að sér, þá sýnir hún það eitt, að hún ber ekki traust til almennings, og það traust vil ég ekki gefa Upp fyrr en á úrslitastundu. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, að sú ríkisstj., sem þannig hagaði sér, hve „sterk“ sem hún væri að þingmannatölu, væri í raun og veru hin veikasta stjórn, sem unnt væri að mynda í þessu landi nú. Þingmannatala er vald, sem nægir skammt í þessu efni. Það er ekki heldur það vald, sem átt er við af formælanda þessa vantrausts, þegar talað er um „sterka stjórn“. Núv. stj. hefir næga þingmannatölu til að fá samþ. lög. Það vald, sem hin „sterka stjórn“ á að hafa, er liðsafnaður, en slíkur liðsafnaður myndi, auk þeirra afleiðinga, sem að framan eru raktar, gefa öfgaflokkunum byr í seglin og skipa verkalýðshreyfingunni á stuttum tíma í byltingaflokk, yzt til vinstri. Við Íslendingar höfum ekki hervæðzt gegn neinni þjóð, og ég held, að þótt nú líti að sumu leyti illa út hvað snertir tillitslausar kröfur verkalýðsins sumstaðar á landinn, þá eigum við ekki að byrja á því nú að hervæðast gegn verkalýðnum. Ég hefi a. m. k. enga trú á því, að sú stjórn, sem þannig hagaði sér, ætti skilið að heita „sterk stjórn“, því að hún myndi aldrei verða það í raun og veru. Það er sitt hvað að taka á þessum málum, eftir að traust ríkisstj. til verkalýðsins hefir brugðizt, ef það óhapp ætti að henda, eða að kalla slík vandræði yfir sig og aðra að fyrra bragði. Í minni meðvitund er það tvennt gerólíkt.

En við höfum einnig nokkra reynslu í þessum málum. Sú stj., sem farið hefir með völdin hátt á 4. ár, hefir verið miklu sterkari stjórn gagnvart vinnufriðnum og öllu öryggi í landinu heldur en sú stjórn, sem fór með völdin áður, og það hefir ekki kostað nema tiltölulega lítið fé að halda uppi lögum og reglu, samanborið við það, sem áður var. Þannig myndi reynslan verða á ný, ef upp væru teknar þær vinnuaðferðir, sem andstæðingarnir eru nú að mæla fyrir.

Því hefir og verið haldið fram, að stj. væri of veik vegna þess, að hún hefði stuðning Alþfl. ótímabundinn og eftir málefnum. Alþfl. gæti því sagt upp stuðningnum hvenær sem er, ef ágreiningur yrði milli flokkanna.

Undanfarin ár hefir verið samvinna milli Alþfl. og Framsfl. um ríkisstjórn. Alþfl. hefir haft ráðh. í ríkisstj. og það hefir verið samið um mál fyrirfram.

Þó hefir rás viðburðanna hagað því svo, að komið hafa upp mál, þar sem Framsfl. taldi sig fremur verða að láta samvinnuna slitna heldur en víkja frá þeirri lausn málanna, er hann taldi rétta. — Þessi ágreiningur leiddi svo, sem kunnugt er, í annað skiptið til kosninga, en í hitt skiptið til þess, að Alþfl. dró ráðh. sinn úr ríkisstj. fyrir fáum dögum.

Þetta sýnir okkur tvennt. Í fyrsta lagi, að samvinnan getur jafnt slitnað, hvort sem báðir flokkar hafa ráðherra í stjórninni eða aðeins annar með stuðningi hins. Stjórnarsamvinnan og stjórnin er því sennilega hvorki veikari eða sterkari, hvor leiðin sem valin er. Reynslan frá 1927–1931 sannar þetta einnig.

Í öðru lagi sýnir þessi reynsla undanfarinna ára það, að Framsfl. hefir enga tilhneigingu til þess að halda stjórnaraðstöðu, ef það þarf að kosta hann það, að víkja í lausn mála frá því, sem flokkurinn telur rétt. — Þannig mun það enn verða.

Í þessu grundvallaratriði er því styrkleiki stj. óbreyttur frá því, sem verið hefir undanfarin ár. — Þær líkur, sem reynt er að færa fram fyrir hinu gagnstæða, eru því rökvillur einar.

Samhliða þeim rökum, sem ég hefi nú greint, liggja önnur og dýpri rök til þess, að Framsfl. hefir talið rétt að mynda hreina flokksstjórn með stuðningi Alþfl. Framsfl. telur rétt, og það er í samræmi við þá skoðun, sem ég hefi lýst hér að framan, að afgreiða sanngjarna og milda vinnulöggjöf með Alþfl., vinnulöggjöf byggða á reynslu hinna frjálslyndu lýðræðisþjóða annarsstaðar á Norðurlöndum. Það hefir verið sagt um Framsfl., að þessi löggjöf yrði aldrei samþ. Við höfum unnið að henni í þrjú ár. Við höfum beðið og hlýtt á öll rök þessa máls, og mikill hluti verkalýðsins, sem áður var andvígur slíkri löggjöf, er nú orðinn henni meðmæltur. Þetta álitum við betri vinnuaðferðir en að kasta lögunum hér inn í þingið. og afgreiða þau undirbúningslítið og í fullum fjandskap verkalýðsins, áður en verkamenn hafa áttað sig á sanngirni málsins og því, að það er þeim fyrir beztu að fá réttláta löggjöf í þessu efni. Æsingamenn innan verklýðshreyfingarinnar reyna að magna andstöðu gegn þessari löggjöf. og þeir gera það gegn betri vitund, sjáandi það, að þar sem vinnuaðferðir þeirra hafa verið viðhafðar, er verkalýðurinn nú gersigraður og réttlaus, en í þeim löndum, sem búa við svipaða löggjöf og þá, er hér á að setja og þessir sömu menn kalla þrælalög, hefir verkalýðurinn mest frelsi og bezta afkomu yfirleitt. — Alþfl. á nú í harðri baráttu við öfgamennina, og það er ekki enn útséð um, hvort mönnunum frá Moskva muni takast að skaðskemma og sýkja verklýðshreyfinguna meira en orðið er. Framsfl. telur það miklu máli skipta, að það takist að leiða verkalýðinn inn á sömu brautir og á Norðurlöndum, þar sem hann er bezt menntur. Slíkt hefir stórkostlega þýðingu fyrir hvert þjóðfélag. Sýking í verklýðshreyfingunni er meiri og minni sýking í þjóðfélagsheildinni.

Meðan ekki er útséð um það, hvaða stefnu verkalýðurinn tekur, er heldur ekki hægt að segja fyrir um, hvort framtíðarsamvinna getur orðið milli Framsfl. og Alþfl. Mörg hinna stærstu vandamála, svo sem tolla-, skatta- og bankamál, fyrirkomulag togaraútgerðarinnar o. fl., bíða nú úrlausnar, ýmist í undirbúningi hjá ríkisstj., í nefndum„ kosnum af Alþingi, eða á annan hátt. Stefna Framsfl. er ákveðin og markviss. Það fer alveg eftir stefnu verkalýðsins í landinu og viðhorfi hans til hinna stærri mála, hvort Framsfl. á þar nokkra samleið með verkamönnum eða ekki, og þá um leið, hvort stjórnarsamvinnan helzt til frambúðar. Baráttan innan Alþfl. er að miklu leyti um það, hvort fylgja skuli leiðum kommúnismans undir merkinu frá Moskva, eða fara þær leiðir, sem verkamenn Norðurlanda hafa kosið sér og Jón heitinn Baldvinsson barðist fyrir til hins síðasta. Hans síðasti vilji kemur fram í þeim orðum, er hann mælti á síðasta verklýðsfundinum, sem hann sótti: „Það er hið hættulegasta ævintýri fyrir íslenzka alþýðu, að taka sér merki mannanna frá Moskva í hönd og ganga með það út í baráttuna. Undir því merki mun hún bíða ósigur og falla“. Hann benti á, að barátta verkalýðsins væri ekki ærsl eða hávaðafundir, heldur þrotlaus barátta fyrir málefnunum sjálfum í samstarfi við millistéttina. Baráttan er um það. hvort þessi síðustu orð hins reynda verklýðsforingja eigi að marka stefnu Alþfl. eða merkið frá Moskva á að vera leiðarstjarnan. Okkur framsóknarmönnum er það vel ljóst, að ef mynduð hefði verið hin svokallaða „sterka stjórn“ til hægri með liðsafnaði og lögregluvaldi á bak við sig, þá myndi það hafa orðið því valdandi, að margir verkamenn, sem nú standa á vegamótum hinna ólíku lífsstefna, myndu í örvæntingu hafa gengið undir Moskvamerkið og sogast niður í hyldýpi byltingarstefnunnar. Og okkur er það jafnljóst, að með því að mynda hreina flokksstjórn, með því að sýna verkalýðnum fyllstu sanngirni og traust, er von til þess, er hann stendur á þessum hættulegu tímamótum, að hann geti með rólegri yfirvegun fundið hina réttu leið. Það er þessi ábyrgðartilfinning Framsfl., markviss barátta hans til að styrkja jafnvægið í þjóðfélaginn — en raska því ekki —, sem einnig réð þegar stjórnin var mynduð. Framsfl. dylst ekki, hve mikla þýðingu það hefir fyrir verkamennina sjálfa og þjóðfélagið í heild, hverja stefnu verkalýðshreyfingin tekur. Framsfl. telur það ákjósanlegt að hafa vinstra megin við sig heilbrigðan, frjálslyndan verkamannaflokk, sem vinnur að lögum og án allra öfga, sem hann getur starfað með og haft ásamt meirihlutavald á Alþingi til að koma fram umbótamálum. Ef hin „sterka stjórn“ hefði verið mynduð, myndi Alþfl. hafa orðið öfgastefnunni að einhverju leyti að bráð, svo að ekki voru nokkrar líkur til, að Framsfl. ásamt Alþfl. kæmi til að hafa meirihlutavald á Alþingi eftir næstu kosningar. Ef ekki hefði verið mynduð stjórn á þann hátt, sem gert var, en stefnt út í kosningar nú þegar, voru auk hins mikla tilkostnaðar einnig nokkrar líkur til, að stefnt væri að því, að Alþfl. myndi ekki geta myndað meiri hluta á Alþingi með Framsfl. eftir þær kosningar. Framsfl. hefði því eftir þær kosningar sennilega verið þvingaður til samvinnu við Sjálfstfl. í næstu ár, án tillits til þess, hvort æskilegur málefnagrundvöllur var fyrir hendi frá sjónarmiði Framsfl. Niðurstaðan, sem tekin var, hrein flokksstjórn með stuðningi Alþfl., var því að athuguðum öðrum leiðum hyggilegasta lausnin.

Hér hefi ég nú rakið nokkuð viðhorf Framsfl. til stjórnmálanna í landinu, miðað við það, að hér séu ekki á öðrum sviðum óvenjulegir tímar.

En auk þessara sjónarmiða er ríkisstj. og Framsfl. fullkomlega ljóst, hve tímarnir eru erfiðir, og álítur, að sú stjórn, sem nú situr, sé heppilega skipuð með tilliti til þess. Ríkisstj. er ljóst, að eftir eindæma aflaleysi á þorskveiðum í 2 ár, eftir markaðshrun fyrir aðalútflutningsvöruna, er útlitið ekki glæsilegt, ekki sízt ef þorskvertíðin skyldi enn verða léleg.

Ástandið úti í heiminum spáir heldur engu góðu, þegar jafnvel hin ábyrgustu erlend blöð tala opinskátt um yfirvofandi og óhjákvæmilegan ófrið næstu mánuði. Þetta ástand veldur því, að sérhver maður, og þá ekki sízt ríkisstj., hlýtur að líta á ástandið með nokkrum kvíða og með yfirvegun um það, hvernig vandinn verði leystur. Framsfl. lítur með fullkominni athugun og yfirvegun einnig á þetta mál um leið og hann tekur tillit til pólitíska ástandsins í landinu yfirleitt. — En framsóknarmenn hér á þingi, og ég hygg flokksmenn um land allt, álíta, að stjórnin myndi ekki verða „sterkari stjórn“, þótt fullt samstarf hefði tekizt nú til annararhvorrar handar. Þjóðin mun ekki telja það vænlegt til lausnar vandamála á erfiðum tímum og óvenjulegum, að þegnunum sé skipað í tvær andstæðar sveitir, baráttufylkingar, hvorri gegn annari, og það þótt ríkisstj. hefði í bili einhvern liðsdrátt að baki sér og stærri fylkingu til að knésetja hina fylkinguna um stund. Á erfiðum tímum verða þjóðirnar sterkar með því einu að gera sér ábyrgðina ljósa sem heild og skipa sér ekki í tvær breiðfylkingar til baráttu hvor við aðra, heldur í eina heild gegn erfiðleikunum. Með því að hafa framsóknarstjórn við völd fer sá flokkur með völdin, sem meira og meira skapar jafnvægið, kjölfestuna í þjóðfélaginu. Það er sagt, og það er rétt, að við framsóknarmenn erum öruggir flokksmenn, stöndum fast saman og fylgjum ákveðinni stefnu, sem við höfum markað okkur. En við höfum eina meginreglu, sem er hafin yfir allar aðrar, og hún er sú, að leysa hvert stórt vandamál, sem að höndum ber, með stefnuna í baksýn, en jafnframt samkv. eðli málsins og aðstæðum öllum. Þannig var það við síðustu kosningar, þegar jafnaðarmenn heimtuðu þjóðnýtingu og gjaldþrot eins ákveðins fyrirtækis. — Við hikuðum ekki við að leggja það mál undir dóm þjóðarinnar. Niðurstaðan varð sú, sem við væntum. Þannig er það um gerðardóminn. Við leystum málið eins og við vissum réttast og sanngjarnast, án tillits til þess, hverjar afleiðingarnar kynnu að verða að því er snerti valdaaðstöðu í landinu. Þannig er það um vinnulöggjöfina, sem við myndum hafa lagt undir dóm þjóðarinnar, ef hún hefði ekki á annan hátt fengizt leyst. Það er mál, sem við höfum undirbúið og yfirvegað í 2 ár. Við höfum komizt að niðurstöðu um hina heppilegustu lausn og viljum leysa málið nú. Þannig munum við taka á hinum miklu vandamálum, sem virðast vera framundan vegna ástandsins innanlands og utan. Enginn okkar veit í dag, hvað framundan er í þessum efnum. En ríkisstj. mun vera á verði, og það mun áreiðanlega ekki standa á Framsfl., ef vaxandi og óvenjuleg hætta nálgast, að taka þær ákvarðanir, sem nauðsynlegar eru, án tillits til nokkurs annars en þjóðarhagsmuna. Mér er fullljóst, að vel getur til þess komið, að nauðsynlegt verði að mynda samvinnustjórn, ekki breiðfylkingu til vinstri eða hægri, heldur stjórn, sem skipaði öllum ábyrgum flokkum, allri þjóðinni í eina heild, til að gera samstillt átak í erfiðleikum. Þeir flokkar, sem ekki vildu taka á sig þá skyldu, ef nauðsyn krefur, yrðu þá að hverfa út af sjónarsviði stjórnmálanna — ekki fyrir valdi, heldur fyrir þunga hinnar almennu ábyrgðartilfinningar.

Í öðrum löndum, sem eru okkur nálægust og skyldust, er yfirvofandi stríðshætta að þoka mönnum inn á þessar brautir. Hvort eða hvenær það kann að reynast nauðsynlegt hér, veit enginn enn. Ég bendi á þetta til þess að menn sjái, að Framsfl. einblínir ekki á eina leið. Hann hefir grandskoðað þetta mál og hefir um það fyllstu yfirsýn, eins og sá flokkur verður að hafa, sem fer með ábyrgðina á erfiðum tímum. En hitt er jafnvíst, að nú í dag er ekki í hinum flokkunum jarðvegur fyrir slíka samvinnu. Og þó getur svo farið, að rás viðburðana verði sú, utanlands og innan, að það ástand skapist, að einmitt slík samvinnustjórn allra ábyrgra flokka væri eina stjórnin á slíkum tímum, sem hægt væri að kalla „sterka stjórn“.

Að þessu athuguðu fel ég það tvímælalaust eðlilegt, að Framsfl. fari með stjórn landsins eins og sakir standa.