29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 354 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. þm. G.- K. er að spyrja um það, hvort nokkur von sé til þess, að nokkur maður fáist til að leggja peninga í togaraútgerð. Ég held, að svo geti verið. Því að ég held, að togarafélögin séu svo illa stæð, að það sé ekkert orðum aukið, að þau hafi ekki fjármagn og geti ekki heldur fengið lánsfé til þess að gera sjálf tilraunir. Það er annað, þó að fyrirtæki, sem búið er að sýna, að margborga sig, leggi út í kostnað, eins og síldarverksmiðjur til dæmis, sem hafa sýnt sig að vera bjargvættur fyrir útgerðina. Það er annað að veita 8 millj. í það heldur en í kaup á nýjum togurum, sem ég skal alveg játa með hv. þm. G.-K., að er ekki hægt að gera sér of bjartar vonir um. En þetta verður þó að reyna, hvort þetta er ekki leiðin til þess, að þessi útvegur geti lifnað í framtíðinni. Ef ekki er hægt að reka nýtízku skip með breyttu fyrirkomulagi og með þeim tilslökunum, sem búið er að gefa útgerðinni á margan hátt, þá er stórútgerðin hér á landi dauðadæmd, eftir þeim upplýsingum, sem eru til. Þess vegna er vitanlega sjálfsagður hlutur, að gert sé allt, sem hægt er, til að reyna hvort ekki sé hægt að reka togaraútgerð áfram með sæmilegum árangri. Er því fullkomlega réttmætt að styrkja slíka tilraun svo mikið sem hér er gert ráð fyrir.

Um það, sem hv. þm. sagði, að ekki mætti slaka neitt til á tollum við útgerðina nú, þá er búið að upplýsa hér í umr., að það er búið að afnema toll af kolum, salti og olíu, eða svo að segja, og búið að tilkynna, að það komi samsvarandi fríðindi frá bæjarfélaginu til handa útgerðinni, sem sennilega mun koma. Og þar að auki er búið að létta tollum af öllum saltfiski, sem fluttur er út. Ég sé því ekki annað en orðinn sé allmikill skattaléttir til handa þessari útgerð og þeim vörum, sem hún notar og framleiðir. Því að aðalvörurnar, sem útgerðin notar, eru vitanlega kol, salt og olía; og hingað til hefir aðalsöluvaran verið saltfiskur, þó að það sé nú kannske að einhverju breytt.