05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 97 í D-deild Alþingistíðinda. (2870)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Flm. (Ólafur Thors):

Ég læt sitja í fyrirrúmi að svara hv. þm. Seyðf. og hæstv. forsrh. Hv. þm. Seyðf., sem talaði fyrir hönd Alþfl., hóf mál sitt á því að láta í ljós undrun sína yfir því, að Sjálfstfl. skyldi leyfa sér að bera fram þessa vantrauststillögu. Rök hans voru þau, að það hefði verið vitað, að Framsfl. stóð að ríkisstj., og að Alþfl. hefði heitið henni stuðningi. Það væri því gersamlega óþinglegt, og eiginlega fullkomin óhæfa, að Sjálfstfl. skyldi dirfast að bera fram þessa tillögu.

Um þetta má nú margt segja, en við þennan hv. þm. læt ég þau ein rök nægja, að minna á, að þegar Ásgeir Ásgeirsson í júnímán. 1932 myndaði stjórn sína, þá hafði hún yfirlýst þingfylgi, og það ekki aðeins hlutleysi, heldur beinan stuðning 36 þm. af 42, sem þá voru á þingi. Sama daginn sem stjórnin var mynduð var samt sem áður borin á hana vantraustsyfirlýsing, — og hver skyldi svo hafa gert það? Það var þessi sami Haraldur Guðmundsson, og hans flokkur, sem það gerðu, svo þangað er fordæmisins að leita, svo ekki er leiðum að líkjast.

Hv. þm. fullyrti, að engin ástæða væri til að óttast kaupdeilur fremur nú en áður. Með slíkri fyllyrðingu raskar hann þó á engan hátt þeim rökum, sem ég færði fram í frumræðu minni fyrir því, að samkeppni Héðins Valdimarssonar og kommúnista við sósíalista um fylgi verkalýðsins bendir sérstaklega til, að einmitt óvenjuleg hætta sé á ferðum í þessum efnum. Talandi vottur þess er til dæmis sá, að nú skuli vera yfirvofandi hætta á stöðvun skipa ríkisins og Eimskipafélagsins, auk þess er ég áður hefi getið, að þrátt fyrir getuleysi ríkissjóðs er nú þegar borin fram krafa um stórfellda hækkun á vegavinnukaupinu, sem og það, að búið er að æsa verkamann á Siglufirði til þess að krefjast þess, að kaup sjómannanna, sem þegar er lækkað um helming vegna lækkunar á bræðslusíldarverðinu, verði enn lækkað í því skyni að bæta við 700 kr. mánaðarkaup landvinnumannanna. Nei, Haraldur Guðmundsson veit, að kommúnistar nota hvert tækifæri, sem þeir geta, til að reyna að spana upp kaupdeilur í því skyni að stöðva framleiðsluna, og hann veit jafnvel, að sjálfur er hann og flokkur hans ekkert annað en leiksoppur í höndum Héðins Valdimarssonar og kommúnista, og verður það a. m. k. þar til útséð er um, hvernig leikar fara á alþýðuþinginu í haust.

Hv. þm. (HG) sagði, að tilgangur útvegsmanna með stöðvun togaranna hefði verið sá, að kljúfa stjórnina, og færði fram sem einu sönnunina fyrir þessu, að útvegsmenn væri nú fallnir frá öllum þeim kröfum um ívilnanir af hendi ríkisins, sem þeir í öndverðu hefðu gert, og hefðu tekið tillöguna um rannsóknir á togaraútgerðinni með þakklæti, en áður hefðu þeir verið henni andvígir. Við þetta er nú fyrst það að athuga, að útgerðarmenn stöðvuðu aldrei togarana, heldur voru það forkólfar Aþfl., sem beittu sér fyrir stöðvuninni, og hafa nú einnig heitt sér fyrir málshöfðunum á hendur eigendum skipanna fyrir að þeir, m. a. í því skyni að halda uppi atvinnu í landinu, gerðu skipin út allt fram í febrúarmánuð. Þar næst er það að athuga, að útgerðarmenn hafa á engan hátt fallið frá neinni þeirri kröfu, sem þeir hafa gert um ívilnanir, og loks er þess að geta, að tillögum um rannsókn tóku útgerðarmenn með fögnuði, einmitt vegna þess, að með þeirri till. sjá þeir hilla undir loforð ríkisvaldsins, um að óskir þeirra um ívilnanir verði uppfylltar. Útgerðarmenn vita nefnilega, að skýrslur þeirra um stórfelldan taprekstur á undanförnum árum eru réttar, og þeir vita líka, að rannsókn af hendi löggjafarvaldsins er ekkert annað en einskær vitleysa, nema því aðeins, að tilgangurinn sé, að niðurstaða rannsóknarinnar verði lögð til grundvallar fyrir skattaívilnunum ríkisins. Fleira er nú ekki að athuga við þetta, enda nægir þetta til að sýna, að ekki eitt, heldur allt, sem þm. sagði um þetta. er helber vitleysa.

Mér þykir skylt að þakka þessum hv. þm. fyrir þann stuðning, sem hann veitti mínum málstað í ræðu sinni. Ég hafði lagt ríka áherzlu á að sýna fram á þann ágreining, sem orðinn er milli sósíalista og Framsfl., sem annarsvegar á rætur í þrengingu þjóðarinnar, en hinsvegar í hræðslu og lúpuhætti sósíalista við Héðin Valdimarsson og kommúnista. Haraldur Guðmundsson staðfesti, sjálfsagt þó gegn sínum vilja, mjög greinilega réttmæti þeirra ummæla minna. Í fyrsta lagi varði hann miklum hluta ræðutíma síns til þess að sýna hinn djúpsetta ágreining milli Framsfl. og Alþfl. um afskipti löggjafans af kaupdeilum, en í öðru lagi staðhæfði hann, að engin samvinna gæti orðið á milli þessara flokka, ef ekki næðist samkomulag um bankamálin og rekstur stórútgerðarinnar. Hér á Alþingi er öllum kunnugt, að haldi Alþfl. fast við þær kröfur, er hann hefir borið fram í bankamálunum, þá er óhugsandi, að þar náist nokkurt samkomulag, og um allar byggðir landsins er það nú kunnugt orðið, þeim er eitthvað fylgjast með útgerðarmálunum, að Framsfl. muni aldrei ganga inn á, að ráðizt verði með lögum á einstök fyrirtæki til að gera þau gjaldþrota, né heldur að tekinn verði upp ríkisrekstur á togaraútgerðinni, en hvorttveggja þetta er sem kunnugt er þær kröfur, sem Alþfl. hefir borið fram, og sem Haraldur Guðmundsson í ræðu sinni í gær sagði, að flokkurinn héldi fast við. Er þá hér, ef marka má yfirlýsingar Alþfl. og formanns hans meira en venjulegt glamur, enn ein viðbótarsönnun þess, að Framsfl. og Alþfl. eiga ekki lengur neina samleið.

Enda þótt þessi hv. þm. væri með persónulega illkvittni í minn garð og niðrandi áróður í garð h/f Kveldúlfs, þá tel ég ekki neina ástæðu til þess sérstaklega að hirta hann að þessu sinni, enda er það tæplega gustuk. Sjálfum hefir honum nýverið verið hent útbyrðis úr stjórnarduggunni á þann hátt, að engum manni gat dulizt, að bersýnilegt var að því stílað að losna við hann. En flokkur hans má muna sinn fífilinn fegurri, þegar hann á þrettánda alþýðuþinginu, í árslok 1936, samþykkti kommúnistiska starfsskrá, og skipaði Framsfl. að ganga tafarlaust inn á hana, ella yrði samvinnu slitið. Var sá hroki að vísu nokkuð tekinn að dvína, þegar þessi hv. þm. stóð hér á Alþingi fyrir nær ári síðan og tilkynnti þjóðinni, að hann og hans flokkur heimtaði skilyrðislaust, að Framsfl. gengi inn á 5 stórmál, sem Alþfl. hefði borið fram, ella yrði nú gerð alvara af því að slíta tafarlaust samvinnu á Alþingi og um stjórn landsins. En mikill er þó sá munur, sem nú er á orðinn, er ráðh. loksins eftir ellefu mánaða þaulsetu hefir verið kastað fyrir borð, en hann og flokkur hans samt sem áður reyna að líma sig sem allra fastast utan í Framsfl., í þeirri vesölu, en að því er virðist algerlega fávísu von, að kastað verði til hans bjarghring og hann tekinn upp í stjórnardugguna að nýju.

Þessir fáu drættir sýna vel ásjónu sósíalista eins og hún er nú orðin. Hún er mögur, eins og allir sjá, lítið annað en beinin, rétt eins og stjórnmálaáhugi forkólfanna sjálfra.

Að öðru leyti mun ég víkja að ræðu þessa hv. þm., eftir því sem efni standa til, um leið og ég nú svara ræðu hæstv. forsrh. Ég kem þá að ræðu hæstv. forsrh. Eiginlega kom hún mér ekki á óvart. En ég gæti trúað, að ýmsir hinna hugsandi manna í Framsfl. hafi orðið fyrir vonbrigðum. Ég gæti trúað því, að hafi mér ekki tekizt að sannfæra þá um það, hversu hin nýja stjórn er veik og hversu gálauslega er til hennar stofnað, þá hafi þó forsrh. tekizt það að fullu. Þeir hafa hlotið að finna, að hin afarveika vörn hans var talandi vottur hins hæpna málstaðar. Þeim hefir áreiðanlega ekki yfirsézt, að kjarninn var ekki stór. þegar búið var að svipta til hliðar fallega orðuðum og skáldlegum samlíkingum og gömlum framsóknar-leiktjöldum, sem listmálari flokksins. hv. form. flokksins (JJ), hefir búið til og notað, þegar hann er að sýna þjóðinni, hvílíkir séu yfirburðir Framsfl. — flokksins, sem allt hafi gert, sem vel hefir gert verið, allan vanda leyst, og allan vanda muni leysa, — flokksins, „sem tekur sínar ákvarðanir án tillits til annars en þjóðarhagsmuna“, — flokksins, sem grannskoðar allt og hefir fyllstu yfirsýn yfir allt o. s. frv., svo vitnað sé til orða forsrh. í gær.

Nei, sannarlega var vörnin veik, — veik eins og sjálfur málstaðurinn.

Ég deildi á stefnu fyrri stjórnar, þá stefnu, sem forsrh. telur, að hin nýja stjórn muni fylgja, og sýndi fram á, að sú stefna leiddi til augljósrar glötunar. — Hverju svaraði forsrh.? — Engu.

Ég taldi stjórnina óþingræðislega myndaða. Hverju svaraði forsrh.? — Engu.

Ég taldi alveg víst, að stjórnin væri ekki lýðræðisstjórn. — Hverju svaraði forsrh.? Engu.

Ég sýndi fram á, að stjórnin myndi ekki geta leyst nein viðfangsefni á sviði löggjafarinnar, vegna þess að hinar breyttu kringumstæður, fátæktin og örðugleikarnir, hefðu dauðadæmt kröfupólitíkina, sem stjórnin hefði lifað á og sósíalistar vildu halda áfram að lifa á. Ég sannaði með sögu þriggja síðustu þinga, að Framsfl. og sósíalistar eru orðnir alveg óvirkir í samstarfinu. Ég sýndi, að á öllum þessum þingum hefir ekkert mál, sem neinu skiptir, verið leyst nema þau, sem leyst hafa verið með samstarfi Sjálfstfl. og Framsfl., en gegn harðvítugri mótspyrnu og hreinum fjandskap sósíalista. Ég sannaði, að alveg hið sama myndi enn verða, og ég taldi, að þing eftir þing, sem ekkert aðhefðist annað en hirða 300–400 þús. kr. úr ríkissjóði, hlyti að missa allra tiltrú, einnig stuðningsmanna stj., og að þjóð, sem ætti forystu í höndum slíks þings, væri í voða.

Allt þetta sýndi ég og sannaði. Hverju svaraði forsrh.? — Engu.

Loks sannaði ég, að úr því stjórn HermJ klofnaði út af ágreiningi um kaupgjaldsmálin, þá hefði verið með öllu óleyfilegt að mynda nýja stjórn, án þess að tryggja, að stuðningsmenn hennar litu sömu augum á þessi mál, og það því fremur, sem sjálft miskliðarefnið væri ekki liðið hjá, og mörg svipuð gætu vaknað upp.

Ég leiddi rök að því, að þegar forsrh. myndaði hina nýju stjórn, hafi honum verið kunnugt um, að mikil hætta var á, að til hennar kasta kæmi um framkvæmd gerðardómslaganna. Ég sýndi fram á, að þegar forsrh. samt sem áður styður stjórn sína við þann flokk, sem vinnur gegn framkvæmd gerðardómslaganna og þegar í stað riftir stuðningi sínum, ef stjórnin framfylgir lögunum, — þá hefði ráðh. beinlinis og vitandi vits brugðizt skyldu sinni, boðið hættunni heim, gert gerðardómslögin að engu, en ríkisvaldið að leiksoppi í höndum Héðins Valdimarssonar, kommúnista og sósíalista.

Ég sýndi fram á þetta, og margt annað svipað, með sterkum og óyggjandi rökum, sem mér þykir ástæðulaust að endurtaka hér, enda ekki tími til þess, og sannaði, að svo sem komið er um samkeppni sósíalista annarsvegar, en kommúnista og Héðins Vald. hinsvegar, þá væri alveg fyrirsjáanlegt, að með sjálfri stjórnarmyndunni væri egnt fyrir þá, er spana vilja til illinda og vinnustöðvunar, en jafnframt hefði stjórnin, með því að styðjast við sósíalista, fyrirfram girt fyrir, að hún gæti gert skyldu sína á því sviði, hversu rík þjóðarnauðsyn sem að kynni að kalla.

Þessi ádeila var eiginlega sú eina af þeim, er ég bar fram, sem forsrh. sýndi viðleitni til að svara. Það var aðallega tvennt í þessum hluta ræðu minnar, sem forsrh. gerði að umræðuefni.

Ég hafði krafizt sterkrar stjórnar, er væri bær um að halda uppi vinnufriði í landinu. Út frá þessu flutti nú ráðh. langar hugleiðingar. Gekk ráðh. út frá því sem gefnu, að sterk stjórn hlyti að þýða stjórn, sem hefði að baki sér marga steytta hnefa, margar kylfur eða margar byssur. Hitt virtist ráðh. hreint ekki renna grun í, hvað þá meira, að sterk stjórn gæti sótt styrk sinn í mikið kjósendafylgi, þ. e. a. s. stutt sig við þjóðarviljann. Að stjórn Sjálfstfl. t. d. væri sterkari en stjórn Framsfl. af því að Sjálfstfl. hefir að baki sér 25. þús. kjósendur, en Framsfl. ekki nema 14 þús. Eða að stjórn beggja þessara flokka gæti verið sterkari en flokksstjórn hvors um sig. Hitt er svo auðvitað satt, að engri stjórn er vært í nokkru landi, nema hún geti haldið uppi lögum landsins og staðið gegn ofbeldi, hver sem því ætlar að beita.

Kröfu mína um, að stjórnin yrði að vera fær um að halda uppi vinnufriði í landinu, reyndi ráðh. að látast skilja á þá leið, að mér væri efst í huga, að stjórnin ætti — eiginlega helzt nú þegar — að draga saman lið og byrja að berja á verkamönnum. Út frá þessum skilningi ályktaði ráðh. svo, að mínar tillögur yrðu óvinsælar og sú stjórn yrði veik, sem þeim fylgdi. — Já, því gæti ég nú trúað. Gallinn er bara sá, að hvorki mér né nokkrum öðrum hefir dottið neitt slíkt í hug, hvað þá borið það fram.

Aðalatriði þessa máls er, að svo sem komið er efnahag verkalýðsins, atvinnurekenda og ríkisins sjálfs, þá verður eftir fremstu föngum að forðast, að vinnustöðvun hrindi þjóðinni fram af snös gjaldþrots, en þar riðar hún nú.

Enginn dirfist að neita því, að í þeim efnum geti á hverjum tíma, og sérstaklega nú, komið til kasta ríkisstjórnarinnar. Ekki þannig, að ríkisvaldið ráðist á saklausa menn, svipti þá athafnafrelsi og skipi þeim að vinna. Heldur þvert á móti þannig. að ríkisvaldið verndi saklausa menn, sem með ofbeldi á að banna að vinna.

Enginn ætlast til, að nokkur stjórn geti fyrirfram gefið fulla vissu fyrir, að hún ráði við öll slik mál, er fyrir kunna að koma.

Ádeilan á stjórnina er þá líka ekki út af því, að slík vissa sé nú ekki fyrir hendi, heldur út af hinu, að með því að styðjast við sósíalista hefir stjórnin fyrirfram gefið þeim, sem vandræða vilja stofna til, vissu um, að þeim sé óhætt að fara sinn fram, en það er þjóðarvoði.

Þetta er munurinn á þeirri veiku stjórn, sem nú fer með völdin, og sterkri stjórn, sem nyti jafnt þingfylgis sem þjóðarfylgis, enda þótt hún héldi uppi lögum og rétti í landinu, jafnt á þessu sviði sem öðrum.

Þessi rök ráðh. eru því haldlaus, og það veit enginn betur en hann sjálfur, enda veit ég fyrir víst, að við erum svo hjartanlega sammála um þetta. Og það vil ég segja ráðh., að honum er ráðlegt að tefla sínu tafli dálítið varlegar. Mikill meiri hluti sjómanna og verkamanna skilur vel, að eins og allt gengur, getur kaupgjaldið ekki hækkað. Þeir vilja því með gleði vinna við óbreytt kjör. Þeir óttast fátt meira en áróður og ofbeldi fárra leiðtoga og æsingaseggja, sem stofna vilja til vinnustöðvana og þar með svip a þá og þurfandi heimili þeirra daglegu brauði. Þessir menn vilja ekkert fremur en að svo sterk stjórn fari með völdin í landinu, að hún spani a. m. k. ekki, vegna síns veikleika, óeirðirnar upp á sig — og þá.

Það veit enginn betur en forsrh., að ekkert heldur jafnvel í skefjum öfgunum sem meðvitundin um það, að sjálft ríkisvaldið láti ekki bjóða sér hvað sem er. — Það er vel valið dæmi um það, hve styrkurinn fær oft afstýrt vandræðum, sem mikilsvirtur maður sagði við mig í dag: Hverjum dettur í hug, að Ítalía hefði tekið Abessiníu, ef Englendingar hefðu verið búnir að hervæðast?

Það annað úr ræðu minni, er ráðh. sérstaklega vék að, voru rök mín fyrir því, að líkur bentu til, að framkvæmd gerðardómslaganna myndi geta komið til kasta ríkisstjórnarinnar.

„Ég trúi á löghlýðni. Ég vil heldur gerast sekur um oftraust en vantraust á löghlýðni sjómanna“. — Þetta var kjarninn í vörn hæstv. forsætisráðh.

Það er fallegt að treysta eða jafnvel oftreysta löghlýðni sjómanna. Hitt er aftur á móti hæpinn vinningur, að oftreysta einfeldni hlustenda. Eða dettur forsrh. í hug, að almenningur trúi því, að maður með hans lífsreynslu treysti löghlýðninni svona í fullkominni barnalegri blindni? — Þetta er ekki aðeins traust, heldur fullkomið oftraust á einfeldni og trúgirni hlustenda. Hlustendur vita, hvernig málið liggur fyrir. Við skulum stikla á stærstu dráttunum.

Andstaða Alþfl. gegn gerðardómslögunum er alkunn. Á þingi berst hann á móti þeim með hnúum og hnefum. Telur lögin kúgun og ofbeldi. Einn þingmanna flokksins, sjálfur formaður sjómannafél., hv. 3. landsk. (SÁÓ), talar um, að það sé ekki búið að bíta úr nálinni, þó frumv. verði samþ. Íslenzkir sjómenn hafi hingað til ekki látið kúga sig, og það sé ekki víst, að þeir geri það ennþá. Alþýðan muni risa upp o. s. frv.

Þannig talaði þessi þm. Alþfl. um gerðardómslögin, þ. e. a. s. þá stefnu, að lögskipuð gerð ákvæði kaupgjaldið á togurunum.

En um sjálft kaupgjaldið sagði hann, að væntanlegur gerðardómur myndi dæma svipað kaup og sáttanefnd sú, er hæstiréttur að ósk forsrh. skipaði, hafði lagt til, að gilti, — og reyndist hann um það sannspár.

Sagði þm., að nefnd þessi hefði verið hlutdræg. Hún væri „innstillt“ — eins og hann orðaði það — af Framsfl. og rétt spegilmynd af hugarfari hans í garð sjómanna og verkamanna. En Framsfl. hugsaði um það eitt, að sporna gegn því, að kaupið hækkaði um eyri. Það væri alkunna, að sá flokkur væri versti verkalýðsböðull í landinu. Sá hugsunarháttur væri þó að vísu til í nokkrum hluta Sjálfstfl., en höfuðbólið væri Framsfl., o. s. frv. Lauk hann ræðunni með því að segja, að kauptillaga þessarar sáttanefndar — en hún er í höfuðatriðum mjög áþekk dómi gerðardóms — væri hrein og bein fjarstæða, gerð eingöngu í því skyni að svívirða sjómenn.

Svona var nú baráttan á þingi. Henni lauk, svo sem kunnugt er, með því, að Haraldur Guðmundsson eigi aðeins hótaði að segja af sér, heldur gerði nú það, sem enginn treysti honum orðið til, — hann sagði af sér.

Eftir þetta vissu allir, að sósíalistum væri það metnaðarmál og kappsmál að eyðileggja gerðardómslögin í framkvæmdinni, og koma með því fram hefndum fyrir víg Haralds Guðmundssonar.

Þeir létu þá ekki heldur lengi á sér standa. Þeir sömdu, báru fram og létu samþykkja hina frægu tillögu, er eigi aðeins mótmælir lögunum, heldur líka kaupgjaldinu, og eigi aðeins mótmælir, heldur líka hótar að hindra, að lögin verði framkvæmd. Þeir létu blað sitt, Alþbl., slá því föstu, að þessi mótmæli og þessi hótun væri í fullu samræmi við vilja og aðstöðu alls þingflokks Alþfl.

Og nú kemur að því, að hæstv. forsrh. snýr sér til þeirra um stuðning við stjórnina. Ég veit, að forsrh. myndi móðgast, ef nokkur bæri á hann, að hann hefði verið svo gálaus að reyna ekki að jafna ágreininginn um gerðardóminn. Allir vita, að einmitt á það lagði hann höfuðáherzlu. Allir vita líka, hve spakir sósíalistar eru orðnir valdhöfunum. En samt sem áður fær forsrh. þá ekki til að sættast á gerðardóminn, heldur svara þeir, að stuðningurinn muni verða tímabundinn og eftir stjórnarframkvæmdum, þ. e. a. s. að sósíalistar muni styðja stjórnina þar til hún reynir að framkvæma gerðardómslögin.

Það er alveg tilgangslaust fyrir forsrh. að látast ekki skilja það, sem allir aðrir skilja, að Alþfl. er staðráðinn í því að spana til andúðar gegn lögunum, en fella stjórnina, ef hún ætlar eitthvað að láta til sín taka um framkvæmd laganna.

En jafnvel þótt einhver vildi nú trúa því, að forsrh. einn allra hafi verið blindur í þessu máli, þá hljóta þó allir að telja, að Haraldur Guðmundsson hafi með ræðu sinni í gær opnað augu hans. Haraldur Guðmundsson svipti tjaldinu fullkomlega til hliðar og tók af öll tvímæli. M. a. sagði hann:

Alþfl. taldi sig ekki lengur geta átt ráðh. í stjórninni til þess að leggja blessun sína yfir framkvæmd gerðardómsins“.

Síðan breiddi hann sig út yfir, að sú veila væri í lögunum, að engin refsing lægi við að brjóta þau. Og loks kvað hann alveg upp úr um fyrirætlanir Alþfl. Hann sagði: Það verður aldrei löng deila um kaupgjaldið á síldveiðum — menn taki eftir, deila um kaupgjaldið á síldveiðum, þ. e. a. s. það kaup, sem gerðardómurinn er búinn að úrskurða — vegna þess, að stærstu togarafélögin eiga líka verksmiðjur og munu því ganga inn á kauphækkun, fremur en til stöðvunar komi.

Og síðan lagði hann stjórninni boðorðin. Hún má ekki vernda strækubrjóta, eins og Har. Guðmundsson komst að orði.

Læzt nú forsrh. enn ekki skilja, hvað í vændum er? Læzt hann enn, einn allra, ekki sjá, hvað Har. Guðm. og hans menn ætla?

Allir aðrir sjá, að það, sem í vændum er, er þetta:

Þegar síldveiði nálgast, verður reynt að gylla fyrir sjómönnum líkur fyrir því, að þeir þurfi ekki að sætta sig við kjör gerðardómsins. Það er sjálfur hinn nýkjörni form. stuðningsflokks stjórnarinnar, sem byrjaði þann undirróður í áheyrn alþjóðar hér á Alþingi í gær. Síðan á að reyna að þvinga fram samþykkt í sjómannafél. um, að enginn megi ráða sig upp á hin lögskipuðu kjör. Takist það — og þá væntanlega fyrir tilstilli ýmiskonar lýðs, sem greiðir atkvæði í sjómannafél., en aldrei kemur á togara, — þá á að kalla togarasjómennina, sem vilja hlýða landslögum og búa að góðri atvinnu, strækubrjóta, og þeim á svo að bægja með ofbeldi frá vinnu.

En leyfi svo ríkisstjórn Hermanns Jónassonar sér hinsvegar að hugsa til að vernda hina vinnufúsu sjómenn, sem hlýða vilja þeim lögum, er sett voru undir forystu sjálfs Hermanns Jónassonar, þá kemur Haraldur Guðmundsson og segir: „Stuðningur Alþfl. var ótímabundinn og háður stjórnarframkvæmdum“.

Hreyfi stjórnin sig þá, er hún samstundis fallin. Þá verður að kalla saman þing, og það er a. m. k. mjög hæpið, að hægt verði að mynda nýja stjórn svo tímanlega, að takast megi að forða þjóðinni frá þeim voða, að síldveiðin falli niður að einhverju eða öllu lyti. — Frá þessari hættu getur ekkert bjargað nema það eitt, að sjómenn taki völdin af leiðtogunum.

Hér er svo augljóst, Hvað framundan er, og hér er svo mikið í húfi, að forsrh. má ekki ætla sér að sefa kviða þjóðarinnar með því að berja sér á brjóst og segja: „Ég trúi á löghlýðni“, — og sízt eftir að Haraldur Guðmundsson í gær lét hann þreifa á naglaförunum, — beinlínis tilkynnti honum og öllum öðrum allar fyrirætlanir Alþfl. í þessu máli.

Þjóðin ætlast til þess, að forsrh. hennar skyggnist dýpra en þetta í stærstu málin á þessum alvarlegu tímum.

Þjóðin ætlast til þess, að sá flokkur, sem nú tekur að sér að fara með völdin í landinu, stingi ekki höfðinn í sandinn, heldur þori hann að horfast í augu við örðugleikana, en það virðist Framsfl. ekki þora í þessu máli.