05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég mun fyrst fara nokkrum orðum um ræðu hv. þm. Dal. (ÞBr). Ég mun ekki svara ræðu hans miklu, en einstök atriði í henni voru þó þannig vaxin, að ekki verður hjá því komizt að leiðrétta þau.

Hv. þm. bar það blákalt fram, að ég og aðrir fulltrúar Framsfl. hefðum árið 1935 verið búnir að semja um 1millj. kr. lækkun á fjárl., en síðan fallið frá þessu, þegar á reyndi, vegna kröfu frá sósíalistum, og síðan hækkað fjárl. um 2 millj. kr. Hv. þm. Dal. sagði, að þetta væri einhver hin stærstu þingsvik, sem framin hefðu verið. Allt þetta tal hv. þm. eru hrein ósannindi. Sparnaður sá, sem um var samið í fjvn. 1935, var samþ. af þinginn, og var ekki hætt við að samþ. neitt af þeim sparnaði, sem um hafði verið samið. Hitt er annað mái, að upp voru teknar jöfnum höndum fjárveitingar til ýmissa nýmæla, er lögfest voru á því þingi, og má þar t. d. nefna framlag til nýbýlasjóðs, skuldaskilasjóðs o. fl., eða samtals 1 millj. kr.

Aðaliðja hv. þm. undanfarin ár hér á Alþingi hefir verið sú, að áfellast Framsfl. fyrir lækkanir á ýmsum liðum fjárl., sem framkvæmdar voru einmitt á þinginu 1935, en hann segir nú allt í einu, að ekki hafi verið framkvæmdar.

Hv. þm. kom í ræðulokin inn á gjaldeyrismálin, og það með þeim hætti, að ekki má ómótmælt standa. Hann sagði, að þjóðin væri gjaldeyrisvandræðunum óviðbúin, vegna þess, að ég hefði talið duldar greiðslur allt of lágar og tilkynnt, að greiðslujöfnuði hefði verið náð, þótt svo hefði í raun og veru alls ekki verið. Upplýsingar þær, sem ég hefi byggt á upphæð hinna duldu greiðslna, eru frá sænska hagfræðingnum Lundberg, er hér dvaldi á vegum skipulagsn. atvinnumála. Hann taldi greiðslur þessar vera 6 millj. kr. Eru þá ekki taldar með afborganir af föstum lánum. Reynslan hefir sýnt, þvert á móti því. sem hv. þm. Dal. vill vera láta, að þessi áætlun hagfræðingsins er mjög nærri lagi, Hvað sem hv. þm. Dal. segir um það atriði, þá hefir enginn gert sér eins mikið far um það og einmitt ég að gera mönnum ljósa gjaldyrisörðugleikana og vara menn við bjartsýni í þeim efnum. Hitt er annað mál, að ég hefi einnig skýrt þinginu frá þeim árangri, sem náðst hefir í þessum efnum fyrir aðgerðir þings og stj., en það hefir hv. þm. Dal. ekki þolað. Hv. þm. átti sæti í þeirri ríkisstj., sem ráðuneyti Hermanns Jónassonar tók við af. Niðurstaða verzlunarinnar við útlönd 1934 var hin versta, sem orðið hefir um mörg undanfarin ár. Á árinu 1935 tókst að lagfæra þetta nokkuð, þar sem verzlunarjöfnuðurinn það ár varð um 6 millj. kr. hagstæðari en árið áður, en ekki tókst þó að ná fullkomnum greiðslujöfnuði. Var alls ekki farið dult með það af mér. En árin 1936 og 1937 hefir verzlunarjöfnuðurinn verið svo hagstæður, að þegar tillit er tekið til innflutningslánsfjár, þótt ekki hafi hann verið mikill, þá hefði greiðslujöfnuður náðst, ef ekki hefði festst í þýzkalandi 2–3 millj. kr. á síðastl. ári. Vanskilaskuldir innflytjenda um áramótin, sem ég hefi gert að sérstöku umræðuefni hér á Alþingi í öðru sambandi, stafa þess vegna fyrst og fremst af verzlunarhalla ársins 1934. En þegar niðurstaða þess árs var ráðin, átti hv. þm. Dal. sjálfur sæti í ríkisstj. Einnig stafa þær þó að nokkru frá árinu 1935, þar sem ekki hafði tekizt að ná fullum greiðslujöfnuði það ár, og af mikilli vörusölu til Þýzkalands á síðastl. ári.

Hv. flm. vantrauststill. (ÓTh) færði fyrir henni tvær meginröksemdir: Annarsvegar, að stjórnin væri of veik, þar sem hún hefði ekki tryggt sér fullan stuðning Alþfl. til að framkvæma þær ráðstafanir, sem gera þyrfti í sambaneti við framkvæmd gerðardómslaganna. Þessari röksemd hefir hæstv. forsrh. svarað svo glöggt, að ekki verður um bætt. Hinsvegar færði flm. fram þau rök, að ríkisstj. hefði lýst því yfir, að hún myndi fylgja sömu meginstefnu og gert hefir verið undanfarið, en þeirri stefnu væri Sjálfstfl. mótfallinn. Þessa röksemd hv. flm. fyrir vantraustinn vil ég taka til nokkurrar athugunar.

Hv. þm. virtist ekki álíta vandasamt að lýsa því, hver þessi meginstefna ríkisstj. hefði verið og árangri hennar í framkvæmd. Hann dró þessa lýsingu saman í 3 aðalatriði, sem mér skildust vera þessi:

1. Að stjórnin hefði skapað hér gjaldeyrisvandræði. 2. Að hún hefði gert allan atvinnurekstur að taprekstri. 3. Að hún hefði opnað dyrnar fyrir atvinnuleysinu.

Áður en ég sný mér að því að lýsa með fáum orðum aðalárangri þeirrar stjórnarstefnu, sem fylgt hefir verið undanfarið, vil ég rifja upp nokkrar staðreyndir um atburði, er gerzt hafa á valdatímabili núv. stj. og sem ekki er unnt annað en taka tillit til. ef meta á stefnu stj., og hvort staðhæfingar hv. þm. (ÓTh) eru á rökum reistar.

Á því 3 ára tímabili, sem miðað er við, þegar talað er um stefnu stj. undanfarin ár, hafa markaðir fyrir íslenzkan saltfisk breytzt svo, að á sl. ári fluttum við til Spánar og Ítalíu 8140 smál. fiskjar, en árið 1934 35225 smál. Til annara landa var saltfisksútflutningur jafnmikill sl. ár og 1934.

Tvö undanfarin ár, 1936 og 1937, hefir þorskafli svo gersamlega brugðizt, að í stað þess, að meðalafli áranna 1931–1935 var 60300 smál., þá var heildaraflinn 1936 29130 smál. og árið 1937 27950 smál., og nær því hvorugt árið helmingi af meðalafla undanfarinna fimm ára. Þrátt fyrir þennan gífurlega aflabrest og minnkandi fiskmagn til sölu á erlendum markaði hefir saltfisksverðið allt fram á þetta ár fremur farið lækkandi frá því, sem var, þótt svo að segja allar aðrar vörur hafi hækkað.

Síðastl. 2 ár hefir geisað hin skæðasta drepsótt í búfé landsmanna, sem menn muna. Drepsótt þessi hefir herjað fimm af sýslum landsins og drepið tugi þúsunda af sauðfé, og virðist sízt lát á henni enn sem komið er.

Með þessar staðreyndir fyrir augum stendur hv. þm. (ÓTh), form. Sjálfstfl., þess flokks, sem fram að þessu hefir haft flesta kjósendur, og ætti því af þeirri ástæðu einni að finna til þungrar ábyrgðar, sem þar að auki er talinn stóratvinnurekandi og á sæti í bankaráði þjóðbankans, og slær því föstu, og það án þess að ómaka sig á nokkurn hátt til þess að færa rök fyrir þeim fullyrðingum, að ríkisstj. hafi með stefnu sinni undanfarin ár skapað gjaldeyrisvandræðin, opnað dyrnar fyrir atvinnuleysinu og gert allan atvinnurekstur að taprekstri. Menn geta ímyndað sér, hvort ríkisstj. hefir valdið taprekstri sjávarútvegsins, þar sem verðiag hefir farið lækkandi á framleiðsluvörunum, en hækkun orðið á öllu, sem þarf til rekstrarins, og aflinn nemur ekki nema helmingi af meðalafla undanfarinna ára.

En hver hefir þá verið stefna stj. undanfarið og hvernig hefir henni tekizt að mæta erfiðleikunum? Með ráðstöfunum löggjafans hefir verðið, sem bændur fá fyrir afurðir sínar á innlendum markaði, verið hækkað svo, að afkoma bænda er nú ekki sambærileg því, sem áður var. Aukið eftirlit með innflutningi til landsins hefir borið þann árangur, að meðalinnflutningur síðustu 3 ára var 10 millj. kr. lægri en meðalinnflutningur næstu 10 ára þar á undan. Verzlunarjöfnuðurinn þessi 3 síðustu ár hefir að meðaltali orðið meira en helmingi hagstæðari en næstu 10 árin þar á undan, þrátt fyrir 8 millj. kr. lægri meðalútflutning undanfarin 3 ár. Innlendur iðnaður, einkum þó sá, sem snertir útflutninginn. hefir aukizt svo mjög undanfarið, að í ágústmánuði sl. var mun minna atvinnuleysi en hafði verið undanfarin 5 ár, og þar með minna atvinnuleysi en verið hafði áður en saltfisksmarkaðurinn lokaðist. Það er sennilega þetta, sem á máli hv. þm. G.-K. heitir að „opna dyrnar fyrir atvinnuleysinu“. Sl. 3 ár hefir verið varið jafnmiklu til að koma nýjum iðngreinum á fót eins og gert hafði verið næstu 10 árin á undan. Frá ársbyrjun 1935 til ársloka 1936 hafa skuldir við útlönd, samkv. upplýsingum hagstofunnar, vaxið um 6.6 millj. kr., og er það sem svarar Sogsláninu einu saman. Á árinu 1936 lækkuðu heildarskuldirnar við útlönd, samkv. heimild hagstofunnar, um ca. 1 millj. kr., og það er vitað mál. að á árinu 1937 hafa skuldir þjóðarinnar við útlönd í heild sinni sízt vaxið, að frádregnum innieignum í vöruskiptareikningum erlendis. Þannig hafa skuldirnar 3 síðustu árin aðeins vaxið sem nemur Sogsláninu, en ekki um tugi millj., eins og hv. þm. Dal. og hv. þm. G.-K. lét sér sæma að fullyrða í umr. í gærkvöldi. Þessari niðurstöðu, sem ég nú hefi drepið á, hefir verið náð án þess að þurrð nauðsynjavara hafi orðið í landinu eða dregið hafi verið úr nauðsynlegum byggingarframkvæmdum.

Hv. stjórnarandstæðingar deila nú fast á stj. fyrir gjaldeyrisvandræðin. En dálítið er það óviðkunnanlegt að taka við ámæli af þeim mönnum, sem ábyrgð báru á stjórn landsins 1933 og 1934, og sem sífellt, síðan núv. stj. fór að herða á innflutningshöftunum, hafa gert allt, sem í þeirra valdi hefir staðið, til þess að torveldu framkvæmd gjaldeyrislaganna og þeirra annara ráðstafana, er stj. refir orðið að gripa til vegna gjaldeyrisvandræðanna.

Þá er það eigi síður óviðfelldið að liggja undir ámæli þessara manna fyrir skuldasöfnun við útlönd, þar sem sú staðreynd liggur fyrir, að hækkun heildarskulda þjóðarinnar hefir einmitt verið stöðvuð í tíð núv. stj., og að síðustu 2 árin hefir verzlunarjöfnuðurinn við útlönd orðið meira en helmingi hagstæðari en í hinum mestu góðærum áður. Hitt er svo annað mál, og það mun ég allra manna sízt draga fjöður yfir, að vegna þess að innflutningur erlends lánsfjár hefir verið nálega stöðvaður nú sl. 3 ár, og lækkun útflutningsverðmætis hefir borið að höndum á sama tíma, hefir ekki tekizt að greiða verzlunarskuldir af verzlunarhalla áranna 1933, 1934 og 1935. Gjaldeyrisvandræðin eru því mjög mikil og horfurnar í þeim málum mikið áhyggjuefni öllum þeim, sem með þessi mál fara. Það er öllum ljóst. að eigi það enn eftir að henda, að þorskvertiðin bregðist, svo sem verið hefir undanfarið, og að 3. aflaleysisárið bætist við, þá er gersamlega ómögulegt annað en að viðhorfið breytist enn, og verður þá að gera allar hugsanlegar ráðstafanir til þess að draga úr vöruinnflutningi og án efa einnig að gera ráðstafanir til þess, að gjaldeyrislántaka fari fram. — Eitt er þá einnig víst, að þau úrræði, sem gripið verður til í gjaldeyrismálunum, verða ekki í samræmi við stefnu Sjálfstfl. í þessum málum, ef um hana er hægt að tala, heldur framhald af þeim ráðstöfunum, sem Framsfl. hefir framkvæmt.

Þótt andstæðingarnir hafi valið þann kostinn í þessum umr. að hefja hér einskonar eldhúsdag á ríkisstj. og framkvæmdir hennar, þá hygg ég, að það sé tímabært að vekja athygli á því, eins og hæstv. forsrh. hefir þegar gert, að e. t. v. eru þeir tímar framundan, að bráðlega þykir meira um vert að sameinast um þær ráðstafanir, sem óumflýjanlegar teljast, heldur en að leggja sig allan fram um að torvelda þær og tortryggja, oft gegn betri vitund, og skapa þannig erfiðleika í því skyni að afla pólitísks fylgis. Þótt ég hafi eytt hér tíma mínum til þess að mæta gagnrýni andstæðinganna, sem töluðu í gærkvöldi, þá mun ekki standa á Framsfl. að leggja niður deilur af þeirri tegund, er hér hafa verið vaktar, ef slíkt mætti til þess verða að skapa betri grundvöll fyrir samstarfi flokkanna um hin miklu vandamál, sem framundan munu vera.