05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (2878)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

*Haraldur Guðmundsson:

3. þm. Reykv., Héðinn Valdimarsson, kvaðst hér tala fyrir meiri hluta kjósenda í Alþfl. Ég veit, að hann er bjartsýnn á eigið fylgi, en hann hefir stundum rekið sig á það, að vonirnar hafa brugðizt, og er það ekki nema góður eiginleiki að gleyma sínum fyrri hrakförum, enda mun hann, þegar hann fer að reyna fylgi sitt, komast að raun um, að vonbrigðin munu verða stór og sár.

Hann telur óvandaðan málflutning Finns Jónssonar, þar sem hann er að lesa upp úr „Nýju landi“ án þess að gera grein fyrir tóntegundinni, sem það sé skrifað í. Mér finnst það sýna hvað bezt, hversu gersamlega fjarri Héðinn Valdimarsson er orðinn almennum hugsunarhætti Alþfl., að hann telur, að það, að mönnum er ekki gert að greiða nema lág félagsgjöld, réttlæti þau ummæli hans, að hópurinn sé klepptækur. Þetta sýnir, hversu fjarri hugsunarhætti Alþfl. hann er nú. Annars get ég bætt því við, að mér þykir nokkuð sláandi að heyra 3. þm. Reykv. nota nákvæmlega sömu illyrðin um hv. þm. Ísaf. eins og hv. þm. G.-K. temur sér mjög að nota um hann. Það var eins og 3. þm. Reykv. hefði lært utanað þau ókvæðisorð, sem þm. G.-K. er vanur að flytja um þm. Ísaf., þegar hann var að lýsa honum áðan.

Hann sagði, að Alþfl. væri horfinn frá sínum stefnumálum og vildi ekki fallast á, að hagur sjávarútvegsins væri rannsakaður þegar á þessu þingi. En enginn veit betur en 3. þm. Reykv., að það er ómögulegt að gera þá rannsókn á sjávarútveginum, sem þarf að gera, og koma með till. á þeim tíma, sem eftir er af störfum þingsins. Slík rannsókn væri kák eitt. Þetta veit 3. þm. Reykv. manna bezt.

Fleira hefi ég ekki við hann að segja að svo stöddu.

Hv. þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, lét svo um mælt. og lézt þar vera að svara mér, að réttur þjóðfélagsins til að lifa væri helgari en réttur fólksins til að svelta sig með skipulagsbundinni leti. Ég veit ekki, hvers vegna hann ræðir við mig um þetta, því Alþfl. hefir ekki verið með neinar slíkar till. í sambandi við togaradeiluna. Þvert á móti hefir Alþfl. lagt til, að togaradeilan væri leyst, eða það af henni, sem aðkallandi var að leysa, en það voru saltfisksveiðarnar. Alþfl. áleit, að þeir, sem taka að sér það vald, að skipa málunum með lögum, yrðu líka að taka á sig þá pólitísku ábyrgð, sem því fylgdi að kveða á um það, hvað kaupið skyldi vera. En Framsfl., sem hv. þm. er form. fyrir, kaus heldur að skjóta sér bak við gerðardóm heldur en að taka á sig þá pólitísku ábyrgð, sem því fylgdi að ákveða kaupið, sem greiða skyldi. Þetta er munurinn á þeim lausnum, sem um var að ræða, en það var enginn ágreiningur um það, að þingið gæti ekki afskiptalaust látið togarana liggja.

Hv. þm. S.-Þ. sækir nú fast að fá samstarf við ábyrga stjórnmálaflokka, eins og hv. þm. Dal. sagði í gær í ræðu sinni. Þar stendur hugur hans fyrst og fremst til Sjálfstfl. og Bændafl.

Hvað segir nú blað hv. þm. um annan af þessum ábyrgu stjórnmálaflokkum. Um Sjálfstfl. segir Nýja dagbl. 15. jan., að hann hafi breytzt úr fastheldnum íhaldsflokki í ábyrgðarlausan lýðskrumsflokk. Þetta segir blaðið um þann flokk, sem hv. þm. S.-Þ. vill fá sem ábyrgan samstarfsflokk. Blaðið talar ennfremur um ábyrgðarleysi og takmarkalaust lýðskrum þeirra manna, sem ráði mestu í Sjálfstfl. Svo segir blaðið, „að síðan 1929, þegar Jón Þorláksson var form. Sjálfstfl., hefir flokkurinn tekið þeirri meginbreytingu að gerast ábyrgðarlaus lýðskrumsflokkur, sem ekki hikar við að gera kröfur um tekjuhallarekstur á ríkissjóði og atvinnuvegunum í pólítísku augnamiði, í stað þess að vera áður fastheldinn Íhaldsflokkur, sem vildi hafa lág ríkisútgjöld og tekjuhallalausan rekstur fyrir sitt aðalmarkmið“.

Þetta er lýsing fjmrh. á þeim flokki, sem hv. þm. S.-Þ. sækir svo fast að fá að taka upp samstarf við í þinginu sem ábyrgan stjórnmálaflokk. Ekki er lýsing forsrh. á Bændafl. fegri, en það breytir engu um skoðun hv. þm. á því, hvað það sé æskilegt fyrir Framsfl. að fá hann fyrir samstarfsflokk.

Hv. 1. landsk., Brynjólfur Bjarnason, flutti hér alllangt erindi, sem ég ekki kemst hjá að víkja nokkuð að. Hann talaði fyrst um þingflokk Haralds Guðmundssonar, og væri því sennilega rétt svarað með því að tala ekki um þingflokk Brynjólfs Bjarnasonar, heldur þingflokk Stalíns hér á landi. En ég skal nú ekki vera að skemmta með slíkum orðaleik.

Hann sagðist ætla að segja á réttan hátt að nokkru leyti sögu sameiningarmálsins. Það var mikil varfærni hjá honum að taka það fram, að það væri ekki nema að nokkru leyti, enda sannaðist það mjög á málflutningnum.

Hv. þm. sagði, að á sambandsþinginu hefði komið fram till., sem kommúnistar hefðu ekki getað gengið að. Um það var þá engin vitneskja fengin. Ennfremur sagði hann, að á sambandsþinginu hefðu nokkrir menn tekið sig saman um að kljúfa Alþfl., ef till. yrði samþ. Þetta er nú að snúa sannleikanum í lýgi. Það eru þeir menn, sem gengu úr Alþfl. í Kommfl., sem gerðu tilraun til að kljúfa Alþfl. Það sýndi sig á sambandsþinginn, þegar enginn þeirra mælti á móti því, þegar samþykkt var einróma, að samningstilboðið væri það ýtrasta, sem flokkurinn treysti sér til að ganga.

Hv. þm., Brynjólfur Bjarnason, sagði, að þetta hefði aðeins verið málamynda tilboð. Það getur verið, að hann hafi tilefni til að halda það, því þá gerðist það, sem aldrei hefir komið fyrir og á vonandi aldrei eftir að koma fyrir aftur, að Héðinn Valdimarsson gekkst fyrir að safna undirskriftum undir skjal þess efnis, að þeir, er á það rituðu, væru tilbúnir til að ganga lengra í samningum við kommúnista en þeir höfðu áður samþ., að væri hægt að ganga. Þessir menn gengu svo inn í Kommfl., og þar mun vera falin ástæðan fyrir því, að þeir eru að afsaka þessa klofningsstarfsemi.

Þetta er nú saga alþýðusambandsþingsins rétt sögð.

Mér er illa við að heyra illa talað um þá menn, sem verið hafa mínir samstarfsmenn. Því var mér ánægja að því, að Brynjólfur Bjarnason mælti svo lofsamlega um Héðin Valdimarsson. Það er víst, að Héðinn Valdimarsson á þetta hól skilið af Kommfl. fyrir að hafa gengið yfir til hans og reynt að veikja Alþfl., og það er eðlilegt, að þessi lofsyrði komi frá Brynj. Bjarnasyni. Hann er þar að gjalda skuld við Héðin Valdimarsson, sem honum er skylt að gjalda. En ég spyr: Roðnar ekki Héðinn Valdimarsson undir þessu lofi? Ég óska honum til hamingju með þessi lofsyrði, eins og ég óska Kommfl. til hamingju með HV, þennan nýja liðsmann sinn, og óska, að hann njóti hans bæði vel og lengi.

BrB hefir margt að finna að núv. ríkisstj., og þó einkum Alþfl. ríkisstj. er að hans dómi hreinasti verkalýðsböðull, sem berst á móti öllum réttmætum kröfum verkalýðsins, drepur frv. kommúnista, sem mun vera stærsti gallinn, og út frá þessum forsendum ætlar hann ekki að greiða atkv. með vantrauststill., heldur sitja hjá. Hann ætlar svo sem ekki að stugga við þessari stj., sem er böðull verkalýðsins. Hann lauk máli sínu á mjög átakanlegan hátt. Hann sagði, að það væri hlutverk Kommfl. að ná meiri hl. á sambandsþinginu í haust, sem Alþfl. ætlar að halda. Og þessum meiri hl. ætla þeir að ná með stuðningi HV.

Vegna þess hve ég hefi eytt miklum tíma til að tala um þessa nýju bandamenn Sjálfstfl., hefi ég lítinn tíma til að svara hv. þm. G.-K. En þó get ég ekki komizt hjá að mótmæla 2 atriðum úr ræðu hans. Hann sagði, að það væri ekki satt, að útgerðarmenn hefðu stöðvað skipin nú á vertíðinni. Hann veit, að þetta eru ósannindi. Hann veit, að þeir bönnuðu að leigja skipin á ufsaveiðar, þótt enginn ágreiningur hefði risið um kaup eða kjör sjómanna á ufsaveiðum. Mér þótti eftirtektarvert, að hv. þm. skyldi varpa fram þessari spurningu: „Dettur nokkrum í hug, að Ítalir hefðu tekið Abessiníu, ef Englendingar hefðu verið búnir að hervæðast“? Hann talaði þarna líkingamál. ríkisstj. átti að vera Englendinqar og sjómennirnir Abessinía. Það, sem ríkisstj. átti að gera, var að hervæðast; hún átti að koma upp hervaldi til að vernda vinnufriðinn. Vegna þess að ríkisstj. gerði ekki þetta, er vantrauststill. flutt. Það átti að beita ofbeldi við sjómenn, án þess að vitað væri, hvort til vinnustöðvunar kæmi. Þetta er meginkrafa Ólafs Thors til ríkisstj., — þetta er krafa hans flokks.

Hann kvaðst sjá hilla undir uppfylling vona sinna í sambandi við rannsókn togaraútgerðarinnar og fleiri mál. Ég vildi mega óska þessari framsóknarstjórn þess, að hún láti aldrei þær hillingar, sem ÓTh tjáir þingheimi og öðrum, að hann eygi, verða að veruleika.