05.04.1938
Sameinað þing: 16. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í D-deild Alþingistíðinda. (2879)

91. mál, vantraust á ríkisstjórnina

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti, góðir hlustendur! Ég býst við, að hlustendum þyki þetta alleinkennilegar vantraustsumr., og mun ég varla þurfa að skýra fyrir þeim, hver tilgangurinn er með þessu vantrausti. Það var að koma þessum umr. af stað, sem nú hafa fram farið.

Ég þarf fáu að svara hv. þm. G.-K. Hann minntist á, að hann hefði afsannað ein 14 atriði af þeim, sem ég minntist á í gær. Ég býst við, að hlustendur fari meira eftir því, hvaða rök koma fram, en þótt menn segist hafa sannað eitt og annað. En það var eitt atriði, sem hv. þm. Seyðf. minntist raunar á, það var um það, að þótt auðvitað sé gott að hafa þingmannavald á bak við sig, þá er hætt við, að hv. þm., þótt 17 séu eða svo, myndu hrökkva skammt, þegar þyrfti að skakka vinnudeilur, enda kom fram í ræðu hv. þm., að til annars valds myndi þurfa að grípa í slíkum kringumstæðum. Þýðir svo ekki að deila um það frekar; það er skoðanamunur um það, hvernig leysa eigi stórkostlegt vandamál. Ég hefi þar fyrir mér nær fjögurra ára reynslu, — hann hefir sína skoðun. Ég hygg, að flestir hafi þá skoðun, að þegar þjóðir byrja að hervæðast, þá vaxi hernaðarandinn að sama skapi og fallbyssunum fjölgar. Það er a. m. k. reynslan í Evrópu nú og áður. Þar gildir sama reglan og í vinnudeilum, aðeins í stærri stíl. Ófriðarhættan vex óðar en hervaldið rís upp. Enda hefir það ekki verið siður hér á hv. Alþ., þótt l. hafi verið mótmælt, að draga saman lið. Menn muna efalaust eftir benzínverkfallinu. Það verkfall hætti án nokkurra bardaga og blóðsúthellinga, — en hvað hefði það verkfall kostað, hefði verið dregið saman lið af því, að lögum frá Alþ. var mótmælt?

Vitanlega verða gerðardómslögin framkvæmd. Þau eru lög frá Alþ., sem ekki þarf að tala um, hvort verði framkvæmd eða ekki.

Viðvíkjandi þessu vantrausti vil ég koma lítillega inn á það hlutverk, sem komið hefir í dagsljósið í sambandi við það. Það er hlutverk Sjálfstfl. og sjálfstæðismanna í landinu. Þar hefir komið í ljós, hvert hlutverk þeirra er. Það er eðlilegt, að þeir vilji komast til valda; það vilja allir flokkar. En aðferð þeirra hefir fyrst og fremst verið sú, að æsa menn upp. Má í því sambandi minna á, hvernig Morgunblaðið æsti sjómenn til að krefjast kauphækkunar, og Alþýðubl. gat þá ekki orðið eftirbátur þess. En svo þegar kom til samninga um kaup það, er þeir ættu að krefjast, þá kom það ekki sjálfstæðismönnum við. Það, sem skrifað var, var skrifað til þess að koma ríkisstj. í vanda, og það sama kemur fram í umr. Ögranirnar til sjómanna um það, að fella ætti gerðardóminn, eru einnig settar af stað til að koma stj. í vanda. Það er það sama og kemur fram í Vísi, þar sem sagt er, að ég hafi verið með hótanir í garð sjómanna, ef þeir hlýddu ekki gerðardómnum. Allt er þetta samskonar aðferð til að æsa upp verkalýðinn og koma stj. í vanda. Nú er talað um undirlægjuhátt jafnaðarmanna við Framsfl., en undanfarin 3 ár hefir alltaf verið talað um kúgun þá, er jafnaðarmenn beittu við Framsfl. Þetta leiddi til þess, að Bændafl. var klofinn úr Framsfl. í sveltunum, og nú á að nota sömu aðferð í kaupstöðunum. Hlutverk kommúnista er æ sem fyrr hið sama, að æsa verkalýðinn. Þeir komu af stað Siglufjarðardeilunni til að koma ríkisstj. í vandræði. Þeir tala um, að ríkisstj. sé of íhaldssöm, alþýðuflokksmenn séu alveg kúgaðir. Þetta er gert til að kljúfa verkalýðshreyfinguna.

Um vinnulöggjafarfrv. er talað sem þrælalög. Það er reynt að vekja ótrú á Alþfl. með því að segja, að aðferð þeirra til að ráða fram úr vinnudeilum sé engu betri en gerðardómur. Allt er þetta gert til að kljúfa. Ekkert sýnir þetta þó betur en ræður kommúnista hér. Ef einhverjir hlustendur hafa verið í vafa um, til hvers þessi till. er fram borin, þá hefðu þeir átt að sjá andlitin á stjórnarandstæðingunum, þegar kommúnistar voru að halda ræður sínar áðan. Þetta er allt undirbúningur undir alþýðusambandsþingið í haust. Þetta er allt undirróður, svo ég ekki segi rógur, til þess að kommúnistar geti náð meiri hl. á sambandsþinginu í haust. Menn vita, að einmitt nú ríður á að hafa vinnufrið, og þá er það tilgangur kommúnista að reyna að fá valdaaðstöðu til að eyðileggja hann og hyggjast til þess að hefja undirróðurs- og klofningsstarfsemi meðal verkalýðsins og beita því bæði í ræðum sínum og blöðum. En þeir athuga ekki, að um leið og þeir næðu verkalýðnum undir sitt merki, þá myndu þeir eyðileggja hann. Eins og hinn reyndi foringi Jón Baldvinsson sýndi fram á, þá myndi sameining Alþfl. og Kommfl. útiloka samstarf milli Alþfl. og Framsfl. Það er líka tilgangurinn með því að koma þessum umr. af stað, og því hafa þær farið fram með svo einkennilegum hætti. Þær koma ekki hlustendum fyrir eyru sem umr. um vantraust, enda auðséð, að tilgangurinn er allt annar.

Afstaða Framsfl. er hinsvegar sú, að reyna til hins ýtrasta að halda uppi jafnvægi þessa þjóðfélags, og reynslan verður að skera úr um, hvort það tekst. Það er fyrst og fremst komið undir því, hve sjálfstæðismenn eru duglegir með sína undirróðursstarfsemi og hvað kommúnistar verða duglegir að hjálpa þeim, og það er jafnframt komið undir því, hve jafnaðarmenn og foringjar verkalýðsins eru duglegir að standa þetta öldurót af sér. Meðan reynslan er að skera úr því, álít ég heppilegast, að framsóknarstjórn fari með völdin í landinu, af þeim ástæðum, er ég rakti hér í gær.

Ég þakka þeim, er hlustað hafa á mál mitt, og vil segja það, að fyrir mitt leyti get ég verið ánægður með þessar umr. og að vantraust þetta var fram borið og rætt á svo óvenjulegan hátt.