03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Emil Jónsson:

Það eru aðeins nokkur orð viðvíkjandi brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram við þetta frv., og er hún á þskj. 383.

Það hefir verið gerð sú breyt. á þessum l., að ákveðinn hefir verið styrkur til þess að létta undir með kaupum á nýjum skipum, og er ekkert nema gott eitt um það að segja, en ég tel sjálfsagt, að bæjar- og sveitarfélög séu jafnhátt sett og aðrir um hlunnindi til skipakaupa.

Það er sagt í l. um fiskimálanefnd o.fl., eins og kunnugt er, að þessi hlunnindi séu fyrst og fremst ætluð félagsskap verkamanna, sjómanna og annara til togarakaupa. En ég hefi nokkra ástæðu til að ætla, að það verði litið svo á af þeim, sem þar um ráða, að útgerðarfélögum bæjar- og sveitarfélaga sé ekki ætlað að koma þar inn og hafa þar sama rétt og annar félagsskapur. Ég hefi því flutt brtt., aðallega til þess að ljóst verði, hvort þessi útgerðarfélög eigi að hafa sama rétt og önnur útgerðarfélög eða ekki. Bæjarfélög, sem standa að útgerð, eru fyrst og fremst að eðli til félagsskapur sjómanna og verkamanna, því að það er ekki annarsstaðar, sem útgerð er rekin að nokkru verulegu ráði af hinu opinbera, en þar, sem hún er einmitt rekin til þess að létta undir með sjómönnum og verkamönnum, sem ekki hafa getað fengið sér atvinnu annarsstaðar. Þess vegna er þetta í sjálfu sér ekki annað en útgerð sjómanna og verkamanna í alveg sérstöku formi. Ég tel þess vegna þegar af þessari ástæðu rétt, að útgerðarfyrirtæki bæjar- og sveitarfélaga verði ekki sett skör lægra en þau útgerðarfélög, sem í 1. eru nefnd.

Um aðra brtt. við frv. og um frv. sjálft skal ég ekki ræða. Vona ég, að hv. þd. samþ. þessa brtt. mína, sem eingöngu miðar að því að taka af öll tvímæli um það, sem ég teldi sjálfsagt fyrir löggjafann að lögleiða í þessu efni.