25.02.1938
Efri deild: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2890)

14. mál, mjólkurverð

Flm. (Brynjólfur Bjarnason):

Herra forseti! Þegar mjólkurlögin voru sett fyrst, var því haldið fram, að hið nýja skipulag mundi lækka verðið mikið. Þessi lækkun er ekki enn komin fram, en aftur á móti hefir mjólkin nú verið hækkuð í Reykjavík og Hafnarfirði um 2 aura á lítrann. Þegar breyt. á mjólkurl. var samþ. á síðasta þingi, bentum við kommúnistar á, að eitt af tvennu hlyti að verða: Annaðhvort mundi mjólkin hækka eða verðið lækka til bænda í nágrenni Rvíkur, og við spurðum, hvorn kostinn flm. þessa máls gerðu ráð fyrir að taka. Við fengum engin skýr svör. Það var alveg vitanlegt, að það yrðu gerðar kröfur um verðhækkun frá bændunum í G.-K. Þær kröfur komu líka fram, og þeim var sinnt. Verðhækkunin kom líka. Þegar umr. fóru fram um þetta mál á síðasta þingi, var okkur ekki svarað neinu beinu um þetta, en þegar við spurðum, hvort ætlunin væri að hækka mjólkina í verði, var okkur svarað neitandi. Afleiðingin yrði ekki sú, mjólkin yrði hækkuð. En það hefir samt verið gert. Þegar breyt. á mjólkurl. voru samþ., var það vitanlega gert í trausti þess, að mjólkin yrði ekki hækkuð. Fulltrúar Alþfl. lýstu yfir því, að þeir greiddu brtt. atkv. eingöngu í trausti þess, að mjólkin yrði ekki hækkuð. Og ég man það. að þegar l. voru afgr. hér í d., lýsti hv. 3. landsk. yfir því skýrt og skorinort, að hann greiddi atkv. með þeim í trausti þess, að mjólkin yrði ekki hækkuð. Málið stendur því svo: Sjálfstfl. hefir lýst sig andvígan mjólkurhækkuninni og Alþfl. hefir lýst sig henni andvígan; sem sé meiri hl. Alþingis hefir lýst sig henni mótfallinn. Það hlýtur því að vera verkefni Alþingis að láta vilja sinn í ljós og láta ríkisstj. vita, að það er skylda hennar að gera ráðstafanir til, að mjólkin verði lækkuð aftur.

Bændur í G.-K. segjast ekki þola að fá sama verð og aðrir framleiðendur, nema mjólkurverðið almennt hækki til framleiðenda. Nú sér hver maður, að þegar önnur eins nauðsynjavara og mjólkin er svo einokuð sem raun er á, og hæsti framleiðslukostnaður látinn ráða um verðlagið, þá er það óforsvaranlegt gagnvart neytendum og líka til tjóns fyrir bændur og leiðir af sér hrun.

Þá er að athuga það, hvers vegna framleiðslukostnaðurinn er svona hár hjá þessum bændum. Eftir því, sem bændur austanfjalls segja, geta þeir vel framleitt mjólk fyrir 20 aura lítrann, og eftir því ætti að vera hægt að selja hana í Rvík fyrir 30 aura lítrann. Landleiga hjá bændum í nágrenninu er eitthvað hærri en í fjarsveitunum, og það ætti að vera eina eðlilega ástæðan til þessa misræmis í framleiðslukostnaðinum, en það ætti aldrei að muna miklu. Það væri æskilegt, að ýtarleg rannsókn fengist á því, hvað þetta atriði getur munað miklu.

En hér eru líka aðrar ástæður að verki, m. a. sú, að margir stærri bændur vinna ekki sjálfir á jörðum sínum, þar sem aðrir bændur lifa aftur á móti að mestu leyti á sínu eigin vinnuafli. Aukning framleiðslukostnaðar af þessari ástæðu — að bændur vinna ekki sjálfir að framleiðslunni — á ekki að taka til greina.

Ég vona, að allir þdm. séu mér sammála um, að hér sé um svo mikið alvörumál að ræða, að nauðsynlegt sé að rannsaka það til hlítar. Enginn skyldi ætla, að ég sé að telja eftir bændum, þó að þeir gætu fengið hækkað verð fyrir mjólk sína. Ef slík hækkun yrði til frambúðar til hagnaðar fyrir bændur, mundi ég eflaust líta öðrum augum á málið en ég geri nú. Ég skil það vel, að fulltrúar bænda líti svo á, að þeir verði að fá það verð fyrir mjólkina, sem gefi þeim mestan hagnað. En ég neita því afdráttarlaust, að ráðið til þess sé að hafa verðið á neyzlumjólkinni sem hæst. Það hefir verið reiknað út, að ef verðhækkunin á mjólkinni yrði til þess, að mjólkurneyzlan minnkaði um 5–6%, þá myndu bændur engan hagnað af því hafa. Ef neyzlan minnkaði meira, yrði um beint tap að ræða fyrir hændur. Hinsvegar er ekki reynsla fyrir því enn, hvaða áhrif verðhækkunin hefir á neyzluna, en ef neyzlan minnkar ekki mjög mikið strax vegna verðhækkunarinnar, stafar það af því, að mjólkurneyzlan hér er svo lítil fyrir, að það er erfitt fyrir bæjarbúa að spara meira við sig mjólkina en þeir gera. Neyzlan hér í Rvík nær ekki 1/2 lítra á mann á dag. Á síðastl. ári var hún rúml. 5 millj. lítra í Rvík og Hafnarfirði, en á öllu verðjöfnunarsvæðinu eru framleiddir yfir 12 millj. lítra. Ef neyzlan væri eins mikil hér í Rvík og Hafnarf. eins og í bæjum í Svíþjóð t. d., mundi hún eiga að vera um 8–9 millj. lítrar.

Nú er kreppa framundan. Ef mikil lækkun verður á öðrum framleiðsluvörum, samfara minnkandi kaupgetu, verður mjólkin svo dýr, að neyzla hennar hlýtur að minnka stórkostlega. Því er ég hræddur um, að þessi verðlagspólitík geti orðið til óbærilegs tjóns fyrir bændur. Það ríður fyrst og fremst á því að auka neyzluna, en til þess þarf samstarfið á milli neytenda og framleiðenda að vera gott, og það fæst ekki með brigðmælum eða með þeirri falskenningu, að það séu óbrúanlegar hagsmunamótsetningar á milli þessara tveggja aðilja.

Bæjarstj. Rvíkur hefir nú skipað n. til að athuga, hvernig megi auka mjólkurneyzluna í Rvík. Það hefir komið fram till. um, að allmikið af mjólk yrði gefið til atvinnuleysingja og fátækra barnaheimila, eða þá selt með hálfvirði. yrði þetta gert á kostnað bæjarins með styrk frá ríkinu, enda þyrfti þetta ekki að hafa mjög mikil aukaútgjöld fyrir bæinn í för með sér, því að það mundi létta mjög á fátækraframfærinu.

Það þarf vitaskuld að gera fleira. Það þarf að leita samstarfs við neytendur í bænum; og þá álít ég, að mjög mikið væri fengið með því, ef samstarf um þetta tækist við stærstu neytendasamtökin hér í bænum, sem er Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis, sem ég veit, að mundi veita þann styrk, sem það gæti í té látið, til þess að auka mjólkurneyzluna, ef trygging væri fyrir því, að slík aukning yrði til þess að lækka mjólkurverðið.

Á grundvelli þess, sem ég hefi hér sagt, og með því ég líka veit um afstöðu hv. þdm. til þess máls, sem þáltill. mín fjallar um, treysti ég því, að hv. þd. samþ. þessar till.