11.04.1938
Sameinað þing: 19. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

1. mál, fjárlög 1939

Jón Pálmason:

Mér þykir rétt að segja nokkur orð nú þegar við 2. umr. um afstöðu okkar sjálfstæðismanna í fjvn., þó að flest megi biða 3. umr.

Þegar það var ákveðið í lok síðasta þings, að fjvn. kæmi saman rúmum þrem vikum fyrir þetta þing, var tilætlunin, að það gæti annað hvort verkað til þess að stytta þingið eða til þess, að unnt yrði að gera sparnaðarráðstafanir, sem ekki var líklegt, að annars fengist gerðar á þessu þingi. Það, sem mér hefði þótt eðlilegast að snúa sér strax að, var að undirbúa setningu nýrra launalaga, því að eins og allir vita, eru stærstu gjaldaliðir ríkisins laun í ýmsum myndum. Þegar n. hóf starf sitt, var mikið um þetta rætt. En Famsfl. og ríkisstjórnin töldu, að ekki mundi vinnast tími til þess á þessu Alþingi að afgreiða launalög. Við Sjálfstæðismenn getum ekki gengið inn á þessa röksemd, því að fyrir fjórum árum, 1933, var sett mþn. að okkar tilhlutun til að fjalla um launamálið, og hún skilaði áliti 1934. En síðan hefir málið legið niðri og ekkert verið gert, sem verulegu máli skiptir. Þá sneri fjvn. sér að því að leita sér upplýsinga um allan ríkisreksturinn, og mér virtist gengið að því með fullum áhuga. En þegar fram á þingið kom og fór að bóla á því ósamlyndi, sem varð í kringum breytingar á stjórninni, þá hætti að ganga nokkuð, og störf n. fóru út um þúfur. Ef n. hefði ekkert starfað fyrir Alþ., þá hefði starfi hennar sennilega orðið lokið þeim mun síðar, því sennilega hefir enga breytingu gert, að því er snertir störf n., sá dauði tími, sem mér virtist vera á tímabili og orsakir lágu til, sem ykkur er sjálfsagt öllum ljósar. Annars verð ég að segja, að það hefir nokkuð oft hvarlað að okkur sjálfstæðismönnum sú hugsun, að það hefði ekki næsta mikla þýðinu að leggja sig í bleyti við að koma fram með till. um hvert smáatriði til. hækkunar eða lækkunar, þegar það hefir komið í ljós ár eftir ár, að fjárl. eru ekki virt og að á flestum liðum þeirra er borgað svo og svo mikið umfram það, sem þau gera ráð fyrir. Reynslan hefir sýnt það, svo að ég nefni síðustu árin, að t.d. árið 1935 eru umframgreiðslur á fjárl. nokkuð á þriðju millj. kr., og samkv. upplýsingum frá hæstv. fjmrh. munu umfram greiðslurnar hafa orðið eða verða eitthvað svipaðar á síðastliðnu ári. Þetta sýnir það, að í ríkisrekstrinum í ýmsum myndum er ekki farið eftir fjárl. nema að mjög takmörkuðu leyti, og þegar það kemur í ljós, að borgaðir eru tugir þús. við einstakar stofnanir um fram það, sem fjárl. ákveða í laun og rekstrarkostnað vegna vaxandi kröfufrekju þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli, þá fer það að verða dálítið vafasamt atriði, a.m.k. fyrir þá, sem enga aðstöðu hafa til að hafa áhrif á þetta, hve langt eigi að ganga í því að leggja sig í bleyti við það að gera till. í þessum efnum. Og þetta sjónarmið hefir að sjálfsögðu komið fram við starf n.

Ég skal skýra hv. þm. frá því, að það er nú svo um hverja einstaka stofnun og starfsgrein í öllum ríkisrekstrinum, að ár eftir ár fara kröfurnar vaxandi um aukin fjárframlög á þessu og þessu sviði, um hækkuð laun, meiri rekstrarkostnað o. s. frv. Þeir, sem þar stjórna, bera sig saman hver við annan um, að það séu lægri laun hlutfallslega hjá þessum einstaklingi og þessari stofnun en hjá hinum, og svo eru kröfurnar á þessu byggðar. Og þetta mun verða svo framvegis þangað til þessi mál verða tekin föstum tökum, sett ný launalög og gerð sú ófrávíkjanlega krafa, að fjárl. séu virt og að ekki sé í slíkum hlutum út fyrir þau farið.

Það er nú svo, að fyrirvari okkar sjálfstæðismanna byggist eins og undanfarin ár á því fyrst og fremst, að við erum óánægðir með þá heildarfjármálastefnu, sem hefir komið fram ekki einasta í fjárl., heldur og á ýmsum sviðum öðrum í okkar opinberu starfrækslu, og á meðan okkar flokkur hefir enga aðstöðu til að hafa áhrif á það, hvernig farið er með fjármál ríkisins á milli þinga, þá er það að sjálfsögðu ekki eðlilegt, að við getum skrifað undir nál. án ágreinings. En þó skal ég taka það skýrt fram, að það er rétt, sem frsm. n. gat um, að persónulega hefir verið hin bezta samvinna í fjvn. Þær brtt., sem við þessa umr. liggja fyrir frá n. hálfu, eru eins og. menn hafa veitt eftirtekt, aðallega tvennskonar. Annarsvegar leiðréttingar á ýmsum liðum, sem n. hefir farið í gegnum, og byggjast á breyttum aðstæðum. Að hinu leytinu eru till. n. byggðar á samræmingu á fjárveitingum til verklegra fyrirtækja í hinum einstöku kjördæmum landsins og þá fyrst og fremst til vega, hafna og lendingarbóta. Að því leyti hefir samvinna n. snúizt í þá átt að gera þarna á nokkurn jöfnuð, og hefir verið reynt að mæta óskum hinna einstöku kjördæma og þm., eftir því sem unnt hefir verið, og okkur hefir virzt, að n. hafi stofnað til nokkurs samræmis milli hinna einstöku héraða. En um þetta verður alltaf þræta, eins og gefur að skilja, þegar ekki er tekin föst ákvörðun um, að þessu skuli verja og ekki meira til þeirra framkvæmda, sem hér er um að ræða, og sóknin í fjárframlög til þessara hluta, samgöngubótanna, er eins og öllum hv. þm. er kunnugt, ákaflega mikil alstaðar að af landinu. Af hálfu okkar sjálfstæðismanna vil ég taka það skýrt fram, og það hljóta allir menn að sjá, að er eðlilegt og óhjásneiðanlegt, að á meðan haldið er áfram jafnmiklum fjárframlögum til þessara hluta, þá hljótum við að gera þá skýlausu kröfu, að það sé tekið jafnt tillit til þeirra héraða, sem við erum fulltrúar fyrir, eins og hinna héraðanna, sem þeir ráðandi menn eru fulltrúar úr. Að þessu leytinu skal ég ekki fara út í neinn meting um það, hvernig hlutskiptunum hefir verið komið fyrir, að því er þetta snertir, en af þessum rótum eru sprottnar þær till., sem n. ber fram á þessu sviði.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. talaði hér um breytingu á ríkisrekstrinum, er það að segja, að það er satt, að mjög hefir það komið til mála í fjvn., en mér og öðrum sjálfstæðismönnum hefir verið fullkomlega ljóst, að stórar breytingar eða sparnað á ríkisrekstrinum er ekki hægt að gera nema því aðeins að fækka starfsmönnunum og lækka launin, og helzt hvorttveggja. Hinir föstu liðir, svo sem húsaleiga, ljós og hiti o.s.frv., eru liðir í rekstri hinna einstöku stofnana og starfsgreina, sem ekki er auðvelt að breyta, því að það hljóta að vera liðir, sem eru fyrst og fremst áætlunarliðir. — Það er nú svo, að von er á nokkrum till. frá n., að því er snertir rekstur ríkisstofnana og starfsgreinar ríkisins, till., sem sumpart eru samþ. af n. allri og verða lagðar fram síðar, t. d. um vinnutíma hjá stofnunum og starfsgreinum ríkisins, kostnaður við ferðalög og niðurfellingu kostnaðar, sem n. telur óþarfan. Af þessum sökum geri ég ráð fyrir, að við 3. umr. þurfi að gera ýmsar leiðréttingar á tilsvarandi liðum í fjárl., að því er viðkemur þeim breytingum, sem slíkar till. hafa í för með sér, ef samþ. verða.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. n. gat um, að við sjálfstæðismenn myndum síðar á þinginu bera fram till. um niðurfellingu eða niðurlagningu öllu heldur á einni stofnun ríkisins, sem sé landssmiðjunni, þá er það rétt, að við erum ráðnir í að bera fram till. um það, og það byggist á því, að hjá þeirri stofnun er fyrirsjáanlegur stór hallarekstur, og það þegar á þessu ári. Það er líka víst, að á þessari stofnun er engin þörf sem ríkisfyrirtæki, vegna þess að það eru til í landinu fyrirtæki, sem geta annað þeim störfum, sem þarna er um að ræða. Jafnframt vil ég taka það fram án þess að fara nánar út í það mál, að það er ekki hugsanlegt að reka þessa stofnun áfram sem ríkisfyrirtæki nema með því að verja stórfé til nýrra bygginga. Annaðhvort verður því að gera, að gerbreyta þarna um og leggja þetta fyrirtæki niður, eða verja á þessu eða næstu árum miklum upphæðum til bygginga fyrir smiðjuna. — Að því er ríkisbúin snertir, Vífilsstaðabúið og Kleppsbúið, þá mun ég koma með till. um að bjóða þau út til leigu, af því að þar er um að ræða stóran halla á síðasta ári, og ekki miklar líkur til bóta, frá því sem verið hefir. Frsm. n. tók það fram, að þetta orsakaðist nokkuð af því, að mjólkurlítrinn væri reiknaður við spítalana á 28 aura, en væri seldur á 40 aura hér í Reykjavík. Þetta er náttúrlega atriði, sem að sjálfsögðu þarf athugunar við, og má alveg eins, og er eðlilegra að taka það frá öðru sjónarmiði, sem sé því, að þessi ríkisbú fá 28 aura nettó fyrir hvern lítra, en bændur á sama svæði, sem eru hér utan Reykjavíkurbæjar, fá ekki nema 23 aura fyrir sína mjólk og þurfa þar af að kosta flutning mjólkurinnar til Reykjavíkur. Þó að þessi halli sé, eru engir vextir reiknaðir af þeim höfuðstól, sem þarna er saman kominn, en það eru á annað hundrað þúsund kónur í hvoru búi. Út í þetta skal ég ekki fara nánar, en ég mun taka það betur til athugunar, þegar þær till. koma fram, sem hér um ræðir.

En það er ýmislegt fleira í sambandi við reksturinn, sem þarf að athuga, og þó að n. sjái sér ekki fært að koma með róttækar till. í því sambandi, þá er þar um svo margvíslega hluti að ræða, sem virðist þurfa breytinga við og þarf að taka öðrum tökum en gert hefir verið á síðustu árum. Ég verð t. d. að segja það, að mér þykir ákaflega óeðlilegt, að við séum að reka þrjár dýrar rannsóknarstofnanir, eina, sem heiti Rannsóknarstofa Háskólans, aðra, sem er miklu dýrari, hin nýja rannsóknarstofa atvinnuveganna, og hina þriðju rétt hjá Alþingishúsinu í Kirkjustræti. Það er nú nátturlega gott að fá sem ýtarlegastar rannsóknir á ýmsum hlutum, en að reka þrjár rándýrar stofnanir á þessu sviði, finnst mér allóeðlilegt.

Það hefir nú farið svo, að n. hefir ekki talið sér fært að koma með till. í sambandi við þessi fjárl. um róttækar breyt. á þessu sviði, enda er það mál, sem þarf ýtarlegrar rannsóknar við, áður en að slíkum breyt. er horfið.

Ég skal að þessu sinni ekki hafa þessi orð fleiri, en vænti þess, að hv. þm. geti séð af þeim fáu aths., sem ég hefi kastað hér fram, að það sé mjög skiljanlegur hlutur, að afstaða okkar sjálfstæðismanna í fjvn. hafi markazt eins og hún er. Okkar aðstaða er sem sé þannig, að við höfum ekki vald á því að ráða, hvernig með þessa hluti er farið á milli þinga, og þegar við sjáum það, að ár eftir ár er ekki nema að litlu leyti farið eftir fjárl., þar sem helzt er hægt að spara, þá virðist það vera þýðingarminna en nauðsynlegt væri, að á hverju þingi sé lögð í það mjög mikil vinna að hnitmiða hverja smáupphæð sem nákvæmlegast niður.