29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (2915)

14. mál, mjólkurverð

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það vill jafnan verða svo, að þegar ég ætla að taka til máls, þá sé tíminn skammtaður. Ég hafði t. d. búizt við að fá óbundinn ræðutíma núna, en þá segir forseti, að ég megi ekki tala nema allt að 10 mín. Það, sem ég vil þá fyrst og fremst taka fram, er það, að ég er að ýmsu leyti ekki sammála hv. 1. þm. N.-M. í þessu mjólkursölumáli, enda þótt ég gæfi út sameiginlegt nál. með honum. Og hitt undrast ég stórlega, hve harðorður hann er jafnan í garð Reykjavíkur og Reykvíkinga, þegar hann talar um þessi mál. Þó er það vitanlegt, að hingað hefir hann sótt mestan sinn þrifnað og virðist una hag sínum hið bezta á meðal Reykvíkinga. Um það er ég að sjálfsögðu sammála hv. þm., að bæta þurfi mjólkina og auka markaðinn fyrir hana. svo að neytendur fái betri vöru og framleiðendur hærra verð. Þetta voru höfuðatriðin, sem fyrir mér vöktu. er ég skrifaði undir nál. með honum.

Hv. 11. landsk. kastaði til mín nokkrum orðum, sem ég tók ekki neitt alvarlega, taldi þau ekki sögð í neinni rætni, eins og hann hefir nú líka tekið fram sjálfur. Ég fyrirgef honum að sjálfsögðu, þó að nokkurs viðvaningsháttar kenni í ræðumennsku hans, þar sem hann er svo að segja alveg nýsetztur á þingbekkina.

Hv. 3. landsk. var að tala um, að það gegndi allt öðru máli um skipti þau, sem ég gerði á framboði mínu síðastl. vor, en breyt. þá, sem annar maður, sem nefndur var, gerði á framboði sínu. En á þessum breytingum á framboðum okkar er ekki eins mikill eðlismunur og menn ætla, þegar hvorttveggja er gert af fúsum vilja eftir ósk flokkanna, eins og var í þessum tilfellum í vor, a. m. k. hvað mig snertir. Annars er það ekki ætlun mín að fara að deila um þessa kosningu hér, en ég er orðinn sárleiður á þessu sífellda jórtri um það, að ég hafi skipt um kjördæmi nauðugur. Þeir, sem alltaf eru að tönnlast á þessu, skilja ekki, að maður geti gert neitt fyrir flokksmenn sína, er ekki horfir manni sjálfum til hagnaðar, nema vera rekinn til þess með hnútasvipum.