22.04.1938
Sameinað þing: 22. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 194 í D-deild Alþingistíðinda. (2931)

45. mál, kreppu- og stríðsráðstafanir

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég get upplýst í sambandi við þessa till., að ég hefi fyrir löngu hafið máls á því innan ríkisstj. og eins í utanríkismálan., að rétt væri, að stj. fengi sér til aðstoðar menn til að rannsaka, hvað hægt sé að gera til að búa þjóðina undir ófrið. Málið hefir, samkv. minni ósk, verið tvisvar til umr. í utanríkismálan. Hinsvegar hefir þessum umr. ekki verið lokið.

Mín skoðun er, að sú n., sem fengin yrðu þessi mál til meðferðar, ætti að vera skipuð stjórnmálamönnum og fulltrúum frá fjármála- og viðskiptafyrirtækjum. Ég geri ráð fyrir, að innan skamms verði vitanlegt, að hvaða niðurstöðu utanríkismálan. kemst um þetta. En ég sé ekki, að við þurfi þingheimild til þess að stj. geti sett á fót slíka n. Annars eru menn vitanlega sjálfráðir um það, hvernig þeir snúast við þessari þáltill.