11.05.1938
Sameinað þing: 30. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (2940)

130. mál, fullveldisminning

*Flm (Thor Thors):

Enda þótt það sé nokkuð óvanalegt að þakka, þegar máli er vísað til stj., held ég, að það sé óhætt í þetta sinn að þakka hv. þm. S.-Þ. fyrir undirtektir hans við það, sem er aðalatriðið í þessu máli: að ríkisstj. hlutist til um, að þessarar miklu hátíðar þjóðarinnar verði minnzt svo, að til sóma verði. Mér var það ljóst, að búið var að ganga frá fjárl. Till. hefir legið hér nokkuð lengi og ekki komizt að, en hinsvegar er það á valdi ríkisstj. að verja nokkru fé til þessa máls, þar sem alltaf er gert ráð fyrir óvissum útgjöldum úr ríkissjóði á ári hverju, enda veit ég, að enginn af flokkum þingsins mundi telja það eftir.

En þar sem hér er aðeins um fyrri umr. að ræða og stendur til að slíta þingi á morgun, sé ég það fyrir, að málið muni daga uppi, ef ekki verður snúið inn á þá braut, sem hv. þm. S.-Þ. benti á. Get ég því fallizt á þá lausn málsins vegna þeirra ummæla, sem hv. þm. hafði um till. Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. láti á sjá, að hún sé fús til að stofna til framkvæmda í sambandi við þetta mál, og þá auðvitað í samráði við utanríkismálan.