01.03.1938
Neðri deild: 11. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 202 í D-deild Alþingistíðinda. (2951)

17. mál, síldarverð

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Það ætti í sjálfu sér að vera óþarfi að samþ. þessa þáltill. á þskj. 17. Að sjálfsögðu ætti að mega telja það alveg víst, að Landsbankinn muni veita síldarverksmiðjum ríkisins alla þá aðstoð, sem á hverjum tíma er þeim nauðsynleg.

Ég get samt fallizt á það vegna ummæla, sem fallið hafa frá ýmsum bankaráðsmönnum, bæði hér á Alþingi og í þrálátum blaðaskrifum um málið, að rétt sé að samþ. till. Ég get verið sammála hv. fyrra flm. um það, að allar horfur bendi nú á nauðsyn þess, að greitt verði fast verð fyrir síldina.

Ég vil skjóta því til hv. flm., hvort ekki þurfi að breyta orðalagi till. Í lögunum um síldarverksmiðjur frá síðasta þingi er svo til orða tekið, að við afhending síldarinnar skuli yfirleitt ekki greiða meira en 85% af áætluðu verði og afganginn eftir reikningslok, en þó skuli verksmiðjunum vera leyfilegt að kaupa síld föstu verði. Ég ætla, að samkv. lögunum sé ekki nema um þetta tvennt að ræða; í stað 85% áætlunarverðs er ekki hægt að tala um útborgun á 100% áætlunarverðs, eða fullt áætlunarverð. Þá þyrfti að orða niðurlag till. á þá leið, að stjórn síldarverksmiðjanna skuli gert það fjárhagslega kleift að kaupa síldina föstu verði.

Ég sé ekki beina nauðsyn til þess, að málið fari til n. en skýt aðeins þessari aths. um breyt. til hv. flm. Ég get mælt með því, að till. verði samþ.