01.03.1938
Neðri deild: 11. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í D-deild Alþingistíðinda. (2954)

17. mál, síldarverð

Skúli Guðmundsson:

Ég verð að segja það, að mér kom þessi till. strax mjög einkennilega fyrir sjónir. Lögin, sem nú gilda, voru samþ. hér fyrir rúmum tveimur mánuðum síðan. En þarna bera tveir hv. þm. fram till. til þál. um að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að lögin séu brotin nú þegar á þessu ári. Eins og hv. 8. landsk. tók fram, eru bein fyrirmæli um það í l., að þegar síldin er tekin af framleiðendum í vinnslu og umboðssölu, þá á ekki að borga út yfir 85% af áætlunarverði. Það er engin heimild fyrir því í l. að borga út fullt áætlunarverð. Og ég skil ekki, að lögunum verði breytt með þál. Að vísu hefir hv. fyrri flm. till. — eftir bendingu frá hæstv. atvmrh. — gefið til kynna, að hann myndi taka til athugunar þetta atriði og e. t. v. breyta till. samkv. því.

Þá hefir komið fram till. um að vísa málinu til nefndar. Ég álít réttustu meðferð á till. þessari vera þá, að fella hana nú þegar eða vísa henni frá.

Mér er ekki ljóst eftir till., hver hugmynd hv. flm. er um það, hver eigi að bera hallann, sem verða kynni á rekstri verksmiðjanna, ef farið yrði eftir þessari till. um útborgun á verði fyrir innlagða síld. Þegar talað er um áætlunarverð, mun það venjulega skilið svo, að búast megi við, að menn fái uppbót á því eða frádrátt síðar. Ég veit ekki, hvað það er, sem þeir kalla fullt áætlunarverð, og hvernig á að finna það áður en búið er að selja framleiðsluna og gera upp reikninga verksmiðjanna. Ég geri ráð fyrir, að ef greitt er áætlunarverð fyrir síldina, þá sé miðað við það, að sjómenn og útgerðarmenn fái uppbót á því síðar, ef salan gengur vel, og ef greiða á þetta sem þeir kalla fullt áætlunarverð, þá verði að heimta aftur hluta af því af sjómönnum og útgerðarmönnum, ef verksmiðjurnar reynast ekki færar um að greiða það. Það er gott og nauðsynlegt, ef þess er kostur, að tryggja framleiðendum sem hæst verð fyrir sína vöru, en ég vil benda á, að ef á sérstaklega að tryggja framleiðendum síldar hátt verð fyrir sína vöru, þá er ekki síður þörf á að hugsa um aðra framleiðendur. Það er svo um bændur, að þeir eru flestir í samvinnufélögum, sem annast sölu afurða þeirra. Venjulegast, fyrirkomulagið á þeirri sölu mun vera það, að bændum er að nokkru leyti greitt áætlunarverð fyrirfram fyrir vörur sínar, og síður fá þeir uppbót eða verða að greiða til baka af því verði, eftir því hvernig salan gengur. Þetta álít ég, að sé eðlilegasta verzlunaraðferð með íslenzkar vörur, hvort sem það eru afurðir landbúnaðarins eða framleiðsla útvegsmanna og sjómanna.

Ef hæstv. Alþingi ætlar að samþ. áskorun til ríkisstj. um að hlutast til um við bankaráð Landsbankans að sjá um, að greitt verði sérstaklega hátt verð til síldarframleiðenda, meira en útlit er fyrir, að rekstur síldarverksmiðjanna geti borið á hverjum tíma, þá ætti einnig að krefjast aðstoðar ríkisvaldsins til að greiða öðrum framleiðendum í þessu landi ákveðið verð fyrir sína framleiðslu án tillits til niðurstöðunnar þegar reikningar eru gerðir upp.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að svo stöddu, en ég mun greiða atkv. á móti því, að þingið eyði meiri tíma í meðferð þessarar þáltill., þar sem ég tel eðlilegast, að með þetta mál sé farið eftir þeim l., sem samþ. voru á Alþ. í síðastl. desembermánuði.