22.03.1938
Neðri deild: 31. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í D-deild Alþingistíðinda. (2961)

67. mál, gjaldeyri handa innlendri iðju

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti! Hv. 5. landsk. þm. og ég höfum flutt hér till. til þál. út af því ástandi, sem nú ríkir í gjaldeyrismálum, sérstaklega viðvíkjandi innlendum iðnaði, og þá fyrst og fremst verksmiðjuiðnaði. Það horfir svo við í fjölmörgum verksmiðjum hér í Reykjavík, að það vofir yfir að fækka verði starfsfólki allmikið og jafnvel stöðva alla framleiðslu um tíma, af því að viðkomandi verksmiðjur fá ekki nægjanlegt hráefni inn í landið. Nú er það vitanlegt, og þarf ekki að skýra það fyrir hv. þdm., hvernig stuðlað hefir verið að því undanfarið að auka framleiðsluna á ýmsri vöru innanlands, sem áður var keypt tilbúin erlendis frá, hvernig byggður hefir verið upp nýr atvinnuvegur, sem hundruð eða jafnvel þús. manna hafa lífsviðurværi sitt af. Hinsvegar er það vitanlegt, að þessi iðnaður byggist aðallega á því, að geta fengið hráefni erlendis frá til þess að vinna úr. En á sama tíma og verið er að takmarka hráefnainnflutninginn, er erlendri iðnvöru hleypt óhindrað inn í landið. Það er þó vitanlega ekki gert eins mikið af þessu og áður, en ef maður athugar ástandið í Reykjavík, þá er yfirdrifið af samskonar iðnaðarvöru í búðunum og verið er að framleiða hér. Þetta er óviðunandi. Svo framarlega sem verður að takmarka innflutning, verður að gera það á þeirri vöru. sem unnin er erlendis, en tryggja gjaldeyrisleyfi fyrir erlend hráefni banda innlenda iðnaðinum. Nú kunna sumir að ætla, að svo framarlega sem erlenda iðnaðarvaran væri svo að segja bönnuð, mundi sú innlenda hækka í verði. Það er rétt, að það þarf að setja skorður við því. Það væri hugsanlegt, að ef hinir innlendu iðjuhöldar fengju nokkurskonar einokun á markaðinum, myndu þeir nota tækifærið til þess að hækka vöruverðið.

Nú voru samþ. á síðasta þingi l. um verðlag á vörum, þar sem stj. er veitt heimild til þess að setja hámarksverð á vörur. Ég álít sjálfsagt, þegar slík hætta er fyrir dyrum og hér um ræðir, að stj. noti sér þessa heimild og hafi betra eftirlit en verið hefir með verðlagi á íslenzkri iðnaðarvöru og setji hámarksverð, þegar hætta er á óeðlilegri hækkun.

Ég býst við, að þetta mál þurfi mjög bráðrar úrlausnar við. Eftir því, sem ég hefi komizt næst. vofir yfir að fækka starfsfólki við iðnaðinn í Reykjavík í næsta mánuði. Vildi ég mælast til þess, að vel yrði tekið undir þetta í d. Og til þess að hægt sé að ganga úr skugga um, hvort þetta er rétt, vildi ég fara þess á leit, að þessari þáltill. yrði vísað til iðnn., í trausti þess, að hún athugi þetta fljótt og vel, og á meðan væri þessari einu umr. frestað.