03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (298)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Emil Jónsson:

Mér þótti vænt um að heyra, að hv. þm. G.-K. leit þannig á þessi lög og lögin um fiskimálanefnd um leið, að mín brtt. mundi jafnvel vera óþörf, því að það er ekkert annað, sem fyrir mér vakir, en að það komi skýrt fram, að þessi útgerðarfélög bæjar- og sveitarfélaga séu jafnrétthá eins og önnur í þessu efni, því að með góðum vilja má, eins og mér virtist koma fram hjá hv. þm. G.-K., lesa þetta út úr l., en ef það er lesið á annan hátt, virðist mér mega komast að annari niðurstöðu. Ef það reynist svo, að hv. þdm., bæði þessi hv. þm. og sérstaklega hæstv. atvmrh. og ríkisstj., vilja láta í ljós þann sama skilning á l. um fiskimálanefnd eins og kom fram hjá hv. þm. G.-K., þá er ég ánægður og skal draga mína brtt. til baka.

Þessi sami hv. þm. spurði, hvers vegna ég kæmi fram með þetta, og skal ég upplýsa það. Ég spurðist fyrir um það í fiskimálanefnd, hvernig hún mundi líta á þetta mál, og hún treysti sér ekki eftir orðanna hljóðan í l. til þess að leg2ja þennan skilning í þau. Ég spurði fiskimálanefnd þá að því, hvort hún teldi, að komið gæti til mála, að útgerðarfyrirtæki bæjar- og sveitarfélaga „principielt“ gætu komið til greina í þessu sambandi, en 5 af 7 mönnum töldu það ekki. Hinir 2 töldu það geta átt sér stað. Skoðanir voru mjög skiptar í n. En ef ég fæ þessa skoðun staðfesta hjá hv. þm., sérstaklega hæstv. atvmrh., þá er ég mjög fús til að taka till. aftur, eins og ég sagði áðan.

Hv. 2. þm. Reykv. taldi, að með þessari brtt. minni væri mjög sveigt inn á sömu braut eins og gert væri í frv., sem ég og aðrir bárum fram um útgerð ríkis og bæja, en þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt, og eiginlega alls ekki sambærilegt, því að í þessa útgerð og rekstur hennar er ríkissjóði ekki blandað. Hann leggur fram sitt stofnfjárframlag eins og aðrir. Munurinn á þessu ákvæði í 2. gr. frv. og brtt. mínni er aðeins sá, að samkv. henni mundi þetta stofnfjárframlag ríkissjóðs lenda hjá bæjar- eða sveitarfélögum, sem útgerð reka, en ekki hjá einstaklingum eða félögum þeirra verkamanna og sjómanna, sem að útgerðinni vinna. Ég hefi áður lýst, hversu lítill munur er á þessu, og tel ekki þörf á að endurtaka það. Í báðum tilfellunum er það svo, að það eru í raun og veru verkamenn og sjómenn, sem að þessu standa.

Þessi hv. þm. skildi l. svo, að það væri ófrávíkjanlegt skilyrði, að verkamenn og sjómenn, sem á þessum væntanlegu skipum ynnu, yrðu aðalþátttakendur í fyrirtækinu. Á þessu getur maður séð, hversu skoðanir hv. þdm. eru skiptar í þessu máli, þar sem hv. þm. G.-K. taldi sig geta fundið það gagnstæða út úr lögunum.

Við hv. 1. þm. Rang. þarf ég lítið að segja. Mér kom mjög á óvart, hvaða skoðun hann hafði um þetta mál. Hann taldi frá sínu sjónarmiði ekki koma til greina í þessu sambandi, að bæjarútgerð yrði þessara hlunninda aðnjótandi. Ég á ómögulegt með að skilja þessa afstöðu, sérstaklega frá hans sjónarmiði, enda færði hann ekki mikil rök fyrir henni, og vænti ég þess, að hann skýri þetta betur, ef hann tekur aftur til máls.

Ég get ekki stillt mig um að minnast ofboð lítið á ræðu hv. 9. landsk. viðvíkjandi Suðurlandsbraut, sem er góður kunningi okkar beggja og við höfum áður deilt um. Nú er hann kominn það lengra heldur en fyrir 1–2 árum síðan, að hann telur þetta í berhöggi við veruleikann. Ég veit ekki, hvað hv. þm. leggur í þessi orð, en ég held, að það sé þó það minnsta, sem segja megi nú, að þetta sé að verða að veruleika, og það er töluvert atriði í málinu, þó að hann telji það jafnvel til bóta, að hætt verði við þetta verk, þegar búið er að leggja 10–20 km. af leiðinni.

Ég er þvert á móti á sömu skoðun og ég hefi áður verið um það, að þessi leið eigi fullan rétt á sér og að það beri umfram allt að halda henni áfram, því að hún er bezta og öruggasta leiðin, sem fáanleg er milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur. Ég hefi áður fært rök að því hér, og þarf ekki að gera það aftur. Þó að hún sé nokkrum km. lengri, þá býst ég við, að það sé miklu minni ókostur heldur en hitt er mikill kostur, hversu snjólétt hún er, þar sem hún er um 200 m. lægri yfir sjó heldur en hin og miklu auðveldari til flutninga, því að það er ekki lengdin ein, sem gerir útslagið í þessu efni, heldur er ýmislegt fleira, sem hér kemur til greina.

Ég fagna því, að þetta mál er að verða að veruleika, og vænti þess, að það verði komið enn lengra áleiðis á næstu árum, en að það sé í berhöggi við veruleikann, tel ég alveg fráleitt.