10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2985)

10. mál, Stórhöfðaviti í Vestmannaeyjum

*Emil Jónsson:

Ég get sagt eins og hv. flm. þessarar till., að ég skal ekki hafa mörg orð um hana, þar sem henni mun verða vísað til n. og athuguð þar, og get ég þá gefið n. þær upplýsingar, sem hún kynni að óska. En út af orðum hv. flm. um það, að allar framkvæmdir í þessu máli hefðu dregizt úr hömlu, langar mig til þess að gefa nokkrar upplýsingar.

Það er rétt, að undan því hefir verið kvartað, að ljósmagn vitans væri lítið. Það er líka rétt, að á þinginu 1934 var samþ. þáltill. um að bæta úr þessu á einhvern hátt. En orsakirnar til þess, að ljósmagn vitans hefir reynzt svona lítið, er sennilega ekki að finna í því, sem er aðalefni þessarar till., sem sé að sjálft ljósmagn vitans sé of lítið, heldur mun það stafa af öðrum orsökum.

Þegar ég tók við vitamálastjórastarfinu fyrir tæpu ári síðan, þá lá þetta mál þar óafgreitt. Eitt af mínum fyrstu verkum var að athuga þetta mál. Ég fór um sumarið 1937 til Vestmannaeyja og skoðaði vitann, og komst að raun um, að það eru tvö önnur atriði, sem geta valdið miklu um það, hvað illa vitinn sést. Annað er það, að vitinn liggur ákaflega hátt, nærri 30 m. yfir sjó, en það er alkunnugt hér á landi og annarsstaðar, að þeir vitar, sem standa hátt, lýsa langtum verr heldur en þeir, sem standa lágt. En við þessu er ekkert að gera, því meðan vitinn stendur þarna, verður hann að lýsa í þeirri hæð, og þar um verður engu þokað. Hitt atriðið, sem ef til vill er öllu þýðingarmeira, er það, að vitinn er leifturviti og hann leiftrar með svo snöggum leiftrum, að það mun vera fyrir neðan það, sem talið er forsvaranlegt, að vitar geri, til þess að ljósið af þeim sjáist langt í burtu. Það er 1/5 úr sekúndu, sem leiftrið stendur, og það er miklu minna en á nokkrum öðrum vita hér á landi.

Það er ekki talið forsvaranlegt, að leifturtíminn sé minni en 1/3 úr sekúndu. Það verður því að gera ráðstafanir til þess, að athugað verði, hvort ekki sé hægt að bæta skin vitans með því að lengja leifturtímann. Strax eftir að ég kom frá Vestmannaeyjum, skrifaði ég til vitamálaskrifstofunnar dönsku, því hér eru engar teikningar af vitanum, þar sem hann var byggður áður en vitamálaskrifstofan hér var stofnuð, og varð að fá teikningar þaðan, síðan skrifaði ég firmanu, sem byggði vitann, um þær breytingar, sem ég gerði tillögur um. Þeir hlutir, sem þar um ræðir, hafa verið smíðaðir, og eru þeir fyrir nokkru komnir til landsins og verða settir upp við fyrsta tækifæri. Þeir munu verða sendir til Eyja með fyrstu ferð. Ég vildi gera tilraunir með það, hvort ekki væri á þennan einfalda og ódýra hátt hægt að gera vitann skýrari og sýnilegri en hann er nú.

Ég veit, að ef Urðaviti sést betur en Stórhöfðavitinn, þá hlýtur að vera eitthvað annað bogið við hann en ljósmagnið, þar sem ljósmagn Urðavita er nærri því 3 sinnum minna en ljósmagn Stórhöfðavitans. Þetta gefur tilefni til að halda, að aðrar ástæður en ljósmagnið komi þar til greina, og er ástæða til að leiðrétta það áður en frekari ráðstafanir eru gerðar.

Þessu máli mun verða vísað til fjvn., eins og hv. þm. gerði till. um. Ég geri ráð fyrir, að innan skamms fáist úr því skorið, hvort þessi tilraun, sem verið er að gera, beri árangur eða ekki, svo að ég geti lagt árangurinn af þessari tilraun fyrir n. áður en mjög langt líður, ef til vill eftir viku eða hálfan mánuð. Ég vil þess vegna leggja til, að málinu verði um sinn frestað, eða þangað til niðurstaðan af þessari tilraun getur legið fyrir. Sjálfur vitinn er að því leyti góður, að hann hefir mjög sterka ljósakrónu, á borð við þær beztu, sem hér eru notaðar. Hún er að vísu gömul, en það breytir engu, enda er hún sömu tegundar og ljósakrónan á Garðskagavitanum, sem talinn er að lýsa með afbrigðum vel. Ef um einhverjar ráðstafanir verður að ræða til þess að auka ljósmagnið, þá býst ég við, að það verði með því móti að auka ljósgjafann, annaðhvort með því að breyta olíunni í gasinu eða sjálfu rafmagninn. Það kemur til álita, ef þessi tilraun ber ekki hagstæðan árangur.