03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Ólafur Thors:

Ég lét þá skoðun í ljós áðan, að ég teldi, að það mætti leggja þann skilning í lögin eins og þau eru óbreytt, að félög eins og þau, sem till. hv. 7. landsk. fjallar um, gætu fallið undir þau, og þetta er enn óbreytt skoðun mín, þegar miðað er við orðalag laganna, en ég verð að viðurkenna, að eftir að ég heyrði rök hv. 2. þm. Reykv. finnst mér sennilegt, að tilgangur löggjafans hafi verið sá, að slík félög féllu ekki undir lögin. Það er þess vegna mjög líklegt, að það sé rétt ályktað hjá fiskimálanefnd, þegar hún telur sér í rauninni ekki heimilt að taka slík félög til greina sem styrkþega samkv. lögum, þó að orðalagið sé þannig, eftir því sem ég hefi bezt vit á, að það gefi beint tilefni til að álykta annað. Það er því að sjálfsögðu rétt, að ef það á að vera kleift að taka slík félög inn sem styrkþega, þá verður að samþ. þessa till., og ef hún verður ekki samþ., þá er það af því, að þingið ætlast ekki til, að slík félög komi til greina.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, því að ég vil ekki, að þau orð, sem ég áðan sagði, yrðu til þess, að annar skilningur væri lagður í þetta ákvæði af minni hendi.