10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (2990)

26. mál, bátasmíðastöð á Svalbarðseyri

*Flm. (Jónas Jónsson):

Ég hefi rökstutt þessa till. svo í grg., að ég get verið stuttorður um hana. Tilgangur till. er, að hún verði send fjvn. til athugunar og þaðan send ríkisstj., sem þá mundi styðja að viðleitni til að ráða fram úr þeim erfiðleikum, sem eru nú með bátasmíðar hér á landi. Til þeirra hefir aldrei verið lagður fram neinn stuðningur frá þingi eða ríkisstj. Ég get látið mér nægja að benda á það, að hér er fyrir hendi allmikil kunnátta á bátagerð, og vinnukraftur er til, bæði mikill og allgóður, en það eru aðallega stærri kaupstaðirnir, sem þessi vinna hefir verið unnin í, og þar er framleiðslan svo dýr, að ekki verður risið undir henni. Þess er skemmst að minnast, að björgunarskútan „Sæbjörg“ fékkst ekki smíðuð hér á landi, eingöngu af því, að það reyndist of dýrt. Þessi reynsla er ekki ný í bátagerð hér á landi, og sama er að segja um sumar aðrar vörur, sem verið er að reyna að framleiða hér. Má t. d. nefna húsgögn, sem eru svo miklu dýrari hér í Reykjavík, vegna dýrtíðarinnar, en í næstu löndum, að efnaminna fólk hér í bænum og nærsveitum kaupir ekki það af húsgögnum, sem það þarf, vegna þess að það hefir ekki efni á því.

Það væri út af fyrir sig ágætt fyrir smiðina á þessum dýru stöðum, að þeir gætu haldið áfram að smíða báta og fengið svo miklu meira verð fyrir þá en sem svarar því, sem menn fá erlendis fyrir sömu vinnu, en það er ekki gert, bátasmíði verður svo lítil í dýrustu stöðunum, að mönnum verður að því lítil atvinna, og vöntun verður á bátum, því svo eru margir menn, sem vilja stunda sjó og verða að lifa af því, að fjölda þeirra vantar báta og þeir verða bjargþrota, ef ekki er úr því bætt. Verði ekkert gert til að létta undir með að smíða góða, ódýra báta hér á landi, þá er það sama og að auka atvinnuleysið við sjóinn. T. d. vantar bæði Akranes og Keflavík báta.

Ég get ímyndað mér, að ýmsir segi, að það sé aukaatriði, hvar smíðin er framkvæmd, og að þótt of dýrt sé að smíða bátana í Reykjavík og Hafnarfirði, þá séu ýmsir aðrir kaupstaðir og aðrir staðir, sem gætu smíðað báta og þyrfti því ekki að binda það við stað þann, sem hér er nefndur. Ég skal taka það fram, að ég nefndi ekki þennan stað af því, að hann er í mínu kjördæmi, heldur af því, að ég hygg, að þessi staður sé bezt til þess fallinn. Ég skal einnig taka það fram, að það er aukaatriði fyrir mér, hvar þetta er gert, aðeins ef byrjað er af fullum krafti að smíða báta, þar sem skilyrði eru góð.

Nú vita menn, að verið er að smíða 3 stóra vélbáta á Fáskrúðsfirði, og hefir fengizt til þess styrkur frá ríkinu, og víðar á landinu gera menn sitt ýtrasta til að smíða báta fyrir sjálfa sig, en sú framleiðsla er svo lítil og óskipulögð og hvergi gert neitt sérstakt til að efla bátasmíði. Jafnvel það, að afnema tolla af efni til báta, hefir ekki verið gert, en það nær engri átt að tolla efni í báta, sem smíðaðir eru hér á landi, en bátar, sem smíðaðir eru í útlöndum, eru næstum því tolllausir. Þetta er auðvitað ekki viljandi gert, heldur er það yfirsjón í tollalöggjöfinni, sem menn vilja laga, en ekki er búið að breyta.

Ég geri ráð fyrir, að menn sjái, hverjar ástæður liggja til þess, að smiða þarf meira af bátum. Menn deila e. t. v. frekar um, hvar eigi að gera það, en það læt ég liggja milli hluta að sinni; það er aukaatriði. En þriðja atriði er þýðingarmikið; það er, hvernig bezt verður stuðlað að því, að sjómenn kaupi þá báta, sem þeir þurfa. Á því ríður mest. Ég vil benda á, að núv. fjmrh. hefir beitt sér fyrir því fyrir nokkrum árum, að reynt væri í sambandi við hlutaútgerð eða samvinnuútgerð að koma því þannig fyrir, að sjóveð væru sem mest látin hverfa, svo að bátarnir yrðu betur veðhæfir í fiskveiðasjóði og þannig yrði hægt að koma þeim framhjá þeirri hættu, sem nú er svo algeng, að bátarnir eru svo lítið veðhæfir, að erfitt er fyrir þá að eignast báta, sem ekki hafa yfir öðru fjármagni að ráða en því, sem stendur í bátunum.

Kostnaður við bátabyggingastöð er mjög lítill. Í Vestmanaaeyjum hafa menn gegnum aldir notað hellisskúta einn stóran, sem kallaður er Skipahellir og liggur þar í skjóli undir hömrum, til að byggja báta sína í. Hjá okkur er víðast hvar farið eins að og erlendis, að bátar eru smíðaðir úti undir berum himni, en það er aðeins hægt á sumrin. Ég geri ráð fyrir, að ef hægt væri að koma af stað einu slíku fyrirtæki allstóru, þá yrði að byggja nokkuð stóran bárujárnsskúr fyrir töluvert af vinnunni að vetrinum til, svo að hægt væri að smíða undir þaki og vinna hvernig sem veður væri. Það er aðalstofnkostnaðurinn, þar eð áhöld eru tiltölulega lítil og aðeins þarf lítinn mótor til að hreyfa nauðsynlegar vélar til að saga efnið. Annars er unnið mest með handverkfærum. Þarf því ekki að flytja annað af dýrum efnum inn í landið en það, sem fer til að byggja skýli fyrir vinnustað.

Að lokinni þessari umr. vil ég leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til hv. fjvn. og að við síðari umr. kæmu menn fram með þá viðauka og breytingar, sem þeir óska að gera.