10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2991)

26. mál, bátasmíðastöð á Svalbarðseyri

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Í einu stjórnarblaðinu var talað um, að þessi till. til þál. hefði vakið einna mesta athygli af þeim þingmálum, sem fram hefðu komið. Ég hafði nú satt að segja ekki veitt því athygli og verð því að efast um, að það hafi vakið svo feikilega athygli, nema það skyldi vera af því að það er borið fram af hv. þm. S.-Þ.

En þegar litið er á grg. og það, sem fram hefir komið í framsöguræðu hv. þm., þá kemur ýmislegt fram, sem vekur umhugsun; sérstaklega er það tvennt, sem vakti athygli mína. Fyrst og fremst sú leið, sem hér á að fara til að bæta úr þeim skorti, sem nú er á bátum, sem er sú, að bankarnir, ríkisvaldið og kaupstaðir eða kauptún byggi eina sameiginlega skipasmiðastöð fyrir allt landið. Ég er eindregið andstæður slíkum ríkisrekstri og álít, að það skerði þá vinnu, sem fyrir er, og hefti athafnafrelsi manna þeirra, sem unnið hafa að þessari starfsgrein.

Annað atriðið er það, hvernig hv. flm. hefir dottið í hug að fara með þetta fyrirtæki út á Svalbarðseyri, þar sem bókstaflega ekkert er til nema undirlendisræma og fáein hús. Hann sagði, að sér væri það ekkert kappsmál, að stöðin yrði höfð þarna, þótt staðurinn væri í hans kjördæmi. Mér datt í hug sú samlíking, að þetta væri eins og að byggja kirkju á öræfatind. Svo ætlar hv. þm. að telja mér og öðrum trú um, að það þurfi ekki annað en að byggja einn skúr yfir vinnuna til að koma upp skipasmiðastöð og aðeins algengustu áhöld þurfi til smíðanna, eins og hefil og öxi. Ég verð að segja, að mér virðist hv. þm. álíta oss hér á hv. Alþ. allauðtrúa, að segja, að ekkert annað þurfi til að koma upp stórri skipasmíðastöð. Ég hélt þó, að nauðsynlegt væri a. m. k. að hafa gott vélaverkstæði.

Svo er ekki einu sinni fólk þarna til að vinna að þessu. Ég þekki vel til á Svalbarðseyri, og ég veit ekki til þess, að þar sé einn einasti smiður, enginn járnsmiður og ekkert vélaverkstæði, en þetta allt held ég, að sé fyrsta skilyrðið fyrir því, að skipasmiði geti þrifizt.

Hv. þm. sagði, að nóg húsrúm mundi vera fyrir starfsmennina. Sennilega stendur um helmingur auður af stórhýsi Þorsteins M. Jónssonar á Svalbarði, og sennilega mundi það fást fyrir lága leigu; sömuleiðis mun eitthvað standa autt af skúrum niðri á eyrinni. En það er ekki aðalatriðið að finna húsnæði handa þessu fólki, heldur það, að fara að flytja þangað fólk úr öðrum stöðum. Og stofnkostnaður myndi áreiðanlega ekki verða mjög lítill, þar sem þarna vantar allt til alls nema jarðnæði, en það er líka til annarsstaðar.

Þegar það er svo athugað, að einhver bezta skipasmíðastöð landsins er á Akureyri, aðeins hálftíma siglingu frá Svalbarðseyri, verður þetta aleinkennilegt. Á Akureyri var t. d. varðskipið Óðinn smíðað, eitthvert stærsta skip, sem smíðað hefir verið hér á landi, og sem skipaskoðunarmennirnir, fulltrúar ríkisvaldsins, gáfu beztu meðmæli. Hví á að flytja skipasmíðastöðina til Svalbarðseyrar, þegar hægt er að byggja á Akureyri fullkomnustu skip, sem byggð hafa verið hér á landi? Þar eru ágæt vélaverkstæði, nokkuð fullkominn slippur og fullkomið val af smiðum til skipasmíða. Á Akureyri vantar ekkert til að koma upp fullkominni skipasmíðastöð. Hvers vegna á þá að hlaupa burt þaðan, sem verðmætin eru þegar til? Mér virðist þetta eitthvað svipuð stefna þeirri, sem nú er uppi í jarðræktarmálum hér, að hlaupa af gömlu jörðunum með margra alda jarðrækt. Þetta vil ég benda hv. Alþ. á. Fyrsta atriðið er auðvitað, hvernig staðurinn er valinn, og þar á eftir kemur, hvort menn vilja ganga inn á grundvallarreglu þá, sem kemur fram í till.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vil benda hv. þm. á, að það eru ekki réttar forsendur, að ekki þurfi annað en einn skúr og handverkfæri til að geta byggt skip á Svalbarðseyri.