10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (2992)

26. mál, bátasmíðastöð á Svalbarðseyri

*Flm. (Jónas Jónsson):

Mig undrar, að hv. þm. Ak. skuli ekki gleðjast yfir þeim stuðningi, sem af því yrði fyrir hans kjördæmi og hans hv. kjósendur, ef þessi till. mín kæmist í framkvæmd. En ég hygg, að það sé einmitt ofurást á kjósendunum, sem kemur honum til að taka þessu máli með nokkrum stirðleika. Það er einkennilegt, að hv. þm. skuli ekki hafa áttað sig á því, að þótt Akureyri sé prýðilegur bær, hvað ég er honum samdóma um, þá er hann orðinn nokkuð dýr bær. Að vísu ekki eins dýr og Reykjavík, en þó er ekki orðinn ýkjamikill munur þar á. Nú veit hv. þm., að það, sem bar á milli með það, hvar ætti að smíða Óðin, á Akureyri eða í Reykjavík, var mismunurinn á dýrtíðinni. Hér eru nógir og góðir smiðir og slippur. Það var ekki það, sem var til fyrirstöðu með Reykjavík, heldur aðeins það, að dýrtíðin er meiri hér. Nú er Akureyri á góðri leið með að verða eins dýr bær og Reykjavík. Ég vil benda hv. þm. á atriði, sem honum er vafalaust kunnugt og sem ég hefi fengið upplýsingar um frá flokksbróður hans, sem kunnugur er framfærslumálunum, að á Akureyri er eitt þúsund manns á sveitarframfæri; m. ö. o., 4.–5. hver maður þar getur ekki unnið fyrir sér sjálfur. Fyrir okkur, sem hugsum aðeins um það, hvar er hægt að fá báta ódýrast smíðaða, munar það ekki litlu, hvort eitt þús. af 5 þús. manna á staðnum geta ekki unnið fyrir sér. Slíkt fátækraframfæri er ekki lítill baggi fyrir atvinnulíf bæjarins. Mér gengur ekki til neinn kali til Akureyrar eða Reykjavíkur, þó að ég álíti þær ekki hæfar til að framleiða þessa vöru, heldur aðeins það, að framleiðslan verður of dýr á þessum stöðum. Það, sem gildir, er, að framleiðslan verði eins góð og hægt er og eins ódýr og hægt er. Þótt ég geri ráð fyrir, að verksvit hv. þm. á því, hvað til þarf til að byggja báta, sé eitthvað líkt og mitt, þá sér hann eins vel og ég, að ekki er nein bót að því að styðja framleiðslu báta hér á landi, sem eru svo dýrir, að útgerðarmenn og sjómenn geta fengið samskonar báta ódýrari frá Noregi. Hvaða meining er í því að koma okkar framleiðslumálum þannig fyrir, að við getum ekki staðizt samkeppni við næstu þjóðir, hvorki með litla eða stóra báta? Það er óviðunandi og á að breytast. Ég vona, að hv. þm. sé það ljóst, að þótt einni slíkri skipasmíðastöð væri komið upp, þá mundi hvorki Akureyri né aðrir staðir hætta að smíða báta.

Nú er verið að smíða skip í Vestmannaeyjum, sem verður stærra en Óðinn. Það er kaupmaður hér í bænum, sem er að láta smíða það, og við það vinna eingöngu smiðir úr Vestmannaeyjum, sem eru í landi. Skipið virðist vera gott, og það eru betri skilyrði þar, svo kostnaðurinn verður viðráðanlegri.

Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Ak. sé ljóst, að ekki er hægt að setja skipasmiðum sérstök kjör, til þess að einhver góður staður, eins og t. d. Akureyri eða Reykjavík, geti framleitt bátana. Vinnan á þessum stöðum verður að vera svo dýr, að þar leggst skattur á útgerðina, sem ekki er lítill. Ég geri ráð fyrir, að fleirum en mér sé ljóst, að eina ráðið til að auka bátasmíðina er að finna stað, sem hefir sérstaklega góð skilyrði til að framleiða ódýrt. Það takmark, sem fyrir mér vakir, er að geta smíðað hér eins góða og eins ódýra báta og þá, sem við nú kaupum af Dönum og Norðmönnum. Til þess er ekki hægt að segja við menn í Reykjavík, sem búa við rándýrt húsnæði og að öðru leyti, bæði vegna fátækraframfæris og annars, lifa við einum þriðja dýrari lífsskilyrði en smiðir úti á landi, að þeir skuli lækka kaup sitt. Eina ráðið er að búa til einhvern þann stað á landinu, sem svo ódýrt er að lifa á, að hægt er að lækka kaup smiðanna án þess að kosti þeirra sé þrengt um of.

Út af því, að óhæfilegt væri að fara með þetta á svo lítilfjörlegan stað sem Svalbarðseyri, þá vil ég segja, að ég veit ekki um neinn hæfari stað hér á landi. Ég vil benda hv. þm. á, að í námunda við Glasgow er nú verið að byggja stærsta skip heimsins, í smáþorpi, sem er einskonar Svalbarðseyri, og enginn telur það hneykslanlegt í milljónabænum Glasgow, þótt farið sé með þetta risaskip út fyrir borgina.

Miðað við Akureyri er Svalbarðseyri ódýr staður, og það er langt frá, að það myndi íþyngja Akureyri á nokkurn hátt, að skipasmiðastöð þessi risi þarna upp.

Ég mun ekki telja mig neinn sérfræðing í þessum efnum frekar en hv. þm. Ak. En ég vil geta þess, að mjög stórt skip, sem er í smiðum hjá Glasgow, er byggt á slippstöð á eyri einni við ána Clyde. Skipinu er rennt út í ána og þaðan út á sjó. Þó er aðstaðan að einu leyti miklu heppilegri á Svalbarðseyri við Eyjafjörð heldur en við ána Clyde. Þar, sem þeir reisa skipið, er áin svo mjó, að nokkrir örðugleikar eru á því fyrir mjög stór skip að athafna sig þar, þegar þau eru komin á flot. Þar sem hv. þm. Ak. taldi það óheppilegt að hafa bátasmíðastöð á Svalbarðseyri, vegna þess, að þar væri ekki mótorverkstæði, þá ætla ég að benda honum á, að það er einmitt kjördæmi hans til hins bezta. Það er nú meira og meira að verða siður í stóriðnaðinum, að hlutir eins og t. d. bílar eru ekki smíðaðir í heilu lagi á sama stað. Tökum t. d. bílaverksmiðju í Gautaborg; sumir hlutir bílanna eru búnir til þar, en aðrir í öðrum verksmiðjum langt frá. Það yrði alveg prýðilegt fyrir Akureyri, ef þar sköpuðust skilyrði fyrir starf við vélaverkstæði; þar gætu allmargir menn fengið atvinnu fyrst um sinn við það að gera við járnsmíðahluti, enda er ekki nema 20 mínútna ferð yfir fjörðinn frá Svalbarðseyri til Akuryrar. Ég efast ekki um það, að hv. þm. Ak. muni vita, að eins og dýrtíðin er nú að verða í hans bæ, er Akureyringum gert erfitt fyrir um iðnað. Ég get bætt því við, að ýmsir atburðir á Akureyri hafa orðið þess valdandi, að miklu minni þróun í samvinnuátt hefir átt sér þar stað en vera ætti. Samband ísl. samvinnufélaga myndi hafa komið þar á fót nýrri deild til iðnaðar, sem hefði veitt fjölda fólks atvinnu, ef ekki hefðu komið í ljós dýrtíðarerfiðleikar, sem hindruðu það, að iðnaður í þeirri grein væri samkeppnishæfur við útlendan iðnað. Ég hefi enga trú á, að þessum hv. þm. takist að snúa dýrtíðina niður og gera Akureyri að langódýrasta kaupstaðnum á Íslandi, eins og hún var áður, en er það alls ekki lengur nú, og menn verða að taka afleiðingunum af því. Það, sem hv. þm. ynni við það, ef honum tækist að hindra framgang þessa máls af umhyggju fyrir Akureyri, er það, að þá verða bátarnir bara keyptir frá útlöndum. Þannig mun fara, þegar lagast með fiskmarkaðinn og menn fara að afla betur en nú. Þá verða bátar handa sunnlenzkum sjómönnum keyptir frá útlöndum, því að þeir eru of dýrir, ef þeir eru keyptir fullsmíðaðir hér. En er það nokkurt gleðiefni, að þessi vinna verði keypt frá útlöndum? Það er vonandi, að markaðsafstaðan breytist einhverntíma til batnaðar, og þá þurfum við að fá fleiri báta. Ekki er hægt að rökstyðja þá kenningu hv. þm., að allir hlutir til bátanna þurfi að vera smíðaðir á sama stað, því að stóriðnaðurinn er að mestu leyti rekinn þannig, að hinir ýmsu hlutir eru smíðaðir hver á sínum stað, og einhverntíma munu bátar verða smíðaðir þannig hjá oss.

Ég vil nú að síðustu færa rök fyrir því, hvers vegna Svalbarðseyri getur orðið ódýrari en nokkur hinna stærri kaupstaða á landinu. Það er fyrst og fremst af því, að þar hefir lítið verið byggt, eyrin hefir verið keypt til að reisa þar ódýr hús. Hún er eign tveggja kaupfélaga, sem bæði hafa hagsmuni af því, að eitthvað sé gert. Þar kemur síldarbræðslustöð innan skamms, sem vel gæti lifað, þótt þessi iðnaður kæmi þar líka. Þar má fá mjög hentugt húsnæði fyrir menn, sem ekki hafa stórar fjölskyldur. Þorsteinn M. Jónsson keypti húseignina Svalbarð, eign dánarbús Björns Lindals, fyrir 40–50 þús. kr., og henni fylgir 500 hesta tún. Þorsteinn mundi leigja þetta hús fyrir verð, sem er í samræmi við upphaflegt verð þess, þótt ég hafi ekki minnzt á það við hann. Ég álít því, að öll aðstaða sé þarna svo ódýr, að vel sé hægt að láta smiðunum líða eins vel og samsvarandi mönnum í nokkru þjóðfélagi innan sömu stéttar, og þó einnig unnt að framleiða báta svo ódýrt, að samkeppnisfært sé við Noreg og Danmörku, þó að tollarnir séu litlir, er á þeim hvíla. Ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. Ak. sjái, þegar hann athugar málið betur, að hér er um mikið velferðarmál að ræða, ekki aðeins fyrir Akureyri, heldur einnig fyrir allt landið.