03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Hv. 7. landsk. taldi, að ég hefði ekki gert nægilega grein fyrir þeirri skoðun minni, að það væru aðeins félög verkamanna og sjómanna sem kæmu til greina um úthlutun þessa fjár. Ég skal þess vegna frá mínu sjónarmiði gera grein fyrir þeim mun, sem ég tel vera á milli útgerðar bæjar- og sveitarfélaga annarsvegar og þeirrar útgerðar, sem sjómenn og verkamenn eiga sjálfir, hinsvegar, og hann er sá, að ef verkamenn og sjómenn eiga og reka sjálfir samvinnuútgerð, þá geta þeir ekki gert kröfur til annara eða skellt ábyrgðinni á aðra en sjálfa sig, en ef bæjarfélag er á bak við, sem rekur útgerðina fyrir sinn reikning, þó að það sé eingöngu gert í þeim tilgangi að skapa verkamönnum og sjómönnum atvinnu, þá hafa þeir annan á bak við sig, sem þeir treysta kannske fullt eins mikið á eins og sjálfa sig, — því að bæjarfélagið ber ábyrgð á rekstrinum. Þar af leiðandi getur það komið fyrir við slíkan rekstur, að þeir, sem að honum standa, geri ekki þær kröfur til sjálfs sin, sem nauðsynlegt er.

Ég hygg því, að um það verði ekki deilt, að það sé tryggast og eðlilegast, að félög verkamanna og sjómanna, sem beinlínis reka útgerðarfyrirtæki með atvinnu sjómanna og verkamanna fyrir augum, njóti þessara hlunninda, sem hér um ræðir. Það er þetta sjónarmið, sem veldur því, að mér finnst með þessari till., ef hún verður samþ., horfið frá þeirri braut, sem upprunalega var hugsuð með lánveitingum og,styrkveitingum í þessu efni.

Ég held, að ég hafi þá gert grein fyrir því sjónarmiði, sem fyrir mér vakti, þegar ég lét áðan í ljós skoðun mína á þessu atriði, án þess að ég segi nokkuð um afstöðu Framsfl., því að mér vitanlega hefir hann ekki tekið sérstaka afstöðu til þessarar brtt. hv. 7. landsk.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. G.-K. vildi halda fram í sinni fyrri ræðu, en var að nokkru leyti horfinn frá í síðari ræðu sinni, að þetta væri í raun og veru innifalið í frv. eins og það nú liggur fyrir, og það mætti samkv. því velta bæjar- og sveitarfélögum styrk og lán til togarakaupa, vil ég segja það, að ég sé ekki, að hægt sé að finna það út úr orðalagi frv., nema þá í þeim skilningi, að sjómenn og verkamenn ættu bæjarfélögin, og þann skilning virðist mér, að hv. þm. hafi orðið að leggja í þetta atriði til þess að réttlæta þessa skoðun sina. Það getur verið í vissum tilfellum, að slíku sé til að dreifa, en það mun vera mjög lítið um það.

Hv. 9. landsk. var með spámannleg orð um að framtíðin mundi vissulega vera með þeim, sem reyna að tefja fyrir því, að hægt sé að fá sæmilegar samgöngur milli Suðurlandsundirlendis og Reykjavíkur. Ég er sannfærður um, að a. m. k. þeir, sem heyja lífsbaráttu sína á Suðurlandsundirlendinu, munu ekki telja þá menn neina sérstaka brautryðjendur eða spámenn, sem hafa lagt lið sitt til þess að hindra, að þetta næði fram að ganga. Eins og hv. 7. landsk. tók fram, er þetta að komast í framkvæmd og mun ekki verða hætt fyrr en það er búið. Þetta verður að ske á næstu árum, vegna þess að framleiðslan á öllu svæðinu austanfjalls er orðin þannig, að hún verður að hafa öruggar samgöngur allt árið, og það er skiljanlegt hverjum manni, að sú leið er tryggust og snjóléttust, sem liggur lægst yfir sjávarmál, og skiptir það engu máli, hvort hún er 32 km. lengri eða skemmri, því að ég hygg, að þeir, sem þurfa að fara að vetri til yfir Hellisheiði, þegar mikill snjór er, óski frekar eftir að fara 100 m. á sæmilega auðum vegi heldur en 2 m. eftir vegi, sem er mjög snjóþungur og illur yfirferðar.

Sem betur fer hafa menn með sama hugarfari og hv. 9. landsk. ekki lengur tök á því að hindra framgang þessa nauðsynjamáls, og vonandi hafa þeir ekki heldur tök á að tefja það, eins og mér virtist hv. þm. vera að gera sér vonir um og ræða hans átti líka að gera.