25.03.1938
Sameinað þing: 9. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

31. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Á síðasta þingi var samskonar till. lögð fram og nú er á þskj. 33. Í sinni upphaflegu mynd var hún ekki alveg shlj. þessari till., en síðar meir gerðu flm. hennar brtt. við hana, er færði hana í svipað lag og þessi till. hefir nú. Till. kom aldrei til umr., og var það bæði okkar flm. sök. og svo dróst það líka síðar meir úr hömlu, að hún yrði sett á dagskrá.

Till. þessi er aðallega fram komin vegna þess, að verzlunarstéttin, eða a. m. k. sá hluti hennar. sem telst til kaupmannastéttarinnar, hefir fundið til ýmislegra ágalla við framkvæmd l. um gjaldeyrisverzlanna. Kvartanir um þetta hafa komið fram á öðrum vettvangi en Alþingi, en okkur flm. þótti rétt, að viðhorf verzlunarstéttarinnar væri rætt á Alþingi og þinginu gefinn kostur á að líta nokkuð á þá hlið málsins, sem snýr að þeirri stétt manna, sem aðallega á við þessa löggjöf að búa.

Það er eðlilegt, að jafnströng höft og nú eru orðin á innflutningi og gjaldeyrisverzlun hljóti að koma hart niður á ýmsum þeim borgurum þjóðfélagsins, sem aðallega fást við verzlun. Við því er þó ekki hægt að amast að öllu leyti, ef þess er sérstaklega gætt, að sem mest réttlæti sé haft í frammi við framkvæmd l.

Ég skal nú í stuttu máli lýsa hverjum lið fyrir sinni þessari þáltill.

Í fyrsta lið er farið fram á, að innflutningur á kornvöru og nýlenduvöru verði gefinn frjáls frá næstu áramótum, þar sem það hefir sýnt sig, að innflutningur á þessum vörutegundum hefir verið veittur eftir neyzluþörf landsmanna.

Það kann að þykja nokkuð nýstárlegt, að í þessu landi, þar sem allur innflutningur er háður eftirliti og leyfisveitingum, skuli vera farið fram á, að einn flokkur af vörum skuli verða gefinn frjáls, en það höfum við þó leyft okkur að gera og höldum því fram, að höft á innflutningi kornvöru og nýlenduvöru hafa sýnt sig að vera alveg þýðingarlaus hvað það snertir, að takmarka innflutninginn á þessari vöru fram yfir neyzluþörf landsmanna. Þarf ekki annað en líta í hagskýrslur til þess að sjá, að hér hafa engar takmarkanir átt sér stað. Til dæmis að taka vil ég geta þess, að innflutningur á kornvöru nam árið 1932 3338 þús. kr., 1933 var hann 3123 þús. kr., 1934 3308 þús. kr. og 1935 var í miðjum nóvember búið að gefa út leyfi fyrir 3963 þús. kr., 30. nóvember 1936 höfðu verið gefin út leyfi fyrir 4058 þús. kr., og 1937 voru gefin út leyfi til 30. september fyrir 5143 þús. kr.

Þetta sýnir, að innflutningur á þessari vörutegund hefir farið vaxandi á þeim tíma, sem hér er um að ræða, þó að tekið sé tillit til fólksfjölgunarinnar í landinu.

Nú mundi ef til vill einhver segja sem svo, að ekki sé að marka, þó að innflutningurinn vaxi að krónutali, þar sem verðið sé breytingum háð og hafi hækkað á þessu tímabili. Það kann að vera, að verðið hafi breytzt; það hefir gert það bæði upp og niður, en ég vil benda á, að frá því árið 1933, en við það ár hefir gjaldeyrisnefnd miðað sínar leyfisveitingar, hefir kornvöruinnflutningur líka aukizt að magni til. Árið 1933 var innflutningur á kornvöru alls 14451 tonn, en 1935, sem er síðasta árið, sem fullar skýrslur liggja fyrir um, er hann 16481 tonn. Þetta bendir í sömu átt og peningahlið þessa máls og sýnir greinilega, að innflutningurinn hefir vaxið fyllilega við þörfina, og það, sem má hér segja um kornvöruna, má alveg eins segja um nýlenduvöruna. T. d. má geta þess, að árið 1932, þegar engin höft voru, var árleg neyzla á kaffi 658 tonn. 1933 var hún 754 tonn, 1934 var hún 683 tonn og 1935 813 tonn. Um sykur skal eftirfarandi sagt: Árið 1932 fluttust inn til landsins 4179 tonn, árið 1933 voru það 4563 tonn, 1934 4536 tonn, og 1933 5302 tonn. Þessar tölur eru teknar samkv. verzlunarskýrslum þessi ár, og sýna þær, að einnig innflutningur á nýlenduvörum virðist hafa farið eftir neyzluþörf landsmanna, en ekkert verið dregið úr innflutningnum.

Þá má einnig geta þess að því er snertir innflutning á þessum vörutegundum, að um engar vörutegundir er minni hætta á, að menn flytji inn meira en þeir nauðsynlega þurfa viðskipta sinna vegna en einmitt korn- og nýlenduvörur og þesskonar. Enginn, sem verzlar með þessar vörur, mundi hafa fyrirliggjandi meiri birgðir af þeim á hverjum tíma heldur en það, sem viðskiptamennirnir tækju eftir hendinni. Þetta eru vörur, sem í mörgum tilfellum þola ekki allt of langa geymslu, þær eru dýrar að liggja með þær, og þess vegna er lítil freisting t. d. fyrir mann, sem hefir viðskiptamannafjölda fyrir 50 sekki af hveiti á mánuði, að flytja inn tvöfalt meira eða fram yfir það.

Það er líka vel framkvæmanlegt að hafa svona ákveðna vöruflokka frjálsa, þó að leyfi þurfi fyrir öðrum vörum. Má þar benda á nágrannaland okkar, Danmörku. Þar eru einnig innflutningshöft og gjaldeyrisráðstafanir, en árið 1936 var talsverður hluti af innflutningi landsmanna gefinn frjáls, og síðan hefir verið gengið miklu lengra á þeirri braut. Innflutningslögin þar voru endurskoðuð á síðasta ári. Verð þeirra vara, sem ekki þurfti leyfi fyrir, nam þá um 70 millj. kr. En síðan endurskoðunin var gerð á l., en því var lokið rétt fyrir jólin, þá er gert ráð fyrir innflutningi fyrir 500 millj. kr., sem ekki þarf að fá leyfi fyrir. Ég bendi á þetta til þess að sýna fram á, að það er engan veginn fordæmislaust, þó að gengið sé inn á þá braut, að hætta þessu skömmtulagi og leyfisveitingum á þeim vörutegundum, sem fluttar hafa verið inn alveg eftir neyzluþörf landsmanna.

Það geta því ekki verið frá sjónarmiði gjaldeyrisins eingöngu nein skynsamleg rök fyrir því, að þessu skömmtulagi sé haldið. Hitt er annað mál, sem ég skal ekki að þessu sinni gera sérstaklega að umræðuefni, að fyrir þessu geta legið önnur rök, en ég vildi helzt komast hjá að þurfa að ræða málið frá þeirri hlið, en það eru þau rök, að þeir, sem innflutninginn skammta, vilja hafa hann í hendi sér, til þess að geta mismunað innflutningi þessara vara, en eins og ég hefi sýnt fram á með tilvitnunum í það magn, sem inn hefir verið flutt síðan höftin voru sett á, þá er sýnt, að frá gjaldeyrisins sjónarmiði standa engar stoðir undir því lengur, að leyfi þurfi til innflutnings á kornvörum og nýlenduvörum.

Með 2. lið till. er farið fram á, að núv. starfsreglugerð gjaldeyris- og innflutningsnefndar verði úr gildi felld og ný reglugerð gefin út, þar sem m. a. öllum kaupmönnum, smásölum og heildsölum, séu tvímælalaust tryggð sömu réttindi til innflutnings og pöntunar- og kaupfélögum. M. ö. o., að réttur þeirra neytenda, sem verzla við kaupmenn, verði virtur á sama hátt og réttur þeirra, sem verzla við kaupfélögin. Það mun vera rétt, sem hæstv. fjmrh. lýsti einhverju sinni yfir hér í þinginu, að það sé hann, sem hafi innleitt þessa svokölluðu „höfðatölureglu“ um innflutninginn, sem m. a. er framkvæmd þannig, að t. d. kaupfélag, sem í dag fær innflutning miðað við 100 meðlimi, getur komið aftur á morgun og sagt, að 100 nýir menn hafi gengið í félagið frá því í gær. Fær það þá þegar aukinn innflutning sinn með tilliti til þessara nýju manna, en vitanlega á kostnað annara innflytjenda. Þetta og því líkt skapar eðlilega misrétti á milli kaupmanna og kaupfélaga, og einnig á milli neytendanna, því að þó aldrei nema segja megi við menn, að þeir geti gengið í þetta eða hitt kaupfélagið, þá er það svo, að yfirleitt munu borgararnir vilja vera frjálsir um það, hvar þeir verzla.

Þá er hitt atriðið að þeir, sem verzlun hafa rekið, verða mjög hart úti. að ég ekki segi, að beinlínis sé stefnt að því að eyðileggja atvinnuveg þeirra, — stefnt að því að uppræta heila stétt manna í landinu og setja aðra í staðinn. Það er því ekki óeðlilegt, þó að þær raddir verði háværari og háværari, að menn fái að vera frjálsir um það, hvar eða hjá hverjum þeir kaupa lífsnauðsynjar sínar. Þessi svokallaði „höfðatöluréttur“, sem hæstv. fjmrh. fann upp, mun hvergi þekktur nema hér á landi. Þvert á móti er það yfirleitt venja erlendis, að þeim mönnum, sem rekið hafa verzlun, er tryggður réttur til þess að halda atvinnurekstri sínum áfram, í stað þess, sem hér er allt gert til þess að eyðileggja hann.

Þá má og á það benda, að þessi umræddi „höfðatöluréttur“ getur auðveldlega leitt menn út í miður heiðarlegt brask. Það mun t. d. hvergi vera gengið eftir því, a. m. k. ekki hjá kaupfélögunum, að menn færi nokkrar sannanir fyrir því, hversu margir viðskiptamennirnir eru. Það getur því verið freistandi fyrir þá, sem verzlun reka, að telja þá t. d. fasta viðskiptamenn, sem ekki verzla nema að litlu leyti hjá viðkomandi fyrirtæki.

Þriðji liður till. minnar er um það, að birt verði þegar í byrjun hvers árs áætlun gjaldeyris- og innflutningsnefndar yfir innflutning þann, sem veita á á árinu, og sé áætlun þessi svo greinileg, að hver innflytjandi geti sjálfur séð, hve mikinn innflutning hann á að fá á því tímabili, sem áætlunin nær yfir, samkv. reglum nefndarinnar um úthlutun. Að viðhafa slíka reglu væri óneitanlega hagkvæmt. Það væri nfl. mikil trygging fyrir þann, sem fæst við verzlun eða innflutning á vörum, ef hann vissi laust eftir hver áramót, hvaða reglur innflutnings- og gjaldeyrisnefnd ætlaði að leggja til grundvallar fyrir innflutningi það árið. Og væri úthlutunin byggð á réttlátum „kvóta“, þá gæti hver og einn séð, a. m. k. svona hér um bil, hversu mikill innflutningur honum bæri yfir árið, enda þótt alltaf væri eitthvað ætlað fyrir óvissum innflutningi. Með þessu lagi væri og líka útilokuð sú sífellda tortryggni, sem alltaf er um þessi mál, — tortryggni, sem skapazt hefir af því, hversu mjög úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfanna er og hefir verið í lausu lofti. Almenningur hefir ekkert fengið að vita um, eftir hvaða reglum hefir verið farið. Um það hefir svo skapazt leynd og tortryggni. Við flm. þessarar þáltill., auk meginþorra allrar verzlunarstéttar landsins, stöndum fast að þessari breyt., sem hér er farið fram á, að gerð verði á störfum gjaldeyris- og innflutningsnefndar.

Fjórði liður till, er um það, að framvegis verði engin leyfi veitt til einstaklinga, sem engan verzlunarrekstur hafa. Það er nauðsynlegt, að það verði haft að grundvallarreglu, enda þótt hjá því verði ekki komizt að veita einstaklingum einhver leyfi fyrir vörum. Að ganga eins langt í því að veita innflutningsleyfi til einstaklinga, sem engan verzlunarrekstur hafa, eins og gert hefir verið, nær engri átt. Þannig hafa einstaklingar oft fengið innflutningsleyfi fyrir vörum, sem innflytjendum varanna hefir verið synjað um.

Fimmti liður till. okkar er um það, að hér eftir verði betra eftirlit haft með því en hingað til hefir verið, að vörur, sem leyfðar eru til iðnaðar, séu í raun og veru notaðar til hans, en ekki seldar óunnar sem verzlunarvara, og þess sé vandlega gætt, að innflutningsleyfi, sem hljóða um efnivörur til iðnaðar, séu ekki notuð til þess að flytja inn nálega eða alveg fullunnar vörur. Það er nfl. enginn vafi á því, að sum iðnfyrirtæki, sem risið hafa upp í seinni tíð, hafa það fyrir markmið að fá innflutningsleyfi fyrir vörur, sem þau selja svo út óunnar, eða í sama ástandi og þær eru fluttar inn. Hvað segja menn t. d. um annað eins og það, þegar saumastofur fara að auglýsa silkisokka. Heldur kannske nokkur maður, að sokkarnir séu unnir í saumastofunum?

Sama máli gegnir um ýmislegt, sem kallað er hráefni, eins og t. d. það, sem talið er notað í hinar svokölluðu snyrtivörur, sem auglýstar eru í blöðunum. Það er efni, sem látið er í dósir og bauka í sama ástandi og það kemur til landsins. Umbúðirnar aðeins skreyttar lítið eitt meira.

Þó að ég segi þetta um þessar sérstöku tegundir iðnaðarins, sem ég nú hefi nefnt, þá förum við flm. till. þessarar alls ekki fram á það, að hinn reglulegi iðnaður, sem til er í landinu. sé settur hjá með innflutning á vörum til framleiðslu sinnar, og til þess að útiloka allan misskilning, þá vil ég taka það skýrt fram, svo ekki verði um deilt, að ég tel þann iðnað, sem framleiðir góðar vörur fyrir neytendur, eiga fyllsta rétt á sér, og að gjaldeyris- og innflutningsnefnd beri skylda til að hafa gætur á, að slíkur iðnaður stöðvist ekki. Hitt vil ég líka taka skýrt fram, að ég tel ekki heppilegt, að í skjóli innflutningshaftanna sé hróflað upp iðnaði, sem enginn iðnaður er, og í öðru lagi, að inn séu fluttar vörur í skjóli þeirra, sem svo eru seldar út aftur án þess að við þeim sé hróflað á nokkurn hátt.

Þá er 6. liður þessarar þáltill. Hann hljóðar um það, að innflutningsleyfin séu veitt með nægum fyrirvara, og a. m: k. ekki síðar en viðkomandi úthlutunartímabil byrjar, og að fyrirspurnum og umsóknum til gjaldeyris- og innflutningsnefndar sé jafnan svarað fljótt og greiðlega. síðan innflutnings- og gjaldeyrisnefndin tók til starfa, hefir hún jafnan þótt sein í vöfum, sem verið hefir til tjóns fyrir alla aðilja, og máli mínu til stuðnings skal ég benda á eftirfarandi. Þegar nefndin hefir gert upp með sér, hvað skuli leyft að flytja inn, á hún umsvifalaust að senda innflutningsleyfin til þeirra, sem á annað borð eiga að fá þau. Að draga það á langinn að senda leyfin, er aðeins til tjóns fyrir alla, því að það þekkja allir, að eigi að gera góð innkaup, þá þarf venjulegast til þess nokkurn tíma. Menn þurfa að fá tækifæri til þess að geta athugað, hvar hagkvæmast sé að gera innkaupin. En með því að menn séu dregnir á innflutningsleyfunum allt fram á elleftu stundu getur oft farið svo, að þeir fari á mis við að gera notið beztu fáanlegra kjara. Og þess eru meira að segja mörg dæmi, að menn hafa beinlínis fyrir þessar sakir orðið að gera innkaup sín þar, sem hvað dýrast hefir verið.

Auk þessa, sem ég nú hefi tekið fram, hefir á síðasta ári einn ókosturinn enn bætzt við framkvæmd innflutningshaftanna, en hann er sá, að nefndin hefir tekið upp þann sið að færa ekki á milli ára ónotuð innflutningsleyfi. Þegar nú nefndin hefir tekið upp þessa starfsaðferð, þá sjá allir, hversu mjög það getur verið óþægilegt fyrir menn að fá leyfin mjög seint. Þetta kom t. d. mjög hart niður á Austfirðingum síðastl. ár; síðustu innflutningsleyfi þeirra voru t. d. ekki afgr. frá n. fyrr en í desember, en þá var eftir að senda þau austur og panta eftir þeim. Það sjá nú allir, hversu hægt það muni hafa verið fyrir innflytjendur, að vera búnir að fá vörur út á þessi leyfi snemma í janúar, og það með þeim samgöngum, sem nú eru við Austfirði. Hér skapast líka misrétti á milli þeirra a. m. k., sem búa fjærst og næst Reykjavík. Ef vel á að vera, þarf því að breyta þessu á þann veg, að þeir, sem fjærst búa, fái leyfin fyrr en hinir, sem næstir eru.

Sjöundi liður till. er fram kominn vegna þeirra mörgu sagna, sem ganga meðal manna um misræmi í úthlutun gjaldeyris- og innflutningsleyfa. Hér skal ekkert um það sagt, við hve mikil rök öll þau klögumál, sem um þetta ganga, hafa að styðjast. Og innflytjendur geta ekki heldur fengið að vita um það, hvort öll þessi klögumál séu á rökum reist eða ekki, nema því aðeins að hafa trúnaðarmenn, sem aðgang hefðu að plöggum n. Okkur flm. þessarar till. hefir því ekki fundizt fjarri lagi, að stærstu innflytjendurnir fengju rétt til þess að hafa sinn trúnaðarmanninn hvor, sem aðgang hefði að öllum plöggum n., til þess að athuga í næði, á hve miklum rökum kæruatriði innflytjenda væru byggð. Við rólega og hlutdrægnislausa athugun slíkra hluta gæti ég trúað, að það kæmi oft í ljós, að mörg kæruatriðin hefðu ekki við eins mikið að styðjast og maður skyldi ætla í fyrstu. Með því að skipa þessa tvo trúnaðarmenn, annan útnefndan af Verzlunarráði Íslands, en hinn af Sambandi ísl. samvinnufélaga, myndi óhjákvæmilega skapast meiri ró um nefndina en nú er a. m. k.

Þá er 8. og síðasti liður till., að úthlutun bankanna á gjaldeyri til greiðslu á andvirði innfluttra vara verði á hverjum tíma í sem réttustum hlutföllum við úthlutun innflutningsleyfa, þannig að jafnt gangi yfir alla þá innflytjendur, sem leyfi hafa fengið. Menn munu nú eflaust segja, að þetta hafi alltaf átt að vera reglan. En því miður vantar mikið á, að henni hafi verið fylgt, og nægir því til sönnunar að benda á þá miklu óreiðu, sem nú er komin á greiðslur innflytjenda til útlanda. Og þau eru ekki svo fá dæmin, þar sem menn hafa staðið með innflutningsleyfin í höndunum og með næga íslenzka peninga í höndunum, en ekki fengið yfirfært. Um þetta atriði hefir Verzlunarráðið látið safna skýrslum, og kom þá í ljós, að 60 innflytjendur skulduðu 1. febr. síðastl. um 2327 þús. kr., sem þá voru komnar í vanskil, þrátt fyrir það, þó að í öllum tilfellunum hefðu verið til fyrir hendi gjaldeyris- og innflutningsleyfi og nægur íslenzkur gjaldmiðill til þess að greiða með. Þar með er þó ekki sagan öll sögð, því að fleiri eru þeir, sem eins er ástatt um, en bæði er það, að ekki hafa allir svarað, sem fyrirspurn hefir verið send til, og eins hitt, að ekki hefir fyrirspurn verið send til allra, svo að þessi tala, 2327 þús. kr. fyrir 60 firmu, gefur nokkra vísbendingu um. hversu geigvænleg upphæð það er, sem þannig er í vanskilum hjá íslenzkum innflytjendum, sem gjaldeyrisn. hafði gefið leyfi fyrir innflutningi, en innflytjendur fá nú ekki að standa í skilum með. Er ekki ólíklegt eftir þessu, að um 31/2 millj. kr. sé í vanskilum hjá íslenzku kaupmannastéttinni, og eru þá ótalin kaupfélög og ríkisstofnanir. Og þessi vanskil hafa aukizt mjög upp á síðkastið.

Um það hefir mikið verið rætt, hversu lánstraust landsmanna fer minnkandi af þessum ástæðum, og væri margt hægt um það að segja, þó að ég fari ekki út í það að þessu sinni.

Ég hefi þá farið yfir þessa liði till. Ég hefi nærtæk dæmi, sem sýna, að beitt hefir verið miklu misrétti um veitingu innflutningsleyfa. Um innflutningsleyfi fyrir vefnaðarvöru t. d. er hægt að fullyrða, að hlutfaliið milli þess innflutnings, sem kaupmönnum hefir verið leyfður annarsvegar og kaupfélögum hinsvegar, stendur ekki í neinu skynsamlegu samræmi við þann innflutning, sem þessir aðiljar höfðu áður.

Þess hefir verið óskað, að fundinum yrði flýtt sem mest. og verð ég því að takmarka mál mitt, þótt ég gæti bent á ýms atriði máli minn til stuðnings. Þó vil ég ekki ljúka máli mínu án þess að undirstrika, að mér virðist sjálfsagt, að sá ráðh., sem með þessi mál fer, hefði átt að gera tilraunir til að sætta þá aðilja, sem næst búa höftunum, ef svo mætti segja — sætta þá við l. með skynsamlegri beitingu innflutningshaftanna og sanngjarnari.

Ég skal í næstu ræðu minni sanna, að gjaldeyrishöftin og innflutningshömlurnar hafa ekki náð tilgangi sínum, þeim, sem þeim var í upphafi ætlaður, þvert á móti. Svo ógiftusamlega hefir verið starfað að framkvæmd haftanna, að landsmenn hafa engan veginn verið sættir við þau, heldur hefir einmitt verið stefnt í öfuga átt, með því, að skapað hefir verið ýmiskonar misrétti. Þessi stefna, sem engin blessun getur fylgt, þarf að breytast. Það þarf að endurskoða þær reglur, sem ráðh. hefir sett um framkvæmd gjaldeyrisl., og gera nauðsynlegar umbætur á þeim. Fram á það fer þessi till.

Ég vona, að hv. þm. sjái, að hér er einungis farið fram á jafnrétti, ekki aðeins milli innflytjenda, heldur og neytenda í landinu. Og verði þessi till. samþ., er þar með stórt spor stigið til að ná því jafnrétti, sem nauðsynlegt er.