26.03.1938
Sameinað þing: 10. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 249 í D-deild Alþingistíðinda. (3007)

31. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

*Flm. (Jóhann Jósefsson):

Ég held, að ég verði fyrst að snúa mér að því, sem hv. þm. V.-Húnv. lagði til þessara mála. Það var nú að vísu ekki mikið fram yfir það, að gera það að till. sinni, að þessu máli yrði vísað til ríkisstj. Þó get ég ekki með öllu látið hans „fagmanns“-aths. (getur maður víst sagt) fara algerlega framhjá mér. Hv. þm. V.- Húnv. heldur því fram, þrátt fyrir það, að ég sýndi með greinilegri skýrslu, byggðri á Hagtíðindunum, að kornvöruinnflutningur hefði vaxið og nýlenduvöruinnflutningur hefði vaxið í tíð haftanna, að höftin hafi samt sem áður dregið úr þessum innflutningi; og vísar hann um það til þess, að menn hafi ekki fengið eins mikil leyfi í öllum tilfellum fyrir innflutningi þessara vara eins og þeir hafi viljað fá. Það hlýtur hv. þm. að vita, að í því felast engin rök gegn þeim staðreyndum, sem fyrir liggja í skýrslum Hagtíðindanna, því að þær sýna ljóslega, að innflutningur á þessum vörutegundum, kornvörum og nýlenduvörum, hefir vaxið hlutfallslega, miðað við fólksfjölgun á þessu tímabili. Hitt er svo aftur allt annað mál, þó að einhver kaupmaður eða kaupfélag eða innflytjandi yfir höfuð að tala hafi í einhverju einstöku tilfelli óskað eftir að fá innflutta 100 sekki af mjöli, þar sem n. hefir viljað leyfa aðeins 50. Það haggar ekkert við þessu máli. Þessir sömu menn, sem hafa beðið um kornvöruinnflutningsleyfi hærri en innflutningsn. hefir viljað veita, þeir hafa sennilega gert það mest vegna þess, að þeirra innflutningur á öðrum sviðum hefir verið svo niður skorinn, sem hann í mörgum tilfellum er. Og hinsvegar hafa þær kröfur, sem til þeirra hafa verið gerðar af bæjum og ríki, og þeirra tilkostnaður við fólkshald og því um líkt gert það að verkum, að þegar menn fá ekki að flytja inn ákveðna vöru, þá leitast menn við að fá að flytja inn meira af annari vöru, til þess að halda við sínu starfi og standa undir þeim álögum, sem þeir eiga að svara.

Ég held, að hv. þm. V.-Húnv. hafi svo ekki minnzt á í þessu sambandi — næst þessu með kornvörurnar — annað en 2. lið þáltill., um starfsreglugerðina. Og fyrst vildi sá hv. þm. halda fram, að starfsreglugerðin væri svo fullkomin nú, sú, sem starfað er eftir, að engin þörf væri á að breyta henni. En að öðru leyti virtist hann vilja gera villu úr orðalagi þessarar till. og sagði, að ef hún væri skilin bókstaflega, þá mætti lesa út úr þessum lið, að við færum fram á, að kaupmannaverzlanir, ef þær ættu að vera jafnréttháar kaupfélögum, fengju aðeins innflutning handa eigendum þeirra og kannske þeirra skylduliði. Svo þegar hv. þm. lagði það á sig að lesa greinina til enda, þá kom hann að því, að við förum fram á, að réttur þeirra neytenda, sem skipta við kaupmannaverzlanir, sé ekki gerður lakari en hinna, sem skipta við kaupfélög. Og það er það, sem farið er fram á í þessari gr. Og þó að orðalagi till. hafi verið mjög svo stillt í hóf með að fara fram á jafnrétti við kaupfélögin, þá er það alls ekki til of mikils mælzt, sem þar er farið fram á, því að þessum hv. þm. er kunnugt um það frá sínu fyrrv. embætti, að kaupfélögin hafa setið að miklu betri úthlutun í ýmsum atriðum heldur en kaupmannaverzlanirnar. Ég skal ekki í þessu sambandi fara neitt inn á þá meginmeinloku hjá þessum hv. þm., sem hann náttúrlega hefir tekið í arf frá sínum lærifeðrum, að kaupmannastéttin í landinu sé einskis virði og eigi engan rétt á sér, en ég kem að því í öðru sambandi. En hitt er vitað, að það hefir verið gengið svo langt í að misbeita valdi gjaldeyris- og innflutningsn. á kostnað þeirra manna í landinu, sem teljast til kaupmannastéttarinnar, að það er mjög hóflega í sakir farið, þegar maður mælist til þess, að sú stétt megi halda sama rétti og nýir menn, sem hlaupa inn í þessa atvinnugrein í skjóli þeirra kenninga, sem hæstv. fjmrh. hefir nú tileinkað sér og hv. þm. V.-Húnv. hefir verið svo ötull í að framkvæma. Ég skal, til þess að sýna fram á nokkur skýr dæmi, benda á það, að þegar í upphafi var inn á þá braut farið að miða innflutninginn á vefnaðarvörum (þ. e. úthlutun á honum) við innflutning áranna 1929–1931, þá er rétt að lýsa því, samkv. því, sem um það liggur fyrir og opinberlega hefir verið haldið fram og ekki afsannað, hvernig það hefir gengið undir stjórn þessa hv. þm. Á þessu tímabili, 1929–1931, var allur innflutningurinn á vefnaðarvörum til landsins um 10 millj. kr. árlega. Svo árið 1936 er þessi innflutningur mjög takmarkaður. Þá veitti gjaldeyris- og innflutningsn. innflutningsleyfi fyrir vörum af þessu tægi fyrir um 41/2 millj. kr., eða sem svarar 45% af meðaltali áranna 1929–1931. Við því er ekkert að segja. Þessi innflutningur var skorinn niður í 45%, og þá hefði maður getað búizt við, að allir innflytjendur í landinu hefðu þá fengið sín 45%, miðað við innflutning áranna 1929–1931. Það nærtækasta dæmi, sem hægt er að fá til þess að benda á framkvæmd þessara mála, eru þau leyfi, sem SÍS fékk fyrir innflutningi þessara vara árið 1936. þegar allir innflytjendur áttu að vera skornir niður í 45% um innflutning á þessum vörum. SÍS fékk þá leyfi fyrir vefnaðarvöruinnflutningi fyrir ca. 639 þús. kr. Ef það hefði ekki átt að bera þarna betri hlut fá borði heldur en kaupmenn, þá hefði vefnaðarvöruinnflutningur SÍS árin 1929 –1931 átt að vera að meðaltali á ári fyrir um 3,6 millj. kr. En slíkt nær ekki nokkurri átt, þegar þess er gætt, að árið 1931 t. d. nam allur innflutningur innflutningsdeildar SÍS 3,8 millj. kr. M. ö. o., kvóti SÍS af vefnaðarvörum er því aðeins réttur, að megnið af innflutningi innflutningsdeilda SÍS árin 1929–1931 hafi verið vefnaðarvara.

En það er ekki aðeins á vefnaðarvöruinnflutningi, sem hlutur kaupmanna hefir verið fyrir borð borinn, heldur hefir það átt sér stað um svo að segja alla flokka innflutningsins. því fór fjarri að kaupmenn fengju þann kvóta, sem þeim bar af vefnaðarvöruinnflutningnum 1936, miðað við árin 1929–1931, eða 45% af öllum vefnaðarvöruinnflutningnum að krónutölu 1929–1931, heldur fengu þeir í þess stað aðeins 18% af þeirra fyrri innflutningi á þessum vörum, eða m. ö. o. ekki helming af því, sem þeim í raun og veru bar.

Ég hefi þessar tölur hér fyrir framan mig og hefi marglesið þær í Hagtíðindunum. Og ég veit ekki til, að hv. þm. V.-Húnv. hafi getað afsannað, að þar sé farið með rétt mál. Það er náttúrlega eitt að setja reglu, en það er annað, hvernig henni er beitt.

Hv. þm. V.-Húnv. segir, að það sé skrítið af mér að viðurkenna það og halda því fram, að hver maður eigi að vera frjáls um það að verzla þar, sem hann óskar eftir að verzla, en að ég vilji þó ekki viðurkenna höfðatöluregluna. Það getur hugsazt, að sú höfðatöluregla væri til, sem hægt væri að samrýma við þessa skoðun. En sú regla, sem framkvæmd hefir verið um þessi mál af gjaldeyris- og innflutningsn., er ekki samrýmanleg þessari skoðun, og sú framkvæmd hygg ég hafi verið mest fyrir atbeina þessa hv. þm. (SkG). Því að það verður að líta á það, að aukning sú, sem höfðatölureglan hefir veitt ýmsum kaupfélögum víðsvegar um land um innflutning, hefir átt sér stað á kostnað annara innflytjenda, þannig að þeirra hlutur hefir verið niðurskorinn alveg að órannsökuðu máli, vegna þess að gjaldeyris- og innflutningsn. hefir litið svo á, að ein verzlun þyrfti, vegna aukinnar meðlimatölu, að fá meira magn af vörum flutt inn.

Það sjá allir, hvert þetta stefnir. Það stefnir ekki að öðru en því, sem er sjálfsagt meira eða minna ljós tilgangur þeirra, sem þessum málum stjórna, að þurrka út eina stétt manna úr þjóðfélaginu, með því að bægja þeim frá því að reka atvinnu, en búa til aðra stétt við hliðina á henni. Þess vegna er það, að hin svo kallaða verzlunarstétt, sem þessi verknaður gjaldeyris- og innflutningsn. hefir beinzt að, er misrétti beitt.

Hv. þm. V.-Húnv. sagði, að rökrétt afleiðing af höfðatölureglunni væri, að ef eitt kaupfélag hefði 100 meðlimi í ár og 200 meðlimi svo næsta ár, þá ætti það að fá tvöfölduð sín innflutningsleyfi næsta ár, og einnig, ef kaupfélag hefði 200 meðlimi í ár, en ekki nema 100 meðlimi næsta ár, þá ættu innflutningsleyfi þess að minnka um helming. Já, ég skal viðurkenna, að rökrétt verkar þetta þannig. En hvaða „kontrol“ hefir gjaldeyris- og innflutningsn. haft um þetta viðkomandi höfðatölu í hinum ýmsu kaupfélögum úti um land? Hvernig hefir það verið sannað fyrir n., að þetta eða hitt kaupfélag úti á landi hafi svo eða svo mörgum viðskiptamönnum fleira í ár heldur en í fyrra, sem voru þannig lagaðir viðskiptamenn, að það mætti telja, að þeir verzluðu alla sína verzlun við þetta félag? Ég geri ráð fyrir, að yfirlit n. yfir þetta sé heldur lítið, nema það, sem kaupfélögum þóknast að láta n. vita, — eða segja um sína meðlimatölu. Og þegar þess er nú gætt, að hér er farið eftir reglu, sem í sjálfri sér er svo sveigjanleg og hreyfanleg fyrir hagsmuni þeirra, sem af henni geta haft gagn, þá er sýnt, að þetta er ekki nein gullvæg eða góð grundvallarregla, því að meðan þessi regla hefir verið notuð, ef reglu skyldi kalla, er það sannað, að aukning úthlutunar innflutningsleyfa hjá þessum aðiljum (kaupfél.) hefir farið fram á kostnað annara aðilja, sem eiga alveg fullan rétt á að fá að stunda sína löglegu atvinnu í landinn og fullan rétt á því að fá að fullnægja þörfum sinna viðskiptamanna. Það er líka ósköp auðgefin leið, að beina viðskiptamönnum frá einu viðskiptafyrirtæki til annars með því að láta það fyrirtækið, sem er í náðinni hjá gjaldeyris- og innflutningsn., hafa innflutning annaðhvort á miklu meiri vörum en annað fyrirtæki, sem er í ónáð hjá n., eða á vörum, sem hitt verzlunarfyrirtækið (kaupmaðurinn) alls ekki fær að flytja inn. Þá neyðast náttúrlega viðskiptamenn til að flytja sín viðskipti. Svo það út af fyrir sig að fara blint eftir höfðatölureglunni, eins og ég hefi lýst, hvernig hún verður og hefir verið í framkvæmdinni, það er mjög veik afstaða fyrir gjaldeyris- og innflutningsnefnd.

Hæstv. fjmrh. fór um ýmsa liði þessarar þáltill. nokkrum orðum. Hann viðurkenndi, að margt af því, sem hér í till. er minnzt á, væri athugunarvert, þó að hann teldi, að till. í heild sinni ætti fremur að fara til ríkisstj. heldur en vera samþ. af Alþ. Ég skal ekkert mótmæla því út af fyrir sig, að þessari þáltill. kunni vel að vera eitthvað ábótavant í orðalagi eða öðru. En mér virðist það hafa komið fram í ræðu hæstv. fjmrh., að í mörgum greinum væru þær ábendingar, sem settar eru fram í þáltill., tilraun til að lagfæra sumt, er hann í „princip“atriðum væri ósammála þáltill. um. En hann sagði, að í sumum liðum væri till. þessi til athugunar um atriði, sem yrðu athuguð hvort sem væri. Hann var líka inni í skýringu hv. þm. V.-Húnv. á höfðatölureglunni, og hæstv. ráðh. orðaði það svo, að hann hefði sett hana af því, að hann vildi ekki taka á sig ábyrgðina á að hefta framgang kaupfélaganna í landinu, við sjálfstæðismenn höfum aldrei neitað því, að þau ættu fullan tilverurétt, heldur álítum við, að þau eigi jafnan rétt á að dafna og önnur verzlunarfyrirtæki, ef þau eru á heilbrigðum grundvelli rekin, en þar skilur á milli okkar og sumra kaupfélagsmanna. Hv. þm. V.-Húnv. og ýmsir úr hans flokki álíta, að það séu kaupfélögin, sem eigi réttinn, en kaupmennirnir hafi ranglega haft hann.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef þróunin gengi í öfuga átt, mundi hann taka afleiðingunum og láta innflutningsleyfin til kaupmanna. Þetta gengur sennilega til og frá. Menn verzla eitt árið við þennan og annað árið við hinn, og þó að hlaðið sé óeðlilega mikið undir kaupfélögin, er vafamál, hvort það er þeim fyrir beztu, því að það er öllum fyrirtækjum fyrir beztu, að rekstur þeirra sé heilbrigður. Ég tel, að vöxtur kaupfélaganna skapist á óeðlilegan hátt, þegar þau fá fríðindi, sem aðrir fá ekki. Það var upphaflega gert með skattfrelsi samvinnufélaga, og það hefir komið í ljós, að það er ekki bara til ánægju fyrir aðra borgara í bæjum, þar sem samvinnufélögin reka stórar verzlanir. Hvort sem það eru samvinnufélög eða ríkisstofnanir, sem taka atvinnureksturinn af skattþegnunum, sem eiga að greiða af rekstrinum til bæjar og ríkis, hljóta hinir borgararnir að verða varir við það á óþægilegan hátt. Þess vegna álít ég, að sú ein þróun sé sönn, sem er byggð á heilbrigðum grundvelli.

Hæstv. ráðh. sagði, að ef mínum reglum hefði verið fylgt, væri kaupfélag Rvíkur ekki til. Þetta er ekki rétt. Mín regla er sú, sem kemur fram í orðalagi þáltill., að kaupfélög og kaupmannaverzlanir eigi að sitja við sama borð hjá innflutningsn. Hitt játa ég, að það hefir sjálfsagt hleypt meiri og örari vexti í kaupfélag Rvíkur, að þeir, sem fara með gjaldeyrismálin, telja sér skylt að hlaða undir það á kostnað verzlunarstéttarinnar í bænum. Það kann að líta vel út í bili, en sú aðferð hefir áreiðanlega alltaf sínar skuggahliðar, að hefja upp eina stétt eða einn aðilja með því vísvitandi að hnekkja öðrum. Það er því fjarri því, að það sé rétt, að kaupfélag Rvíkur væri ekki til, ef mínum hugsanagangi væri fylgt, en hitt er annað mál, að ég er ekki sammála hæstv. ráðh. um, að það eigi að beita höftunum eins og gert er.

Hæstv. ráðh. minntist á 3. lið þáltill., um að birt verði í byrjun hvers árs áætlun gjaldeyris- og innflutningsn. yfir innflutning þann, sem veita á á árinu, svo að innflutningsn. hafi meira vaðið fyrir neðan sig og innflytjandi geti sjálfur séð, hve mikinn innflutning hann á að fá á því tímabili, sem áætlunin nær yfir. Hæstv. ráðh. taldi þetta illmögulegt, því að ekki væri hægt að sjá það fyrir, hve mikið mætti flytja inn. Ég játa, að það geta orðið örðugleikar á því fyrir allt árið, en það mætti gera slíka áætlun fyrir parta úr árinu. Það eru t. d. gefin ársfjórðungsleyfi. Ég skal ekki neita því, að þetta er kannske á ýmsan hátt erfitt, en ég held, að hæstv. ráðh. hafi gert heldur mikið úr því enda hefði hann ekki þurft að leggja þann skilning í till., að við flm. ætluðumst til, að allt planið væri lagt fyrir heilt ár í einu.

Ég er þakklátur hæstv. ráðh. fyrir, að hann lofaði bót á drættinum á innflutningsleyfunum og viðurkenndi, að þar væri eitthvert ólag á.

Hæstv. ráðh. sagðist skilja þau óþægindi, sem slíkur dráttur hefði í för með sér. Mér þykir afarvænt um að heyra, að hæstv. ráðh. vill reyna að kippa þessu í lag.

Ég skal játa það um 4. lið till., að hann er orðaður svolítið öðruvísi en ég mælti fyrir honum. Ég tók það fram í framsöguræðu minni, að það ætti ekki að skilja hann svo, að enginn ætti að hafa innflutningsleyfi, sem ekki hefði verzlunarleyfi. Við flm. skiljum, að það er óhjákvæmilegt í einstökum tilfellum að víkja frá því, en hitt er líka vitanlegt, að síðan höftin komust á, hafa einstaklingar pantað miklu meira af vörum en meðan verzlunin var frjáls. Vörur, sem verzlunum hefir verið neitað um að fá, hafa einstaklingum verið leyfðar. En innflutningsnefnd ætti að fara eftir þeirri höfuðreglu, að þær vörur, sem leyfðar eru, séu í höndum kaupmanna og kaupfélaga. Um iðnfyrirtækin þarf ekki að ræða. Þau verða auðvitað að fá þær vörur, sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að reka þá iðnframleiðslu, sem um er að ræða. Mér er vel kunnugt um það af eigin reynd, hvað stofnanir eins og t. d. Sjóklæðagerðin og viðskiptamenn hennar hafa orðið að bíða mikið tjón við það, að eiga vörur jafnvel mánuðum saman liggjandi á hafnarbakkanum og mega ekki taka þær heim. Hitt viðurkenndi hæstv. ráðh., að í skjóli iðnrekstrarins væru fluttar inn vörur, sem ekki væri hægt að skoða sem hrávörur til iðnaðar, heldur einskonar millihellingsvörur, ef ég mætti kalla þær svo, sem svo er bara skipt um umbúðir á og seldar sem innlend framleiðsla.

Hæstv. ráðh. sagði út af 7. lið till., að hann áliti ekki nauðsynlegt að skipa þá trúnaðarmenn, sem þar ræðir um. Kvartanir bærust sjaldan í fjmrn., og væru þá rannsakaðar til fulls. Ég vil vel trúa því, en hitt vitum við, að það eru margir, sem þykjast hart leiknir –kannske ekki alltaf með réttu, ég segi það ekki —, en þeir fara ekki alltaf í fjmrn. En það er áreiðanlegt, að það er báðum aðiljum í hag, að rannsakað sé, hvað rétt sé í slíkum kvörtunum og af hvaða ástæðum þær eru fram bornar. Mér dettur ekki í hug að vera svo ósanngjarn í garð innflutningsn. að trúa því, að allar slíkar kvartanir séu á fullum rökum reistar, þó að ég viti, að margt má betur fara en er, og að því stefnir hlutlaus rannsókn eins og gert ráð fyrir í þáltill.

Eitt var eftirtektarvert í ræðu hæstv. ráðh. Hann minntist á, hvernig halda ætti á málstað hinna óánægðu, og benti í því sambandi á einn mann í n., fulltrúa verzlunarstéttarinnar, sem tilnefndur er af Verzlunarráðinu, Björn Ólafsson. (SkG: Það er enginn nm. tilnefndur af Verzlunarráðinu). Nú, en hann hefir verið það áður. Hæstv. ráðh. gerði ekki ráð fyrir, að þeir, sem óánægðir væru, þyrftu annað en að hafa þennan mann í n. Ég leyfi mér að leggja þann skilning í þessi ummæli, að engir þurfi að vera óánægðir nema kaupmennirnir eða verzlunarstéttin, að dómi hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. sagði um úthlutun gjaldeyrisleyfa, að það sætu menn á rökstólum, sem ættu að gera till. um hana. Mér var ekki kunnugt um þá n., en af því að gjaldeyrismálin eru kapítuli út af fyrir sig og Framsfl. þarf eins og aðrir þingflokkar að hafa afskipti af þessum málum, en er nú farinn af fundi, mun ég fara fram á það við hæstv. forseta að fá að fresta ræðu minni þar til þetta mál verður aftur tekið á dagskrá. [Frh.].