02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 255 í D-deild Alþingistíðinda. (3013)

31. mál, gjaldeyrisverzlun o. fl.

Það er eitt slagorð, sem er næsta tamt hjá málsvörum þeirrar stefnu, sem hæstv. ráðh. fylgir. Þeir segja:

„Svona er það nú. Hvernig hefði það verið, ef Sjálfstæðismenn hefðu ráðið?“ Og því er þá líka spáð, að ástandið hefði orðið miklu lakara en það er nú. En þetta eru ekkert annað en spádómar. Sjálfstæðism. hafa ávallt, þegar þeir hafa ráðið þessum málum, ekki gengið visvitandi framhjá venjulegum viðskiptalögmáli. En þannig kaus ráðh. að taka á málunum. Þeim, sem hafa fengizt við verzlun, og raunar margt fleira, hlýtur að vera ljóst, að það eru viss lögmál í viðskiptalífinu, sem verður ekki brotið á móti til langframa án þess að það hefni sín. Það er visst lögmál, sem stjórnar því, að innflutningur og útflutningur og andvirði hans jafnar sig nokkuð upp af sjálfu sér, þó að ríkisvaldið gripi ekki of hastarlega fram í þau mál. Hitt er jafnvíst, að athafnir ríkisvaldsins gagnvart gjaldeyrismálum landsins geta því aðeins komið að fullum notum, að þeim sé stjórnað af góðvild og réttsýni gagnvart þeim mönnum, sem við þau eiga að búa. Það er undirstaðan undir því, að landsmenn yfir höfuð geti sætt sig við þessa ráðstöfun, sem á ýmsum tíma er álitin nauðsynleg, og getur verið undir vissum kringumstæðum. Hæstv. fjmrh. hefir ekki viljað sýna neinn lit á því að sætta innflytjendur landsins, þá sem herferðin hefir verið hafin á, við gjaldeyrisráðstafanir. Við flm. þessarar þáltill. viljum láta þingið stíga spor í þá átt að sætta alla við þessa ráðstöfun. Hjá lítilmegnugri þjóð eins og við Íslendingar erum fjárhagslega, þá er það mjög ógiftusamlegt, ef ráðstafa á þannig gjaldeyrismálum og innflutnings- og útflutningsmálum, að stór hluti þjóðarinnar getur ekki sætt sig við. Það er nú komin fram till. um að vísa þessu máli til stj. Og ég þykist vita, að ráðh. muni nota atbeina stuðningsmanna sinna á þingi til að koma þessu máli þann veg fyrir eins og það er nú flutt. En það út af fyrir sig mun ekki leysa þau vandræði, sem eru í gjaldeyrismálunum. Ég teldi miklu skynsamlegra, að gerð væri tilraun til þess, eins og við förum fram á, að fá réttlátari framkvæmd á þessu máli yfir höfuð að tala. Ég hefi hér áður bent á — og skal taka það fram með sérsiöku tilliti til gjaldeyrismálanna sjálfra —, að eitt af stærstu fyrirtækjum landsins, S. Í. S., hefir síðan gjaldeyriseftirlitið hófst haft algera sérstöðu með sinn gjaldeyri, ráðstafað sjálft sínum gjaldeyri fyrir þær vörur, sem það fær leyfi til að flytja inn. Samband Ísl. samvinnufélaga hefir því haft aðstöðu til að standa í skilum við sína viðskiptamenn, á meðan aðrar verzlunarstéttir í landinu verða að búa við að vera gerðar að vanskilamönnum við þá útlendu viðskiptavini, sem hafa borið traust til þeirra.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. En ég vil undirstrika það, að það er fyllsta nauðsyn fyrir ríkisvaldið að vanda sig vel um framkvæmd á lagasetningu, sem jafnmikið grípur inn á starfssvið heillar þjóðar og gjaldeyris- og innflutningslögin gera. Það er stærsta atriðið, að ekki sé gerður leikur til þess að misbeita þessum lagaákvæðum. Það er nærtækt dæmi, sem við höfum í þessu efni til samanburðar. hvernig Danir framkvæma sín innflutningshöft og gjaldeyrislög. Frá því hefi ég skýrt og bent á, og gengur sú stefna algerlega í bága við stefnu hins íslenzka ráðherra.