03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Emil Jónsson:

Það er alveg rétt, eins og hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það virðist eins og því sé slegið föstu af hv. 1. þm. Rang., að það rekstrarfyrirkomulag, sem vakað hefir fyrir honum og hans flokki, Framsfl., hafi verið það, að útgerð þessara skipa, sem fá að njóta þessa styrks, eigi að reka sem samvinnufyrirtæki og að annað geti helzt ekki komið til greina. Það kemur mér á óvart, því að í l. er ekkert um þetta sagt og ekkert tekið fram um útgerðarform viðvíkjandi þessum styrk, þannig að eftir orðalagi l. getur bæjarútgerð og hvert annað útgerðarform með félagsrekstri átt rétt til þessa styrks. Og þegar ég í mínni fyrri ræðu lýsti eftir þeim rökum, sem þessi hv. þm. hefði um það að flytja, hvers vegna mína till. bæri ekki að samþ., þá voru rökin þau, að það væri samvinnuform, sem hentaði betur þessari útgerð heldur en það form, sem er á bæjarútgerð; það hefði ekki verið til þess ætlazt, eins og hann sagði, að útgerðin, sem hér kemur til greina, yrði höfð á þann hátt, að þeir, sem ynnu á skipunum, gerðu nokkrar kröfur, heldur yrðu þeir að sætta sig við þann hlut, sem fengist í hverri veiðiför, og að haft yrði sama samvinnufyrirkomulag á útgerðinni og reynt hefir verið á nokkrum stöðum. En ég fullyrði, að þetta fyrirkomulag er ákaflega óheppilegt og ekki líklegt til að leysa það vandamál, sem með því hefir verið reynt að leysa. Þegar félag er stofnað með hlutafé, sem er innan við 7% af því, sem útgerðin þarf til þess rétt að geta komizt af stað, og ekki einu sinni það, því að það er ekki nema 7% af kaupverði skipanna, sem hér er til tekið, og vantar það fé til rekstrarins, — þá má ekki mikið út af bera til þess að ekki sé líklegt, að félagið komist í gjaldþrot og öngþveiti. Það hefir nú gengið svo til undanfarin ár, að tap á útgerðinni hefir orðið það mikið, að það nemur kannske upp undir eins miklu eins og kaupi allrar skipshafnarinnar á ári. Og hvar eiga þá þeir sjómenn að standa, sem í slíka samvinnuútgerð hafa lagt, sem ekki gefur neitt í aðra hönd fyrir kaupi skipshafnarinnar, ef þeir fá kannske engan hlut, þegar eitt ár er stirt og illa aflast? Það eru minni líkur til þess, að þetta komi fyrir með nýtt skip en gamalt. Þó getur alltaf komið fyrir óvænt óhapp, fiskileysi og annað slíkt. Og þá kemur fram sá stóri galli á samvinnufélagsskapnum um útgerð móts við bæjarútgerð, að samvinnuútgerðin getur ekki staðið af sér storminn nema um stuttan tíma. Fé samvinnufélagsskapar, sem innstæðu getur átt, er svo takmarkað, að félagsskapurinn getur ekki með nokkru móti staðizt töp um stuttan tíma, hvað þá langvarandi. Og þó að menn eigi að hafa svo mikið í aðra hönd, sem þeir geta aflað, þá verða þeir þó að hafa það lágmark, sem þeir þurfa til þess að geta lifað. Eg fullyrði því, að þetta útgerðarform, samvinnufyrirkomulagið, sé kannske það óheppilegasta, sem. hægt er að hafa á útgerð. Og ef þetta á að vera það eina, sem til mála getur komið viðvíkjandi þessum styrk til útgerðarfélaga, þá fullyrði ég, að málið er komið inn á allt annan vettvang en því var ætlað upphaflega og að þá sé gengið á gerða samninga um það á milli Framsfl. og Alþfl.

Hæstv. atvmrh. (SkG) virtist vera á sama máli og hv. 1. þm. Rang., að það væru fyrst og fremst félög sjómanna sjálfra, sem stofnuð væru á líkan hátt og hv. 1. þm. Rang. vildi hafa þau, sem þarna gætu komið til mála. Hinsvegar vildi hann ekki mæla á móti því, að það gæti komið til mála, eins og nokkurskonar lægri möguleiki, að bæjarfélög gætu verið þátttakendur í slíkri útgerð. Ég þakka honum það nú ekkert, því að það er ekki hægt að teygja l. svo, að þetta geti komið til greina, hversu feginn sem hæstv. ráðh. kynni að vilja teygja l. svo.

Ég skal ekki fara langt út í ræðu hv. 9. landsk. um Suðurlandsbrautina. Enda er það mál, sem er útrætt mál að mestu og ákveðið. Þessum hv. þm. vildi ég benda á reynslu síðasta vetrar. þegar leiðin austur yfir Hellisheiði var ófær í 4 mánuði samfleytt. Þá var vegarstæðið um Þrengslin einnig það mikið undir snjó, að þó vegur hefði verið þar, hefði hann einnig verið ófær á sama tíma. En leiðin, sem nú er verið að undirbúa veg eftir, var á sama tíma svo snjólétt, að vegur, ef kominn hefði verið um hana, hefði verið fær allan veturinn.