10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (3042)

56. mál, riðuveiki í sauðfé

*Flm. (Stefán Stefánsson):

Þessi till., sem hér liggur fyrir á þskj. 67 og er borin fram af mér ásamt nokkrum öðrum hv. þm., er fram borin samkv. ósk nokkurra bænda í Svarfaðardal. Till. er þess efnis, að ríkisstj. láti fara fram nákvæma rannsókn á riðuveiki, sem gengið hefir um nokkurn tíma í Svarfaðardal og víðar. Og er jafnframt til þess ætlazt, að kostnaðurinn greiðist úr ríkissjóði. Ég skal taka það fram, að þessi veiki er ekkert nýtt fyrirbrigði. Veiki þessi mun hafa verið þekkt hér á landi undanfarna áratugi. En ég þori að fullyrða, að veikin hefir hvergi gert eins mikinn usla eins og nú í Svarfaðardal. Veikin kom fyrir 13 árum í dalinn, og er talið, að hún hafi borizt frá Skagafirði. Veikin fór framan af mjög hægt yfir, og er það nú 2 síðustu árin, sem hún hefir gert mestan usla. Hún hefir nú komið á 22 ný heimili í dalnum og drepið samtals um 300 fjár. Ég tel þess vegna ekki að ófyrirsynju, að bændur í Svarfaðardal leiti til Alþ. til að reyna að fá réttan sinn hlut, ef nokkur ráð mættu til þess verða. Það er eftirtektarvert, að veiki þessi virðist velja það bezta úr fjárstofninum. Það er ekki vitað, að hún taki fé á 1. ári, en hún tekur helzt fé á 2.–3. ári. Það hefir farið fram nokkur rannsókn á þessari veiki, en ekki borið þann árangur, sem æskilegur hefir verið. Sjúkdómsorsökin er enn ekki fundin, og meðan svo er, eru engar líkur til, að takast megi að hefta útbreyðslu veikinnar

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða þetta nánar, en vænti góðra undirtekta undir till. hjá Alþ. og ríkisstj. Ég vil að lokum óska eftir, að till. verði vísað til fjvn. til síðari hlutar.