10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 280 í D-deild Alþingistíðinda. (3043)

56. mál, riðuveiki í sauðfé

Sigurður E. Hlíðar:

Ég vil leyfa mér að segja örfá orð í sambandi við þessa þáltill., sem hér liggur fyrir. Mér þykir það rétt, af því að hún snertir starf mitt og af því að í það er vitnað á nokkrum stöðum, og ekki alstaðar farið að öllu leyti rétt með. Það skiptir nú að vísu ekki miklu máli um þessi alriði, en rétt skal þó vera rétt.

Það er sagt í upphafi grg., að ekki sé vitað að nokkurri kind, sem tekið hefir þessa veiki, hafi batnað. Mér þykir þetta fulldjúpt tekið í árinni. Ég veit um þó nokkur tilfelli, sem kindum hefir batnað þessi veiki. Ég hefi ekki ómerkari mann fyrir mér um þetta en Ingólf heitinn Bjarnarson. Veikin kom upp hjá honum og kindunum batnaði við sérstök meðul, sem þeim voru gefin. Ég veit einnig um fleiri tilfelli, sem svo er ástatt um að veikin hefir batnað. Annars má fullyrða það, að allur þorri kinda, sem veikina tekur, fer fyrr eða síðar af völdum hennar. Ég þykist hafa komizt að raun um, að veikin sé smitandi. Það er hægt að rekja feril hennar úr Skagafirði í Eyjafjörð, og eins suður á bóginn í Húnavatnssýslu. Hæstv. landbrh. bað mig fyrir 3 árum að rannsaka þessa veiki. Af þeim rannsóknum, sem ég hafði því tækifæri til að gera, komst ég að þeirri niðurstöðu, að það má gera ráð fyrir, að veikin sé smitandi. Ég hefi alltaf haldið því fram, að hér væri um skozku fjárveikina — „louping ill“ — að ræða. Það má segja, að Englendingar séu ekki komnir langt í því að lækna þessa veiki, en rannsóknir þeirra halda alltaf áfram og miðar vel í áttina.

Í sambandi við þessa þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta fara fram rannsókn á þessari veiki, þá vil ég spyrja, hvort hv. flm. hafa gert sér grein fyrir, hvað þeir eru að fara fram á. Nú er það vitanlegt, að þó að við höfum rannsóknarstofu hér á þessu landi, þá vantar okkur alveg sérfróðan mann, sem hefir vit á rannsóknunum. Það, sem þess vegna þarf að gera, er að fá sérstaklega faglærðan mann í þessum efnum til þess að annast rannsóknirnar. Þá fyrst er von um einhvern árangur. Erlendis er lögð sérstaklega mikil áherzla á að fá virkilega þá beztu menn, sem völ er á, til þess að annast slíkar rannsóknir. Ég sé enga ástæðu til, að við séum eftirbátar annara þjóða um þessi mál. Ég vil leggja sérstaka áherzlu á, að við ráðum til þessa mann, erlendan sérfræðing, sem fær er í þessari fræðigrein og við getum fyllilega treyst, því að þetta er virkilega eitt af mest aðkallandi málum okkar.