10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

56. mál, riðuveiki í sauðfé

Páll Zóphóníasson:

Mér þykir það ekkert undarlegt, þó að fram komi hér till. um að rannsaka eitt eða annað, sem orsakar vanhöld, sem eru í okkar sauðfé. Það er brýn ástæða til þess, að þau séu rannsökuð og hvað hægt sé að gera til að vinna bug á þeim. Fardagaárið 1935 —1936 er annað árið, sem hægt er að gera sér grein fyrir, hvað þessi vanhöld eru mikil, því að meðan engar skýrslur lágu fyrir um það, hvað miklu var slátrað í landinu, var ekki hægt að sjá, hvað misfórst af vanhöldum. Á þessu ári hefi ég reiknað út, að með 15 kr. verðlagi á hverri kind er það hvorki minna né minna en dálítið yfir 2 millj. kr., sem Íslendingar hafa farið á mis við, ef tekið er saman allt sauðfé, sem farizt hefir af vanhöldum. Þegar þessi tala er athuguð, er það ekkert undarlegt, þó að menn reyni að brjóta heilann um, hvernig hægt sé að vinna bug á þeim, eða fá rannsakaðar orsakir þeirra. Svo að ég snúi mér að þeirri veiki, sem hér er verið að ræða um, þá er ég ekki viss um, að munurinn á henni og hinni svokölluðu Hvanneyrarveiki sé svo mikill. Ég hefi séð margar kindur veikar af báðum þessum pestum og ekki séð mun á sjúkdómseinkennum. Og þegar ég 1926 sá í Skotlandi kindur með „looping ill“, þá virtust mér þar vera sömu einkennin. Það er sjálfsagt allt saman heilabólga. Þessi riðuveiki er sennilega sú veikin, sem nú er í okkar sauðfé, sem hefir verið hvað mest rannsökuð. Ég hygg, að það sé ekki sjaldnar en 5–6 sinnum, sem búið er að gera ráðstafanir til að rannsaka þessi veiki sérstaklega, en þrátt fyrir þetta er engin niðurstaða enn fengin. Með tilliti til þessa og fleira teldi ég réttara að orða till. öðruvísi, eða á þá leið að skora á stj. að láta rannsóknirnar beinast að einhverjum öðrum veikindum í fé, sem meira riður á að rannsökuð séu og eru útbreiddari. Ég er svo svartsýnn, að ég tel vafasamt um árangur, þó að till. yrði samþ. í þessu formi, en ég teldi hinsvegar heppilegt að skora á ríkisstj. að láta gera meira til þess að rannsaka vanhöld í fé yfirleitt. Byggist þetta m. a. á því, að í 20 ár er búið að vinna að því að rannsaka „looping ill“ í Englandi, en árangur er enginn enn. Árið 1933 var samþ. till. frá hv. þm. Borgf. um, að varið skyldi 10 þús. kr. til að rannsaka ormaveiki eða riðuveiki í fé. Þegar sú till. kom til framkvæmda og ég var látinn segja um það sem starfsmaður Búnaðarfélags Íslands, hvernig ætti að verja þessum 10 þús. kr., þá skoðaði ég ekki huga minn um að leggja til, að því yrði varið til að rannsaka ormaveikina, og þetta var reynt, með þeim árangri, að vanhöld af hennar völdum hafa minnkað stórlega. Annars er veikin ekki verri í Svarfaðardal en hún hefir víða og oft verið áður. Það eru sérstaklega tvö heimili, Vellir og Böggvisstaðir, er hafa misst allverulega af sínum fjárstofni. Það er ekki nema það, sem komið hefir fyrir áður, t. d. í Blönduhlíðinni, þegar Sigurður E. Hlíðar var að rannsaka þar og í Vatnsdalnum. Þó hefir ekki verið rannsakað það heimili, sem verst fór út úr veikinni. Það er Egg í Hegranesi. Þangað var enginn sendur, og hrundi féð niður þar á fáum árum. Þess vegna held ég, að það sé mjög þýðingarlítið hvað snertir árangur, að samþ. till. í því formi, sem hún er hér. Ég hygg, að hitt gæti haft þýðingu, að ýtt væri á það af Alþingi, að stj. yfirleitt léti rannsaka orsök vanhaldanna og reyndi að finna ráð til að minnka þau og bindi sig ekki við það, sem maður veit, að erfitt er að eiga við, heldur að menn beini fyrst kröftunum að því, sem nokkuð er víst um árangur, og myndi hann nást talsvert mikill með þeim öflum, sem við höfum yfir að ráða.