10.03.1938
Sameinað þing: 6. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í D-deild Alþingistíðinda. (3045)

56. mál, riðuveiki í sauðfé

*Flm. (Stefán Stefánsson):

Hv. 1. þm. N-M. tók að sjálfsögðu réttilega fram, að það mætti vera þingi og þjóð áhyggjuefni, hvað mikið fé fer forgörðum hjá bændum vegna þeirra búfjársjúkdóma, sem geisa yfir. Og vil ég fullkomlega taka undir það. Ég mun ekki á nokkurn hátt setja mig á móti því, — og ég geri ekki ráð fyrir, að meðflm. mínir geri það heldur — að tekin sé upp almenn rannsókn á búfjársjúkdómum hér á landi. En þessi till. er borin fram að ósk bænda í Svarfaðardal, eins og ég tók fram, og vegna þess er þetta bundið við rannsókn á riðuveikinni sérstaklega.

Hv. þm. vildi gera minna úr þessari veiki í dalnum en ástæða er til. Hann taldi veikina aðallega vera á tveim bæjum. En eins og getið er um í grg., eru það 56 fjáreigendur, sem hafa orðið fyrir tjóni. Enda þótt nefna megi dæmi, þar sem veikin er, mun hún hvergi hafa náð jafnmikill útbreiðslu og á þessum stað. Vegna þess að hv. þm. nefndi einstök heimili, þá má minna á sex heimili, sem nú hafa misst um 50 fjár, og fjárstofninn er yfirleitt ekki svo stór að hann megi við verulegri skerðingu. Ég veit ekki, hvað skýrslugerðin nær langt, og hve tapið hefir orðið mikið á síðastl. hausti, er þm. ekki kunnugt. Og þótt hv. þm. Ak. hafi tekizt, að hann segir sjálfur, að lækna eina kind, sem var með riðuveiki (SEH: Ég sagði nú þrjár.), þá var það ekki í Svarfaðardal, og grg. er mest við það miðuð. Annars var ræða hv. þm. mest um það, að mér skildist, að gera litið úr þeirri rannsóknastofu, sem ríkið hefir komið upp, og gera lítið úr þeim mönnum, sem afskipti hafa af rannsóknarstofunni, og þeim kröftum, sem yfirleitt eru valdir í þessu efni. Eins og mönnum er kunnugt, þá notar þessi hv. þm. hvert tækifæri, sem gefst, til þess að ráðast — enda þótt hann nefni ekki nöfn - á einn ónefndan mann, sem sé prófessor Díels Dungal, sem ég tel mjög óviðeigandi og að ástæðulausu gert.

Ég vil leggja það alveg í vald ríkisstj., hvernig þessari rannsókn yrði háttað. Ef engir kraftar eru til þess hér á landi og læknar svo lélegir, að þeim sé ekki teystandi, þá sé ég ekki, að neitt sé til fyrirstöðu, að fenginn sé dýralæknir eða sérfróður maður utanlands frá. eins og hv. þm. stakk upp á.

Ég held, að ég þurfi svo ekki að minnast neitt frekar á þetta, m vil aðeins endurtaka þá ósk mína, að till. verði vísað til fjvn.umr. loknum.