11.05.1938
Efri deild: 75. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

114. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn

*Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti! Á síðasta þingi bárum við hv. þm. Hafnf. og ég fram frv. viðvíkjandi því, að það ætti að heimila ríkisstj. að reisa nýja síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Þetta frv. var borið fram vegna þess, að sérstaklega hinn minni bátafloti landsmanna mun hafa beðið af því allmikið tjón hin síðari sumur, að ekki er hægt að losa þá við síld, svo neinu nemi, á Raufarhöfn. Einmitt á þessum stað er síldveiði mikil og geta verið feiknamikil uppgrip, ef ekki þarf að eyða of miklum tíma í siglingu. Þingið féllst á og samþ. þetta frv., þar sem ríkisstj. er heimilað að láta reisa nýja síldarverksmiðju á Raufarhöfn, er geti tekið til starfa á árinu 1938 eða 1939 og vinni úr 2500 málum síldar á sólarhring, verði nýtízku verksmiðja af þessari stærð, og svo er áskilið, að byggingu verksmiðjunnar skuli hagað þannig, að auðvelt sé að koma við stækkun á henni.

Þegar ég bar þessa fyrirspurn fram, var mér vitanlega engin hreyfing komin á málið, en hún er komin síðan, eins og kunnugt er. Í sambandi við frv. þetta var komið inn á stækkun ríkisverksmiðjanna á Siglufirði, og hefir tekizt að koma þeim upp í að vinna 2400 mál á sólarhring. Var tekið til þess lán í Englandi, sem nemur rúml. hálfri millj. kr., og samkv. hinni nýju lántökuheimild fyrir ríkisstj., sem samþ. hefir verið nýlega hér í þinginu, er í ráði að verja nokkrum hluta þess láns, eða einni millj., til byggingar síldarverksmiðju á Raufarhöfn. Að öðru leyti er mér ekki kunnugt um neinn undirbúning af hálfu ríkisstj., en hans er þörf, og hún mikil. Með l., sem samþ. voru á síðasta þingi, er gert ráð fyrir, að verksmiðjan geti tekið til starfa árið 1938 eða 1939, og held ég, að mér sé óhætt að segja, að hæstv. fyrrv. atvmrh. hafi ætlað sér að ná þeirri áætlun, að verksmiðjan yrði tilbúin ekki síðar en á vertíð 1939, enda eftir öllum sólarmerkjum að ráða ekki mikill búhnykkur fyrir hæstv. ríkisstj. að draga það miklu lengur en þörf er á.

Stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir skorað á hæstv. ríkisstj. um að hefjast handa í þessu máli, og þótt ekkert svar hefði borizt frá hæstv. ríkisstj., er ég bar fram fyrirspurn mína, má það teljast komið nú í sambandi við lánsheimildina.

Ef síldarverksmiðjan á Raufarhöfn á að vera komin upp ekki síðar en 1939, er nauðsynlegt, að undirbúningur undir það dragist ekki úr hömlu héðan af.

Í sambandi við þetta vil ég minna á, að Raufarhöfn er ekki góð höfn hvað dýpi viðkemur, en hún er falin ágæt, svo langt sem hún nær, þ. e. fyrir hæfilega smá skip, en það þarf að dýpka hana, og það talsvert. Nú mun stjórn síldarverksmiðjanna vera þetta ljóst, því 2. apríl s. I. skrifaði hún fjvn. og fór fram á, að rúm 50 þús. kr. fjárveiting yrði tekin upp til dýpkunar hafnarinnar. Sjálf gerir verksmiðjustj. ráð fyrir að búa til þær bryggjur, sem nauðsynlegar eru við höfnina, og kunnugir menn telja, að önnur hafnarmannvirki en bryggjur þessar séu ekki nauðsynleg, ef höfnin sé dýpkuð. Hv. fjvn. tók þetta erindi ekki svo alvarlega, að hún tæki afstöðu til, þess og svo tókum við hv. þm. Borgf. og ég okkur til og bárum fram við 3. umr. fjárl. heimild fyrir ríkisstj. til að útvega sér þessi rúm 50 þús. til að dýpka höfnina fyrir, með þeim fyrirmælum, að það yrði gert sem fyrst, helzt í sumar. Þessi brtt. okkar við fjárl. var felld af meiri hl. þingsins, að ég hygg að mestu leyti af hæstv. ríkisstj. og hennar flokki og þeim flokki, sem sérstaklega styður hana. Nú vil ég benda á í þessu sambandi, að Íslendingar eiga eitt tæki, sem heitið getur dýpkunarskip. Það er dýpkunarskip Vestmannaeyja, sem keypt var fyrir skömmu og hefir unnið mikið verk í Vestmannaeyjahöfn þann stutta tíma, sem það hefir starfað. Hinsvegar eru fjárhagsástæður okkar Vestmannaeyinga þannig nú, að varla munu vera tök á því þetta ár að leggja út í mikil hafnarmannvirki, ef þess væri kostur, að skipið væri notað einhversstaðar annarsstaðar við landið. Þá mundi ég telja heppilegra fyrir okkur að vinna heldur að öðrum framkvæmdum, því nóg er að vinna við Vestmannaeyjahöfn, þótt hún hafi verið í smíðum síðan 1914. En við viljum heldur leigja skipið í sumar, ef ríkið vildi taka það á leigu, meðan við söfnum kröftum fyrir nýtt átak. Þetta er eitt atriðið. Annað atriði, sem hæstv. ráðh. hlýtur að — hafa gert sér ljóst, er það, að þegar byggja á svo stórt mannvirki á Raufarhöfn eins og síldarverksmiðju, sem vinnur úr 2500 málum á sólarhring, og það svo stóra, að hæglega sé hægt að bæta við vélum, sem auka afköstin, þá er fyrirsjáanlegt, að nauðsynlegt er að dýpka höfnina áður en farið er að reisa verksmiðjuna, því byggingin hefir það í för með sér, að flutningaskip með þungavöru verða að komast til Raufarhafnar, því það getur orðið vandræðum bundið að fá hæfileg skip, sem geta farið inn í höfn, sem ekki hefir nema 13 feta dýpi um fjöru. Því virðist skynsamlegra, meðan ekki er hægt að hefjast handa um aðrar framkvæmdir, að framkvæma dýpkun hafnarinnar með því tæki, sem ég hefi þegar bent á og nú stendur til boða. Bæði er það, að nauðsyn er að dýpka höfnina með tilliti til þess, sem víða þarf að sér til byggingarinnar, og eins er þörf dýpkunar fyrir þau fiskiskip, sem þar eiga að flytja að og frá verksmiðjunni, sem og flutningaskipin. Virðist mér það hljóta að verða upphaf starfsins að gera höfnina sæmilega úr garði. Svo gæti farið, ef skip Vestmannaeyinga væri ekki notað í sumar eða næsta sumar, þá yrðum við Vestmannaeyingar að halda áfram með okkar dýpkun, svo ekki yrði auðvelt fyrir ríkisstj. að fá dýpkunarskip, nema þá útlent. Hér hefir t. d. starfað alllengi dýpkunarskipið „Uffe“, sem er dönsk eign. Að vísu mun mega nota það, en ég sé ekki, að það sé hagkvæmt fyrir landið, hvorki fyrir stjórn síldarverksmiðjanna eða þá, sem eiga að framkvæma verkið, að haga verkum sínum svo, að fá verði til þess útlent skip, sem yrði og með tilliti til gjaldeyrisútláta óhagkvæmara fyrir landið. Þar að auki myndu útlendingar þá fá vinnu, sem nú er kostur á að láta Íslendinga vinna, og skal ég ekki fara frekar út í þörf þá, sem hér er fyrir vinnu.

Ég verð að segja, að þetta tvennt, að hv. fjvn. svarar ekki bréfi stj. síldarverksmiðja ríkisins, og hitt, að hæstv. Alþ. beinlínis fellir till. um, að stj. skuli hafa heimild til að veita þetta fé til að hefja dýpkun hafnarinnar, — mér finnst þetta henda til, að nokkuð mikil deyfð og hugsunarleysi sé hjá hæstv. ríkisstj. um þetta mál. Það getur e. t. v. stafað af því, að hún hafi ekki litið á það í því ljósi, sem ég hefi reynt að bregða upp yfir þetta einstaka atriði, þörfina fyrir dýpkunina og hvernig megi haganlegast framkvæma hana.

Hinsvegar ætti að vera óþarft að benda á hina miklu nauðsyn, sem er á nýrri síldarverksmiðju á Raufarhöfn. síðasta Alþ. viðurkenndi hana með því að setja þessi l. Ef verulegt aflasumar kemur, hrökkva afkastamöguleikar núverandi verksmiðju þar skammt; hún vinnur aðeins úr 1100 málum á sólarhring. Vegna þess, að síðasta Alþ. viðurkenndi þessa þörf, höfum við hv. þm. Hafnf. borið fram þessa fyrirspurn.

Ég vil sérstaklega biðja hæstv. ráðh. að leysa úr því, hvað hæstv. ríkisstj. ætlar sér í þessu máli, og eins það, þar sem ég hefi bent hæstv. ráðh. á, að á þessum stað virðist sjálfsagt að byrja vinnu við dýpkunina á höfninni, hvort hann áliti ekki, að minn skilningur sé sá rétti, sem er sá sami, sem stjórn síldarverksmiðjanna hefir látið í ljós í bréfi sínu. Eins langar mig til að heyra, hvort hæstv. ráðh. er mér ekki sammála um það, að heppilegra sé að nota innlent skip til þessa verks heldur en að biða til þess tíma, þegar verður að leita til útlendra verksala til að fá verkið unnið.