11.05.1938
Efri deild: 75. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

114. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn

*Atvmrh. (Skúli Guðmundsson):

Út af þeirri fyrirspurn, sem hér liggur fyrir á þskj. 303 um það, hvað liði undirbúningi byggingar nýrrar síldarverksmiðju á Raufarhöfn, vil ég gefa þær upplýsingar, sem ég hefi fengið frá hæstv fyrrv. atvmrh. Haraldi Guðmundssyni, að tilgangi þeirra l., sem samþ. voru á síðasta þingi, hafi verið framfylgt þannig, að hann hafi leitað til stjórnar síldarverksmiðja ríkisins og framkvæmdarstjóra og óskað eftir áliti þeirra um, hvort hægt yrði að koma þessu í framkvæmd fyrir síldveiðitímann 1939, að reisa þessa nýju verksmiðju á Raufarhöfn. Var af forráðamönnum ríkisverksmiðjanna talið útilokað með öllu, að það atriði framkvæmdar þessarar tækist. Þá var ákveðið að stækka síldarverksmiðjuna á Siglufirði, og er talið, að það muni takast að ljúka því fyrir næstu síldarvertíð. Var lagt fyrir stjórn síldarverksmiðjanna að láta gera kostnaðaráætlun og uppdrátt að hinni væntanlegu verksmiðju á Raufarhöfn. Lausleg áætlun, sem hefir verið gerð, sýnir, að verksmiðjan muni kosta um eina milljón, og eins og hv. þm. Vestm. tók fram í sinni ræðu, er gert ráð fyrir því, samkv. frv., sem samþ. hefir verið um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán. að af því láni verði einni milljón varið til þessarar framkvæmdar og hefir verið áformað, að verksmiðjan geti komizt upp fyrir síldarvertíð 1939.

Um dýpkun hafnarinnar er það að segja, að um það hefir ekkert verið talað í ríkisstj. síðan ég tók þar sæti, og get ég ekkert upplýst um það sem stendur, hvenær af þeim framkvæmdum verður eða hvernig þeim verður hagað.